Mynd tekin á Seyðisfirði 22. desember/ríkislögreglustjóri
26 Desember 2020 14:14

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi:

  • Áfram hættustig á Seyðisfirði og rýming að hluta í gildi vegna skriðuhættu.
  • Rýming verður endurskoðuð 28. desember.
  • Fylgst er vel með aðstæðum ofan Eskifjarðar

Eskifjörður:
Veðurstofa Íslands hefur ásamt samstarfsaðilum sett upp vefmyndavél sem beint er að sprungum sem mynduðust í gamla Oddsskarðsveginum í síðustu viku.  Auk þess eru fastpunktar mældir einu sinni á dag til þess að athuga hvort vart verði við hreyfingar í hlíðinni. Það er gert til þess að geta brugðist við ef aðstæður breytast á næstu dögum.  Síðustu mælingar benda þó til þess að allt sé með kyrrum kjörum.

Seyðisfjörður:
Engar tilkynningar hafa borist um skriður eða drunur á svæðinu.  Mælingar í morgun sýna að lítil sem engin hreyfing hafi orðið á upptakasvæðum skriðufalla frá því í gær.  Á morgun er spáð hríðarveðri sem færist yfir í rigningu með 15-20 m/s um miðjan daginn. Um kvöldið kólnar aftur með snjókomu.  Að þessum sökum mun endurskoðun á rýmingarsvæðinu ekki fara fram fyrr en á mánudaginn 28. desember og niðurstöðu má vænta seinni part mánudags.   Á meðan veðrið gengur yfir á sunnudag má búast við að færð spillist á Fjarðarheiði og fólk því beðið að fylgjast vel með færð á vegum og viðvörunum á www.vedur.is og www.vegag.is.

Staðan er metin daglega og yfirfarin á samráðsfundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Austurlandi, Veðurstofu Íslands, sveitarfélögum.  Tilkynninga frá þeim fundum má vænta að fundum loknum. Tilkynningar verða sendar fjölmiðlum, og birtar á vefsíðum og á samfélagsmiðlum lögreglunnar á Austurlandi og almannavarnadeildar RLS.  (www.logreglan.is og www.almannavarnir.is).  Ef aðstæður breytast hratt munu tilkynningar þess efnis verða sendar út.

Þjónustumiðstöð almannavarna opnar á morgun í Herðubreið 27. desember kl 11, en yfir jólin er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið sey@logreglan.is. Ef erindið er brýnt má hringja í 839 9931. 

Mynd tekin á Seyðisfirði 21. desember/ríkislögreglustjóri