Sendingin mín með vopni (önnur vopn en skotvopn) var stöðvuð af hálfu Tollgæslusviðs Skattsins og ég vil sækja um leyfi til að flytja hana inn:

Ástæða þess að sending hefur verið stöðvuð í tollinum er að vopnið fellur að öllum líkindum undir 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 en þar kemur fram að bannað er að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum:

  1. bitvopn ef blaðið er lengra en 12 sm, enda sé það ekki ætlað til notkunar við heimilishald eða atvinnu,
  2. fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf, fallrýting, stunguvopn eða önnur slík vopn,
  3. höggvopn, svo sem hnúajárn, gaddakylfu, felukylfu, kylfu sem ekki er ætluð til íþróttaiðkunar eða önnur slík vopn, svo og rafmagnsvopn,
  4. sverð, sem eru sambland högg- og bitvopna,
  5. kaststjörnu, kasthníf eða önnur slík vopn,
  6. lásboga, langboga, slöngubyssu eða önnur slík vopn, svo og örvarodda. Þetta tekur þó ekki til boga sem ætlaðir eru til æfinga eða keppni í bogfimi.

Embætti ríkislögreglustjóra getur veitt undanþágu frá banni 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 ef sérstakar ástæður eða söfnunargildi eru fyrir hendi, sbr. 3. mgr. 30. gr. vopnalaga 16/1998 er hljóðar svo: Heimilt er að víkja frá banni 2. mgr. með leyfi ríkislögreglustjóra ef vopn hefur söfnunargildi eða sérstakar ástæður mæla með.

Söfnunargildi í skilningi ákvæðisins á almennt ekki við um nýsmíði eða eftirlíkingar.

Ítreka ber að um undanþáguheimild er að ræða og því þurfa að vera gild sjónarmið til að veita hana þar sem meginreglan er að þessi vopn sem talin eru upp eru bönnuð, meðal annars vegna hættueiginleika þeirra en þó gildir bannið hvort sem að vopn er brýnt eða óbrýnt.

Af gefnu tilefni er einnig rétt að taka fram að hér er um formlegar leyfisveitingar að ræða en ekki það að leyfi fáist útgefið án takmarkana og skilyrða með áritun á sendinguna.

 

Hvað ef ég vil láta reyna á umsókn ?

Ef viðkomandi hyggst láta reyna á umsókn er rétt að taka að fram að ákveðnar upplýsingar þurfa að berast embætti ríkislögreglustjóra með tölvupósti á netfangið leyfi@rls.is þeir sem ekki hafa aðgang að tölvupósti geta komið í afgreiðslu embættisins að Skúlagötu 21, 101 Reykjavík, 3. hæð og lagt fram skriflega undirritaða umsókn á bréfi.

Því miður eru ekki eyðublöð fyrir umsóknirnar en unnt er að vinna þær í gegnum tölvupóst eða koma með upplýsingar bréflega á starfsstöð embættisins.

Þær upplýsingar sem þurfa að berast eru nafn, kennitala og heimilisfang umsækjanda ásamt upplýsingum um vopnið s.s. blaðlengd og/eða aðrir eiginleikar þess og mynd af vopninu. Að lokum þurfa að berast upplýsingar um ástæðu umsóknar.

Þetta er þó ekki tæmandi talning og stundum þarf að kalla eftir frekari upplýsingum, eins og til dæmis staðfestingu á félagsaðild í víkingafélagi eða frímúrarareglu, en það er þá gert með tölvupósti eða símleiðis fyrir þá sem hafa sent inn umsókn á pappír.

Afgreiðsla umsóknanna getur tekið allt að nokkrum mánuðum ef afla þarf frekari gagna eða upplýsinga allt eftir umfangi hverrar umsóknar. Að sjálfsögðu er þó leitast við að vinna umsóknir eins hratt og mögulegt er í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rétt er að taka fram að umsækjandi getur hætt við umsókn hvenær sem er.

Þegar niðurstaða liggur fyrir fær viðkomandi sent bréf í pósti og skannað afrit með tölvupósti ef það á við með niðurstöðu málsins, þ.e. annaðhvort synjun eða samþykki.

Ef um synjun er að ræða er leiðbeint með kæruheimild til ráðuneytisins ásamt rétt til rökstuðnings fyrir ákvörðuninni í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.

Veitir ríkislögreglustjóri undanþágu frá innflutningi á vopnum (öðrum en skotvopnum) sem bönnuð eru ?

Embætti ríkislögreglustjóra getur veitt undanþágu frá banni við innflutning á ákveðnum vopnum er talin eru upp í 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 en hins vegar þá er slík undantekningarheimild þröng og á aðeins við ef um sérstakar ástæður er að ræða eða að vopn hefur söfnunargildi.

Því er slík undanþága samkvæmt 3. mgr. 30. gr. vopnalaga aðeins veitt ef veigamikil rök mæla með og ástæðan er sú að þessi vopn sem talin eru upp eru almennt bönnuð.

Hvar get ég sótt um leyfi fyrir skotvopnum ?

Í 1. mgr. 12. gr. vopnalaga nr. 16/1998 kemur fram að:

Enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Leyfið veitir lögreglustjóri í umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Lögreglustjóra er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að hafa skotvopnaleyfi fyrir þann sem er á æfingum á vegum viðurkenndra skotfélaga á viðurkenndu æfingasvæði. Ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn um leyfi beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.

 

Umsóknir um leyfi fyrir skotvopni þurfa því að berast því lögregluumdæmi sem þú ert skráð/ur með lögheimili í.