24 Janúar 2022 10:29

Eldur kom upp í vélaskemmu á sveitabæ í Landsveit þann 17. janúar s.l. Ábúandi á bænum varð eldsins var og kallaði til slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu.   Kalla þurfti til slökkviliðs á ný daginn eftir en þá tók að loga í rústunum.   Eldsupptök eru í rannsókn en fyrir liggur að unnið var við járnsmíðavinnu nokkru áður en eldsins varð vart.

6 Kannabisplöntur fundust við leit lögreglu í íbúðarhúsnæði í Sveitarfélaginu Hornafirði.   Húsráðandi kannaðist við að eiga þær og er málið til rannsóknar og síðar til meðferðar á ákærusviði.

Leigubifreiðastjóri kallaði til aðstoðar lögreglu að kvöldi 20. janúar, þá staddur á bifreiðastæði við Skeiðavegamót.  Farþegar í bílnum höfðu orðið ósáttir og slegið til leigubílstjórans sem meiddist lítilega og gleraugu skemmdust.  Annar farþeganna gisti fangageymslur á Selfossi og var yfirheyrður um málsatvik morguninn eftir.

Tvö mál er varða  heimilisofbeldi komu til rannsóknar í liðinni viku og afgreiðast í samræmi við málmeðferðarreglur þar um.

18 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku.   10 þeirra stöðvaðir af lögreglumönnum í Vík og á Kirkjubæjarklaustri og þar sáust tölur eins og 138 og 140 á 90 km/klst vegi.   Þrír af þessum 18 voru mældir innan þéttbýlis þar sem lægri hámarkshraði er.

Einn ökumaður var stöðvaður á Austurvegi á Selfossi og handtekinn grunaður um akstur sviptur ökurétti og  undir áhrifum fíkniefna.  Annar var stöðvaður á Selfossi og sá grunaður um að aka undir áhrifum áfengis.   Báðir þessir aðilar á ferðinni um miðjan dag.

Kona sem stöðvuð var við akstur bifreiðar sinnar án þess að hafa til þess gild ökuréttindi sætir kæru fyrir hegningalagabrot auk umferðarlagabrotsins því hún reyndi að villa á sér heimildir með því að gefa upp nafn annarrar konu sem sitt eigið og komast þannig undan sök.

Ökumaður fólksbifreiðar var stöðvaður á Fljótshlíðarvegi með barn laust í framsæti og annað í fanginu í stað þess að búa rétt að þeim í bifreiðinni.  Kvaðst hafa ætlað stutta vegalengd um fáfarinn veg.  Sætir sektum.

4 ökumenn sektaðir fyrir að aka bifreiðum sínum með ljósabúnað í ólagi.

Ökumaður og farþegi bifreiðar sem valt á Biskupstungnabraut við Tannastaði þann 23. janúar voru flutt til aðhlynningar á sjúkrastofnun með minniháttar meiðsl. Þá slasaðist ökumaður bifreiðar sem valt á Bugavegi í Rangárþingi ytra þann 17. janúar.  Bifreiðin hafnaði í skurði og þar var ökumaðurinn fastur í um það bil klukkustund og gat ekki látið vita af sér því sími hans lenti í vatni og varð óvirkur.  Aðstoðaður af vegfaranda sem kom honum undir læknis hendur á HSU á Hellu..