5 Júní 2025 11:40
Njarðvíkurskóli varð hlutskarpastur í stuttmyndakeppni Sexunnar 2025 með
stuttmyndinni Áhrif eineltis. Í öðru sæti var Hólabrekkuskóli með stuttmyndina
Slagsmál en þriðja sæti hlaut Rimaskóli fyrir stuttmyndina Stafræn sár.
Sexan er jafningjafræðsluverkefni sem ætlað er að fræða ungt fólk um
birtingarmyndir stafræns ofbeldis. Viðfangsefni stuttmyndanna er tæling,
nektarmynd, samþykki eða slagsmál ungmenna. Auk þess er opinn flokkur fyrir
önnur mikilvæg málefni sem 12-13 ára krökkum þykja mikilvægt að varpa ljósi á.
Hvatningarverðlaun Sexunnar eru einnig veitt fyrir eftirtektarverða tækninotkun,
efnistök eða aðferðir. Í ár hlaut Hrafnagilsskóli Hvatningarverðlaun Sexunnar fyrir
að tefla fram leikurum af erlendum uppruna í burðarhlutverk og sýna á skýran hátt
hvernig ungmenni geta leitað aðstoðar í tilfellum stafræns ofbeldis.
Sigurmyndirnar fjórar verða sýndar á Barnakvikmyndahátíð í Bíóparadís í haust
en þar verður dagskrá tileinkuð Sexunni, sigurmyndum fyrri ára sem og
viðfangsefnum keppninnar; stafrænt ofbeldi. Stuttmyndirnar verða jafnframt gerðar
aðgengilegar í spilara KrakkaRÚV, Youtube rás Neyðarlínunnar og sendar í alla
grunnskóla landsins sem fræðsluefni um stafrænt ofbeldi og geta þannig nýst
þeim skólum sem ekki taka þátt sem og komandi kynslóðum.
Kjarni verkefnisins er að ungt fólk fræði ungt fólk. Þau eru best til þess fallin að
varpa ljósi á þeirra veruleika og hvar helstu áskoranirnar leynast í daglegu lífi
ungmenna. Stuttmyndirnar mega mest vera 3 mínútur að lengd og hver skóli má
mest senda þrjár stuttmyndir. Nemendur hafa frjálsar hendur með handritagerð,
kvikmyndatöku og eftirvinnslu. Nemendur af erlendum uppruna, hinsegin og
fatlaðir nemendur eru sérstaklega hvattir til að taka þátt.
Sexan er forvarnar- og fræðsluverkefni breiðrar fylkingar samstarfsaðila sem öll
láta sig lýðheilsu ungmenna varða: Neyðarlínan, Reykjavíkurborg, Samband
íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofa, Barna- og fjölskyldustofa, Fjölmiðlanefnd,
Samskiptafulltrúi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Heilsueflandi grunnskóli, Barnaheill,
Ríkislögreglustjóri, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og RÚV.