16 Febrúar 2018 10:07

Félagsvísindastofnun hefur tekið saman niðurstöður úr könnun á viðhorfum til lögreglu, þjónustu og starfa hennar. Könnunin var lögð fyrir 4.000 manna lagskipt tilviljunarúrtak af landinu öllu, 2.000 svarenda voru af höfuðborgarsvæðinu og 2.000 af landsbyggðinni. Könnunin var lögð fyrir netpanel félagsvísindastofnunar og var svarhlutfallið 63%. Niðurstöður eru birtar í tveimur skýrslum; í annarri eru teknar saman upplýsingar fyrir allt landið og í hinni eru niðurstöður fyrir höfuðborgarsvæðið greindar sérstaklega.

Í skýrslunum kemur m.a. fram að árið 2016 leituðu 36% landsmanna eftir einhvers konar þjónustu lögreglu sem er svipað hlutfall og árin á undan. Af þeim sem leituðu til lögreglu hringdu flestir í Neyðarlínu (112) (49%) og næstflestir höfðu samband í gegnum samfélagsmiðla (31%).

Um það bil 72% landsmanna telja lögreglu frekar eða mjög aðgengilega og er þetta hlutfall örlítið lægra en á allra síðustu árum. Íbúar á Suðurnesjum eru líklegastir til að telja lögregluna aðgengilega (81%) en hlutfallslega fæstir íbúar á höfuðborgarsvæðinu segja hið sama (66%), og er munurinn marktækur

Þegar svör íbúa höfuðborgarsvæðisins voru greind nánar mátti sjá að mikill meirihluti höfuðborgarbúa telja lögregluna skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum í sínu hverfi, eða um 85%. Örlítið hærra hlutfall höfuðborgarbúa, um 87%, bera traust til lögreglunnar og um níu af hverjum tíu segja lögregluna vera lögmætt yfirvald og að fyrirmælum hennar beri að fylgja.

Álíka hátt hlutfall höfuðborgarbúa og íbúa á landsbyggðinni leitaði eftir þjónustu lögreglunnar árið 2016, eða um 35%. Líkt og á landsbyggðinni hringdu flestir á Neyðarlínu og um 35 prósent nýttu samfélagsmiðla. Ánægja þeirra sem leituðu þjónustu lögreglu var lang mest hjá þeim sem nýttu samfélagsmiðla, þar sem um 95% þeirra voru mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna.

 

Niðurstöður könnunarinnar fyrir allt landið má finna hér

Niðurstöður með nánari greiningu fyrir höfuðborgarsvæðið má finna hér