20 Júní 2016 10:41

Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands hefur ákveðið að úthluta 2.5 mkr. styrk í rannsókn á stöðu og þróun jafnréttismála innan starfsmannaþáttar embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Helstu samstarfsaðilar eru embætti ríkislögreglustjóra, innanríkisráðuneytið, Mark, Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna við Háskóla Íslands og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Meginmarkmið rannsóknarinnar verður m.a. að leggja traustan grunn að markvissri stefnumótunarvinnu í jafnréttismálum sem getur nýst lögreglunni í heild sinni. Er þetta í takt við þær áherslur sem embætti ríkislögreglustjóra hefur haft í jafnréttismálum lögreglunnar, þ.e. að vinna að því að jafna hlut karla og kvenna innan lögreglunnar og efla til frekari rannsókna á stöðu jafnréttismála innan lögreglunnar.