16 Febrúar 2016 11:46

Þann 9. febrúar framkvæmdi lögreglan húsleit í heimahúsi í Bolungarvík. Þar fannst ein kannabisplanta og ýmislegt annað sem bendir til þess að íbúi og eigandi plöntunar hafi ástundað ræktun og neyslu kannabisefna undanfarið. Aðili þessi hefur áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála.

Að kveldi 12. febrúar stöðvuðu lögreglumenn ökumann bifreiðar sem átti leið um Súðavík. Við leit fundust fíkniefni á farþega bifreiðarinnar og eins á heimili hans.  Efnistegundirnar sem fundust voru kókaín og amfetamín, alls um 10 grömm.  En einnig fundust áhöld til neyslu kannabisefna.  Að auki fundu lögreglumenn í fórum mannsins lyfseðilsskyld lyf sem hann gat ekki gert grein fyrir.  Fíkniefnaleitarhundurinn Tindur aðstoðaði lögreglumenn við leitina.

Um miðjan dag laugardaginn 13. febrúar var lögreglu tilkynnt um flugatvik á flugbrautinni við Hólmavík. Þar hafði lítilli einkaflugvél verið lent á snæviþakinni flugbrautinni og í lendingu steyptist vélin á koll.  Auk flugmanns var einn farþegi í vélinni.  Hvorugan sakaði.  Lögreglumaður frá Hólmavík og fulltrúi Samgönguslysa fóru á vettvang og önnuðust rannsókn á tildrögunum.  Flugvélin, sem er mikið skemmd, var flutt samdægurs til Rvíkur til frekari rannsóknar.

Ein líkamsárásarkæra barst til lögreglunnar í liðinni viku. Málið varðar átök sem munu hafa átt sér stað á dansleik í Ísafjarðarbæ í lok síðustu viku.  Málið er til rannsóknar.

Fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Þessir ökumenn áttu leið um vegi í Ísafjarðarbæ.

Tekin voru skráningarmerki af þremur ökutækjum í vikunni. Viðkomandi ökutæki höfðu ekki verið færð til lögbundinnar skoðunar og komnar langt yfir frest.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka gegn einstefnu á Ísafirði.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar. Einn þessara ökumanna reyndist einnig með útrunnið ökuskírteini.  Lögreglan vill minna ökumenn á að láta sér ekki detta til hugar að nota farsíma án handfrjáls búnaðar í akstri.  Fjölmörg slys má rekja til þessara brota.

Ástæða er til að minna ökumenn vélsleða að akstur innan þéttbýlis er stranglega bannaður. Þurfi að færa slík torfærutæki milli staða innanbæjar þarf að flytja þau á palli eða vagni.