16 Júní 2025 15:16
Um helgina brautskráðust 57 lögreglunemar úr lögreglufræði frá Háskólanum á Akureyri. Nokkrir fulltrúar frá ríkislögreglustjóra voru viðstaddir við útskriftina og hélt Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn neðangreint erindi fyrir nýútskrifaða lögreglumenn:
„Þið getið verið viss á að kröfur um heiðarleika og hugrekki lögreglunnar munu ekki breytast.
Það krefst hugrekkis að vera lögreglumaður. Ekki bara vegna hættunnar – heldur vegna mannlegra ákvarðana sem þarf að taka – aftur og aftur. Það er auðvelt að segja „svona á að gera þetta“. En það er erfiðara – og oft mikilvægara – að segja: „Hvað þarf þessi manneskja í þessum aðstæðum?“
Við þurfum líka lögreglufólk sem geta verið leiðtogar – ekki aðeins varðandi löggæslu heldur líka í samfélaginu sjálfu. Það orðaði Ruth Bader Ginsburg (1933-2020), bandarískur hæstaréttardómari, sem í hugum margra er tákn kvenfrelsis og réttlætis, svona: „Fight for the things that you care about – but do it in a way that will lead others to join you.“ En það er meðal annars það sem þið hafið undirbúið ykkur fyrir hér í náminu, – það að berjast fyrir réttlæti og öryggi – með háttsemi sem fær aðra til að treysta ykkur, fylgja ykkur og tala við ykkur.
Kæru lögreglunemar,
Þið eruð ekki aðeins að vinna með lögin – heldur með líf fólks. Þið eruð ekki aðeins að læra að beita valdi. Þið eruð líka að læra að velja hvenær það á ekki að beita því. Þið eruð ekki aðeins fulltrúar ríkisins – heldur líka vonarinnar um að það sé alltaf hægt að snúa hlutunum til betri vegar.
Samfélagið leggur traust sitt á ykkar herðar og veitir ykkur dýrmætt vald. Og það traust byggir ekki á búningnum ykkar – heldur á hegðun ykkar, og nálgun ykkar í hverju verkefni – og þeim óbreytanlegu gildum sem einkenna starf lögreglunnar. Það sprettur af því hvernig þið mætið fólki. Hvernig þið haldið reisn ykkar sjálfra og annarra.
Kæru lögreglumenn,
Reisn mannsins er ekki sjálfgefin. Hún verður ekki til með kerfum og verklagsreglum einum saman. Reisnin verður til með því hugarfari sem við tileinkum okkur. Hún stendur og fellur með okkur og hvernig við tökumst á við vandann. Til hamingju með daginn – og gangi ykkur allt í haginn.
Samfélagið þarf á ykkur að halda – og það þarf á hugrekki ykkar, heiðarleika og mannúð að halda.“
Embætti ríkislögreglustjóra óskar þessum glæsilega hópi innilega til hamingju með áfangann.