19 Febrúar 2025 10:28

Í vetur verður lögð sérstök áhersla á öryggi skemmtana tengd skólum með vitundarvakningunni „Góða skólaskemmtun“. Vitundarvakningunni Góða skólaskemmtun er ætlað að stuðla að öruggum og ánægjulegum skemmtunum fyrir öll, með áherslu á samstöðu gegn hvers kyns ofbeldi á viðburðum tengdum skólum.

Markmið vitundarvakningarinnar er að draga úr tíðni ofbeldisbrota, með sérstakri áherslu á kynferðisbrot og vopnalagabrot. Innlendar rannsóknir benda til þess að algengi ofbeldisbrota sé hærra meðal ungs fólks en heilt yfir. Þannig sögðust 13% nemenda hafa orðið fyrir árás (ráðist á þau eða þau lamin) síðastliðna 12 mánuði samkvæmt könnun íslenskra æskulýðsrannsókna árið 2023 meðal framhaldsskólanema. Þegar spurt var í sömu könnun hvort nemandi hefði orðið fyrir tilraun til nauðgunar yfir ævina, sögðust 20% hafa orðið fyrir slíku ofbeldi.

Önnur markmið er að auka þekkingu allra samstarfsaðila á því hvernig er hægt að fyrirbyggja neikvæð atvik og draga úr áhættu tengt viðburðum. Þá hefur verið unnið að því að móta skýrt ferli við neyðaratvikum og tryggja stuðning við þolendur.

Þá verður lögð áhersla á að greina og taka á nýjum áskorunum í næturlífinu.

Meginskilaboð vitundarvakningarinnar eru:

  • Góð skemmtun er þegar öll koma heil heim. 112 aðstoðar í neyð.
  • Kynmök án samþykkis er nauðgun. Skemmtum okkur vel án ofbeldis.
  • Vopnaburður á almannafæri er bannaður. Góða skemmtun á skólaballinu.

Vitundarvakningin stendur frá febrúar fram til lok vorannar og verður unnin í samstarfi lögreglu, Neyðarlínu og skólasamfélagsins alls.

Við hvetjum öll til að taka þátt og gera sitt til að stuðla að öruggum og ánægjulegum skólaskemmtunum í vetur.

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, netfang helena.sturludottir@logreglan.is