Þann 1. janúar 2007 tók greiningardeild ríkislögreglustjóra til starfa. Hlutverki og markmiðum greiningardeildar er lýst í reglugerð nr. 404/2007. Þar segir að ríkislögreglustjóri starfræki greiningardeild „sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.“

Starfssvæði greiningardeildar ríkislögreglustjóra nær til alls landsins. Deildin ræður ekki yfir rannsóknarheimildum umfram almennu lögregluna.

Stefnumiðaðar greiningar og fyrirbyggjandi verkefni eru stór þáttur í starfsemi deildarinnar. Sú skýrslugerð lýtur einkum að skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og innra öryggi ríkisins.

Greiningardeild kemur einnig að margvíslegri annarri skýrslugerð og verkefnum fyrir yfirstjórn lögreglunnar og stjórnvöld.

Greiningardeild hefur umsjón með gagnagrunni og annast öryggisathuganir og útgáfu öryggisvottana.  Greiningardeild annast einnig öryggisathuganir vegna þeirra sem þátt taka í alþjóðlegu samstarfi af hálfu stjórnvalda.

Greiningardeild annast alþjóðlegt samstarf við erlendar öryggisstofnanir og lögreglulið. Mikilvægur liður í því samstarfi er viðleitni til að hefta umsvif skipulagðra glæpahópa hér á landi.

Innan greiningardeildar er einnig sinnt verkefnum sem áður féllu undir Varnarmálastofnun og ekki er lýst í áðurnefndri reglugerð. Þau verkefni lúta einkum að forsvari á sviði borgaralegra öryggismála (e. National Security Authority), öryggisvottunum vegna einstaklinga og bygginga/aðstöðu, vöktun og skýrslugerð varðandi erlenda atburði, einkum ófrið og samfélagslega upplausn, sem haft geta áhrif á Ísland og íslenska hagsmuni í víðtækum skilningi.

Undirsíður