1 Mars 2025 11:41
Bifhjól hafa mjög lengi komið við sögu hjá lögreglunni, eða allt frá því á fyrri hluta síðustu aldar. Nokkru seinna var svo sérstök umferðardeild lögreglunnar sett á fót, en tilkynnt var um stofnun hennar á fundi yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík þann 16. júní 1960. Aðaluppistaða deildarinnar var bifhjólasveit lögreglunnar, svo og lögregluþjónar á öðrum vélknúnum farkosti eftir því sem aðstæður leyfðu. Stofnun umferðardeildar vakti nokkra athygli en um málið var fjallað í einu dagblaðanna 21. júní 1960.
„Vísi bárust frétttir af að búið væri að stofna nýja deild, svokallaða umferðardeild, innan lögreglunnar. Eru í deildinni menn með 3 bíla og 8 mótorhjól. Aðsetur deildarinnar er í einum af skálunum í skátaheimili og telja þeir það mjög heppilegan stað fyrir starfsemi sína. Starfið hefst á hverjum morgni kl. 10, og er þá allt sett á stað, hvert mótorhjól fær sitt hverfi, en þau eru 8 alls sem fyrr segir og eru bílarnir þeim til aðstoðar. Einnig tekur einn bíllinn hverfi alveg, bili eitthvert mótorhjólanna. Vaktirnar eru 3 og sömu mótorhjólin alltaf notuð en sérstaka þjálfun þarf í meðferð þeirra, sérstaklega hinna stærri.“
Meðfylgjandi eru nokkrar gamlar myndir af bifhjólamönnum lögreglunnar, en sú yngsta var tekin snemma á níunda áratugnum. Á henni má sjá Guðbrand Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í umferðardeild, en hann var að láta af störfum í lögreglunni eftir 45 ára feril.