Persónuverndarstefna lögreglunnar

Lögreglan hefur það hlutverk samkvæmt lögum að gæta almannaöryggis og tryggja réttaröryggi, stemma stigu við afbrotum og vinna að uppljóstran brota, greiða götu borgaranna og veita yfirvöldum aðstoð við framkvæmd starfa sinna og að halda uppi almannafrið og allsherjarreglu. Vinnsla persónuupplýsinga er því nauðsynlegur þáttur í starfsemi lögreglunnar. Lögreglan leggur ríka áherslu á að vernda persónuupplýsingar og að meðferð þeirra sé í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.

Markmið persónuverndarstefnunnar er að veita upplýsingar um hvernig unnið er með persónuupplýsingar hjá lögreglunni, í hvaða tilgangi og hvað er gert við þær. Stefna þessi tekur til einstaklinga en ekki lögaðila.

Persónuupplýsingar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling, þ.e. upplýsingar sem hægt er að rekja beint eða óbeint til ákveðins einstaklings. Gögn sem eru ópersónugreinanleg teljast ekki persónuupplýsingar.

Ábyrgðaraðili

Ríkislögreglustjóri, Skúlagötu 21, 101 Reykjavík, fer með málefni lögreglu í umboði ráðherra og skiptist landið í níu lögregluumdæmi;

 • Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113, 105 Reykjavík.
 • Lögreglustjórinn á Vesturlandi, Bjarnabraut 2, 310 Borgarnesi.
 • Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði.
 • Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, Suðurgötu 1, 550 Sauðárkróki .
 • Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Þórunnarstræti 138, 600 Akureyri.
 • Lögreglustjórinn á Austurlandi, Strandgötu 52, 735 Eskifirði.
 • Lögreglustjórinn á Suðurlandi, Hlíðarvegi 16, 860 Hvolsvelli.
 • Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Brekkustíg 39, 230 Reykjanesbæ.
 • Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, Faxastíg 42, 900 Vestmannaeyjum.

Nánari upplýsingar um embættin er að finna hér á vef lögreglunnar (undir „lögreglan“ í valmynd). Ríkislögreglustjóri heldur skrár lögreglu samkvæmt lögreglulögum en með því er átt við að hann ber ábyrgð á rekstri og öryggi þeirra. Hvert embætti fyrir sig er ábyrgðaraðili vinnslu persónupplýsinga sinna starfsmanna, þ.e. hvað þeir skrá í kerfin á hverjum tíma. Í einhverjum tilfellum geta embættin talist vera sameiginlegir ábyrgðaraðilar.

Hvaða vinnsla persónuupplýsinga fer fram hjá lögreglunni, í hvaða tilgangi og á hvaða heimild?

Um lögregluna og hlutverk hennar gilda lögreglulög nr. 90/1996. Þá þarf lögreglan að framfylgja ýmsum lögum t.d. hegningarlögum, vopnalögum og umferðarlögum svo fátt eitt sé nefnt. Ákvæði um rannsókn og saksókn er að finna í lögum um meðferð sakamála og reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Enn fremur er stuðst við útgefin fyrirmæli embætti ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvaldsins.

Lögreglan safnar upplýsingum úr ýmsum áttum við framkvæmd lögbundinna verkefna er varða þann tilgang að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot, þ.m.t að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir og fellur sú vinnsla undir lög 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Sérreglur um meðferð persónuupplýsinga vegna Schengen-upplýsingakerfanna er að finna í lögum nr. 16/2000. Öll önnur vinnsla embættanna með persónugreinanlega gögn er varða stjórnsýslu, rekstur, starfsmannahald, innkaup o.fl. falla undir lög 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 eins og hún var leidd í lög á Íslandi.

Gögn sem lögreglan vinnur með geta innihaldið almennar upplýsingar og viðkvæmar eins og t.d.

 • samskiptaupplýsingar eins og nafn, kennitölu, heimilisfang, ríkisfanga, símanúmer og netfang.
 • upplýsingar um brot, vettvang og sektarfjárhæð
 • upplýsingar um atvinnu og menntun
 • fjárhagslegar upplýsingar
 • upplýsingar um kynþátt og þjóðernislegan uppruna
 • upplýsingar um líkamleg auðkenni, eins og fingraför og DNA sýni,
 • ljósmyndir, hljóðupptökur og myndupptöku.
 • sakavottorð
 • upplýsingar um slys
 • upplýsingar um andlega og líkamlega heilsu
 • rafrænt eftirlit, m.a. við lögreglustöðvar
 • IP tölur

Lögreglan leitast við að skrá aðeins og varðveita þær upplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er.

Aðgangur að málaskrárkerfi lögreglunnar

Starfsmenn lögreglu hafa eingöngu aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa til að sinna starfi sínu og fer það eftir starfssviði hvers og eins hvaða upplýsingum starfsmaður hefur aðgang að.

Trúnaður

Allir starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum sem helst þótt látið sé af störfum. Um þagnaskyldu starfsfólks lögreglu gilda einkum ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga, svo og einnig 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála og 22. gr. lögreglulaga. Þá ber starfsmönnum lögreglu að virða siðareglur lögreglu í hvívetna.

Starfsmenn gæta þess að farið sé með allar persónuupplýsingar sem trúnaðarmál og rita allir starfsmenn undir trúnaðaryfirlýsingu. Þá skal þess einnig gætt ef vinnsla persónuupplýsinga er að einhverju leiti í höndum þriðja aðila, skuli þeir starfsmenn þriðja aðila sem hafa aðgang að upplýsingunum einnig rita undir trúnaðaryfirlýsingu.

Varðveislutími

Persónuupplýsingar eru varðveittar á meðan þörf er á þeim og málefnalegar ástæður eru til eða eins og lög kveða á um ef mælt er fyrir um geymslutíma í lögum. Lögreglan er skilaskyldur aðili á grundvelli laga um opinber skjalasöfn og er því óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema með heimild þjóðskjalavarðar.

Hvaðan berast persónuupplýsingar og hvert er þeim miðlað?

Vinnsla persónuupplýsinga er forsenda þess að lögreglan geti sinnt hlutverki sínu. Persónuupplýsingar berast frá og er ekki tæmandi talið frá einstaklingum og fulltrúum þeirra, stofnunum, öðrum lögbærum yfirvöldum, alþjóðlegum löggæslustofnunum, dómstólum og fangelsum.

 Til hverra er persónuupplýsingum miðlað?

Lögreglan kann að afhenda persónuupplýsingar til þriðja aðila á grundvelli lagaskyldu sem hvílir á lögreglunni. Dæmi um þetta er afhending gagna til Þjóðskjalasafns Íslands, verjanda í sakamálum, dómstóla, skattyfirvalda eða t.d. annarra stjórnvalda, einstaklinga eða lögaðila sem sýna fram á rétt til slíkra upplýsinga eða hafa lögvarða hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar enda sé afhending í samræmi við gildandi lög.

Þá getur verið nauðsynlegt að deila upplýsingum með öðrum lögbærum yfirvöldum, á landsvísu og alþjóðavettvangi, með samstarfsstofnunum til að draga úr afbrotum og koma í veg fyrir alþjóðlega glæpastarfsemi.

Í einhverjum tilvikum kann lögreglan að notast við vinnsluaðila sem hafa gert samning við lögregluna um vinnslu persónuupplýsinga.

Réttindi skráð einstaklings

Einstaklingur getur farið fram á að fá upplýsingar um vinnslu eigin persónuupplýsinga hjá lögreglunni og einnig óskað eftir aðgangi að þeim. Þó gilda ýmsar takmarkanir um aðgang að gögnum og upplýsingum samkvæmt lögum um meðferð sakamála, stjórnsýslulögum og persónuverndarlögum. Er sérhver slík beiðni metin og tekin ákvörðun um hvaða upplýsingar eru veittar og hvernig fer með aðgang að þeim.

Með fyrirvara um skilyrði í persónuverndarlögum, eiga einstaklingar í sumum tilvikum rétt á að fá upplýsingar leiðréttar eða óska eftir takmörkun vinnslunnar.

Beiðnum er hægt að beina á netfangið personuvernd@logreglan.is

Einstaklingur á jafnframt rétt á að leggja fram kvörtun til Persónuverndar sem fer með eftirlitshlutverk á sviði persónuverndar, sjá heimasíðu stofnunarinnar: www.personuvernd.is

Öryggi persónuupplýsinga

Lögreglan leggur mikið upp úr því að tryggja öryggi persónuupplýsinga notenda. Tölvu- og upplýsingakerfi lögreglunnar eru rekin á lokuðu víðneti lögreglunnar og hýst hjá ríkislögreglustjóra. Lögreglan leitast við að grípa til viðeigandi tæknilegra og skipulegra ráðstafana til að vernda persónuupplýsingar, með tilliti til eðli þeirra. Dæmi um slíkar öryggisráðstafanir eru aðgangsstýringar að kerfum, aðgerðarskráningar til að tryggja rekjanleika aðgerða, margþátta auðkenningar, dulkóðun gagna og sendinga og reglulegar uppfærslur og leiðbeiningar til notenda.

Persónuverndarfulltrúi

Persónuverndarfulltrúi hefur eftirlit með því að farið sé að gildandi lögum og reglum um persónuvernd hjá lögreglunni. Fyrirspurnum, athugasemdum og ábendingum sem varða persónuupplýsingar og persónuvernd er hægt að beina til persónuverndarfulltrúa.

Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa ríkislögreglustjóra og lögreglu með því að hringja í síma 444-2500 eða með því að senda tölvupóst á netfangið personuvernd@logreglan.is. Það er einnig hægt að senda bréfpóst til Ríkislögreglustjóra, Skúlagötu 21, 101 Reykjavík, en þá skal umslagið merkt persónuverndarfulltrúa.

Lögreglan á Facebook

Lögreglan notar facebook í þeim tilgangi að auðvelda upplýsingagjöf til almennings.  Kjósi einstaklingur að koma formlegu erindi til lögreglunnar eða deila upplýsingum sem varða rannsókn sakamáls vill lögreglan árétta að slíkum upplýsingum ber að koma formlega til lögreglunnar með símtali í 112 eða til viðeigandi embættis, með bréfpósti, tölvupósti eða ábendingahnappi á heimasíðu lögreglunnar.

Ef einstaklingar notar Facebook síðu lögreglunnar til að koma ábendingum á framfæri til lögreglunnar þarf að hafa í huga að þeim upplýsingum er einnig deilt með Facebook.

Breyting á persónuverndarstefnu lögreglunnar

Lögreglan mun vinna að áframhaldandi þróun og betrumbótum varðandi verklag um meðferð á persónuupplýsingum. Þá mun lögreglan endurskoða stefnu þessa reglulega eftir því sem tilefni er til.

 

Samþykkt á fundi lögregluráðs

 1. apríl 2021

The Police Data Protection Policy

Umsækjendur um störf hjá lögreglunni

Hraðamyndavélar

Stafræn ökuskírteini

Tengdir hlekkir: