Stoðdeild ríkislögreglustjóra annast framkvæmd lögreglufylgda úr landi þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni og hafa ekki annan rett til dvalar á Íslandi.

Hvenær ber umsækjanda um alþjóðlega vernd að yfirgefa landið?

Umsækjanda um alþjóðlega vernd ber að yfirgefa landið þegar hann hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni og á ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum samkvæmt.

Verklag stjórnvalda byggir á því að tryggja faglega, skipulega og mannúðlega framkvæmd við fylgd umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi.

Útlendingastofnun

Útlendingastofnun fylgir eftir ákvörðunum stjórnvalda og metur hvort beiðni um lögreglufylgd skuli send stoðdeild ríkislögreglustjóra þegar framkvæmdarhæf ákvörðun liggur fyrir, að því gefnu að viðkomandi yfirgefi landið ekki sjálfviljugur. Umsækjendur geta farið sjálfviljugir úr landi fái þeir til þess frest frá stjórnvöldum ef þeir hafa til þess gild ferðaskilríki og fjármuni.

Hvenær er beiðni um fylgd send?

Þegar umsókn um alþjóðlega vernd er afturkölluð

  • Útlendingastofnun kannar hvort fyrir liggi skriflega að viðkomandi hafi afturkallað umsókn
  • Ábyrgð á ákvörðun ef vafi: Ábyrgð liggur hjá stjórnvaldinu sem hafði málið til meðferðar

Umsækjandi unir ákvörðun Útlendingastofnunar

  • Útlendingastofnun kannar hvort fyrir liggi skriflega að viðkomandi uni ákvörðun
  • Ábyrgð á ákvörðun ef vafi: Kærunefnd tekur afstöðu til þess hvort kæra hafi verið lögð fram og hvort það hafi verið gert á fullnægjandi hátt

Umsækjandi kærir ekki ákvörðun Útlendingastofnunar innan kærufrests

  • Útlendingastofnun kannar hvort frestur til að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sé liðinn
  • Ábyrgð á ákvörðun ef vafi: Kærunefnd tekur afstöðu til þess hvort kæra hafi verið lögð fram og hvort það hafi verið gert á fullnægjandi hátt

Umsækjandi unir úrskurði kærunefndar eða óskar ekki eftir frestun réttaráhrifa við birtingu

  • Útlendingastofnun athugar hvort viðkomandi hafi lagt inn beiðni um frestun réttaráhrifa til kærunefndar innan 7 daga frá birtingu úrskurðar
  • Ábyrgð á ákvörðun ef vafi: Kærunefnd tekur afstöðu til þess hvort kæra hafi verið lögð fram og hvort það hafi verið gert á fullnægjandi hátt

Kærunefnd hafnar beiðni um frestun réttaráhrifa

  • Útlendingastofnun kannar hvort viðkomandi hafi óskað eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar og hvort afstaða hafi verið tekin til slíkrar beiðni. Almennt frestar slík beiðni ekki réttaráhrifum úrskurðar en eftir atvikum getur verið rétt að fresta framkvæmd þar til afstaða kærunefndar liggur fyrir.
  • Ábyrgð á ákvörðun ef vafi: Kærunefnd tekur afstöðu til þess hvort beiðni um endurupptöku hafi verið lögð fram og hvort það hafi verið gert á fullnægjandi hátt. Endurupptaka er háð beiðni þar um.

Umsækjandi unir dómi héraðsdóms eða dómur Hæstaréttar liggur fyrir

  • Útlendingastofnun kannar hvort viðkomandi hafi óskað eftir endurupptöku og hvort afstaða hafi verið tekin til slíkrar beiðni. Almennt frestar slík beiðni ekki réttaráhrifum úrskurðar en eftir atvikum getur verið rétt að fresta framkvæmd þar til afstaða kærunefndar liggur fyrir.
  • Ábyrgð á ákvörðun ef vafi: Kæruefnd tekur afstöðu til þess hvort beiðni um endurupptöku hafi verið lögð fram og hvort það hafi verið gert á fullnægjandi hátt. Endurupptaka er háð beiðni þar um.

Birting ákvarðana og úrskurða

Fulltrúi lögreglunnar sér um birtingar í málum þar sem niðurstaðan er sú að umsækjandi um vernd skuli yfirgefa landið. Við birtingu slíkra ákvarðana er viðkomandi upplýstur um að fyrirséð sé að Útlendingastofnun muni óska eftir lögreglufylgd í samræmi við efni niðurstöðunnar og útskýrt það ferli sem framundan er tengt brottför hans af landinu.

Beiðni um lögreglufylgd

Útlendingastofnun yfirfer hvert mál áður en beiðni um lögreglufylgd er send til stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Stofnunin kannar hvort ákvörðun sé framkvæmdarhæf, hvort viðkomandi eigi ólokin erindi eða mál fyrir stjórnvöldum eða hvort aðrar ástæður komi í veg fyrir framkvæmd. Beri umsækjanda um vernd að yfirgefa landið og sé úrlausn þar um framkvæmdarhæf sendir Útlendingastofnun beiðni um framkvæmd til stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Samhliða hefur Útlendingastofnun samband við talsmann viðkomandi og upplýsir hann um að beiðni um fylgd hafi verið send stoðdeild ríkislögreglustjóra og beinir því til talsmanns að hann láti viðkomandi vita. Stoðdeild ríkislögreglustjóra kynnir viðkomandi þegar nánar skýrist með tímasetningu lögreglufylgdar. Náist ekki í umsækjanda eða talsmann eftir ítrekaðar tilraunir er beiðni um lögreglufylgd engu að síður send til stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem hefst handa við undirbúning fylgdar. Áfram er reynt að hafa samband við umsækjanda eða talsmann.

Undirbúningur og framkvæmd lögreglufylgdar

Stoðdeild ríkislögreglustjóra leggur áherslu á samvinnu við umsækjanda við undirbúning og framkvæmd lögreglufylgdar. Starfsmenn deildarinnar gæta þess að framkvæmd ákvarðana fari faglega fram af virðingu fyrir mannlegri reisn þess sem í hlut á og tryggja að framkvæmdin sé í samræmi við löggjöf og öryggisviðmið. Ýmsar ástæður hafa áhrif á að erfitt er að fastsetja dagsetningu lögreglufylgdar og geta valdið því að til hennar komi með stuttum fyrirvara. Leitast skal við að tilkynna viðkomandi um nákvæma dagsetningu brottfarar eins fljótt og unnt er, helst að lágmarki með tveggja daga fyrirvara eða strax og dagsetning brottfarar liggur fyrir. Sérstakt tillit er tekið til þarfa fjölskyldna og einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Undirbúningur stoðdeildar snýr í meginatriðum að eftirfarandi þáttum:

  • Meta stöðu einstaklings varðandi tilhögun á lögreglufylgd, m.a. í samræmi við ákvörðun, heilbrigðisaðstæður og öryggissjónarmið
  • Kanna og fastsetja ferðatilhögun og dagsetningu – tryggja samþykki flugrekstraraðila
  • Ráðstafanir varðandi mönnun fylgdar
  • Upplýsa samstarfsaðila um fyrirhugaða fylgd og tryggja samþykki
  • Upplýsa umsækjanda um fyrirhugaða fylgd
  • Tryggja návist viðkomandi þegar að fylgd kemur

Ef umsækjandi er talinn hættulegur eða ósamvinnuþýður hefur lögregla valdheimildir til að tryggja að lögreglufylgd nái fram að ganga og til að tryggja öryggi viðkomandi og almennings í framkvæmdinni. Valdheimildum er ekki beitt nema nauðsyn þyki til. Starfsmenn stoðdeildar eru að meginstefnu óeinkennisklæddir í samskiptum við umsækjanda og við lögreglufylgd. Það er gert til að vekja ekki athygli annarra á því að um lögregluaðgerð sé að ræða og viðhalda virðingu viðkomandi.

 

Samvinna við Frontex

Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum getur stoðdeild ríkislögreglustjóra tekið þátt í verkefnum Frontex er snúa að brottflutningi umsækjenda um vernd af Schengen-svæðinu (Joint Return Operation – JRO Frontex ferðir). Meginmarkmið Frontex og þátttöku Íslands í nefndum verkefnum er að tryggja faglega og hagkvæma brottför þeirra sem fengið hafa synjun á umsókn um vernd eða dvöl og ber að yfirgefa Schengen-svæðið. Til viðbótar íslenskri löggjöf gilda sérstakar reglur og viðmið (t.a.m. Code of Conduct for JROs) um Frontex-ferðir sem hafa það að markmiði að tryggja öryggi og mannúðlega framkvæmd. Undirbúningur stoðdeildar til þátttöku í Frontex-ferð er svipaður og við hefðbundna lögreglufylgd nema helst að hlýða þarf fyrirfram ákveðinni dagsetningu og tímasetningu og ferðatilhögun. Landfræðileg lega Íslands og tilhögun á framkvæmd hefur oft leitt til þess að hér á landi þurfi að hefja eiginlega fylgd fyrr en í öðrum löndum og eru dæmi um að stoðdeild hafi þurft að hefja fylgd kl. 01:00 aðfaranótt brottfarardags. Framkvæmd Frontex-ferða fer fram með þeim hætti að leiguflugvél á vegum Frontex byrjar á því að sækja fylgdarmenn og umsækjendur um vernd til Íslands. Á leiðinni til þess lands sem skipuleggur framkvæmdina er gjarnan millilent í einu Evrópulandi til að sækja fleiri umsækjendur um vernd og fylgdarmenn. Að því loknu flýgur allur hópurinn til lands eða landa sem umsækjendum um vernd er vísað til og síðan er flogið strax aftur með fylgdarmenn til landsins sem skipulagði framkvæmdina. Annað fyrirkomulag er að íslenskir fylgdarmenn og umsækjendur um vernd ferðast með áætlunarflugi til þess lands sem skipuleggur framkvæmdina.