Umferðarsáttmáli allra vegfarenda er leiðarvísir um það hvernig vegfarendur vilja hafa umferðina og hvernig umferðamenningu þeir vilja skapa. Sáttmálinn lýsir þannig ferðalagi vegfaranda – hvort sem hann er gangandi, akandi eða hjólandi.

Hugmyndafræðin að baki verkefni sem gat Sáttmálann af sér er að vegfarendur komist sameiginlega að niðurstöðu um það hvað einkennir góða umferðarmenningu. Boðorð verði því til í eigu vegfarendanna sjálfra sem sammælast um viðurkennda hegðun í umferð og gera kröfu um að henni sé fylgt. Þannig er Umferðarsáttmálinn skrifaður af vegfarendum, ekki yfirvöldum.

Þann 1. mars 2013 kom saman umferðarhópur sem samanstóð af 15 fulltrúum allra vegfarendahópa, hvað kyn, aldur og samgöngumáta varðar en þessir einstaklingar voru valdir úr stórum hópi umsækjenda.  Umferðarhópurinn tók síðan til við að greina þau atriði og þá hegðun sem segja má að sé til fyrirmyndar í umferðinni og getur legið til grundvallar Umferðarsáttmála – sáttmála sem tryggir öryggi og vellíðan vegfarenda.

Þess var sérstaklega gætt að óskir hins almenna vegfaranda kæmu fram í mótun sáttmálans og því var m.a. opnuð sérstök síða á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem fram komu tillögur og gagnleg umræða sem unnið var úr í kjölfarið. Að lokinni þessari vinnu lá umferðarsáttmáli fyrir. Auk þess er til Umferðasáttmáli til undirritunar.

Umferðarsáttmáli