Týndir munir

Getið þið auglýst á fésbókarsíðunni ykkar eftir mun sem ég týndi?

Nei, því miður getum við ekki gert það, þó við vildum endilega aðstoða. Ástæðan er hreinlega sú að ef við myndum birta tapað-fundið tilkynningar á síðunni okkar myndi hún fljótt varla snúast um annað og við því megum við ekki.

Allir óskilamunir sem okkur eru afhentir fara á Pinterest vefinn okkar, en ú eru komnir inn allir munir sem okkur hafa borist síðan 1. janúar 2014. Þannig að ef þú týndir muninum eftir þann tíma mun hann verða birtur á Pinterest vefnum okkar ef hann skyldi rata til okkar: www.pinterest.com/logreglan

Best er að þú kíkir þangað inn, en ef munurinn er ekki þar geturðu kíkt þarna aftur inn síðar og séð hvort að munurinn hafi fundist. Ef að munurinn sem þú týndir hefur glatast fyrir 1. janúar 2014 geturðu sent okkur skilaboð í netfangið oskilamunir(at)lrh.is og þá könnum við hvort hann sé hjá okkur. Einnig bendi ég þér á að búa til litla tilkynningu og biðja vini og kunningja á fésbókinni um að deila henni, en með því má fá ansi mikla dreifingu.

Ég vil tilkynna um týndan síma. Hvernig geri ég það?

Óskilamunir fara til óskilamunadeildarinnar okkar en hægt er að sjá á www.pinterest.com/logreglan hvort að munurinn hafi ratað til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Viljirðu tilkynna símann stolinn/tapaðan þá geturðu gert það á hvaða lögreglustöð sem er, en þá fyllirðu út þar til gert eyðublað. Þú getur síðan farið með eyðublaðið til þíns símafyrirtækis og þá er hægt að skoða hvort símtækið er komið aftur í notkun.

Ég er að leita að mun sem ég týndi. Hvar geri ég það?

Allir óskilamunir sem okkur eru afhentir fara á Pinterest vefinn okkar, en nú eru þar komnir inn allir munir sem okkur hafa borist síðan 1. janúar 2014. Þannig að ef þú týndir símanum eftir 1. janúar 2014 mun hann verða birtur á vefnum okkar ef hann skyldi rata til okkar (www.pinterest.com/logreglan).

Best er að þú kíkir þangað inn, en ef munurinn er ekki þar geturðu kíkt þarna aftur inn síðar og séð hvort munurinn hafi fundist. Ef að munurinn sem þú týndir hefur glatast fyrir 1. janúar 2014 geturðu sent okkur skilaboð í gegnum netfangið oskilamunir(at)lrh.is og þá könnum við hvort hann sé hjá okkur.

Ég týndi símanum mínum en sé að það er eins sími til sölu á bland.is. Hvert get ég leitað til aðstoðar?

Þetta er alltaf svolítið erfitt mál, enda er sala á notuðum munum gegnum síður eins og bland.is töluverð og virðist fara vaxandi. Þannig koma reglulega upp ábendingar um að þar sé verið að selja stolna muni, en okkar reynsla er að slíkt sé algjör undantekning og að munir sem fara í gegn séu lang oftast vel fengnir.

Þannig virðist einnig vera að hér á landi sé nokkur hópur einstaklinga sem virðist hafa það sem atvinnu að braska með muni í gegnum svona síður. Þannig er ef til vill fyrsta skref fyrir þig að tilkynna símann stolinn en það gerirðu á lögreglustöðinni í hverfinu þínu. Ef þú hefur ástæðu til að ætla að þetta sé sannarlega síminn þinn þá er ef til vill réttast að leggja hreinlega fram kæru vegna málsins, en þá rannsökum við það eins og önnur mál sem okkur berast.

Hér er þó gott að muna að GSM símar eru til í gríðarlegu magni og eru mörk slík tæki til sölu hverju sinni. Þess ber einnig að geta að ef þú tilkynnir símann stolinn geturðu farið með tilkynninguna til símafélaganna og fengið símann á vakt, þannig að ef einhver byrjar að nota þetta tiltekna tæki erum við látin vita.