2 Ágúst 2016 14:40

Þrír ökumenn voru stöðvaðir í liðinni viku, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn var stöðvaður 27. júlí á Ísafirði, annar 29. júlí í  og sá þriðji þann 1. ágúst. Báðir þeir síðasttöldu í Ísafjarðardjúpi.  Sá síðasttaldi er einnig grunaður um ölvun við akstur.

Tveir gistu fangageymslu á Ísafirði um sl. helgi. Annar aðilinn, 17 ára gamall, fannst ölvaður inni á vínveitingastað á Ísafirði.  Hann lét ófriðlega og var settur í fangaklefa.  Hinn var einnig ölvaður og með ólæti.  Báðir voru látnir sofa úr sér vímuna og hleypt út þegar þeir höfðu náð jafnvægi.

Þann 1. ágúst varð lögreglan þess áskynja að fólksbifreið, sem ekið var um Strandasýslu, var á negldum hjólbörðum, allan hringinn. Ökumanni var gerð sekt fyrir athæfið.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu í miðbæ Ísafjarðar.

Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni en í bifreiðinni, sem hann ók, voru fleiri farþegar en bifreiðin er gefin upp fyrir. Ungt barn sat í kjöltu fullorðins farþega. Um var að ræða erlendan ökumann sem virtist ekki vita að slíkt væri bannað.

Sex aðilar voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti, þar af tveir farþegar. Í öllum tilvikum var um að ræða aðila sem óku um götur í Vesturbyggð.  Óþarfi er að minna á mikilvægi öryggisbelta og skiptir þá engu hvort um stuttar eða langar leiðir er að ræða.

Þá höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni fólksbifreiðar sem var með í eftirdragi stórt hjólhýsi. Hjólhýsið var það stórt að ökumaður gat ekki séð aftur fyrir hýsið.  Mikilvægt er að ökumenn sem aka með slíka eftirvagna setji upp viðurkennda framlengingu á hliðarspeglana.  Slíkt er til sölu í mörgum verslunum sem þjónusta bifreiðar.

120 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Hraði þessara ökutækja sem við á var mældur meira og minna í öllu umdæminu.

Tilkynnt var um fjögur umferðaróhöpp í liðinni viku. Í einu tilvikinu var um að ræða bílveltu í Breiðuvík.  Engin meiðsl urðu á ökumanni eða farþega við það óhapp.  Hin þrjú óhöppin voru minni háttar og engin slys hlutust af.

Lögreglan var með aukið eftirlit í sl. viku, um helgina og í gærdag á öllum helstu akstursleiðum í umdæminu. Eins og ofan greinir voru 120 ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur og þrír grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna.  Ætla má að slíkt eftirlit hafi haft þau áhrif að ökumenn gættu betur að sér.

Skemmtanahald fór almennt vel fram þar sem það átti sér stað í umdæminu og allir komu heilir heim.