Lögreglan er sú stofnun þjóðfélagsins, sem hefur með höndum löggæslu í víðustu merkingu.

Hlutverk lögreglu er að gæta almannaöryggis og tryggja réttaröryggi; stemma stigu við afbrotum og vinna að uppljóstran brota; greiða götu borgaranna og veita yfirvöldum aðstoð við framkvæmd starfa sinna og að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu.

Þjónustuhlutverkið er veigamikið í daglegum störfum lögreglunnar en fellur þó oft í skuggann af hinum óæskilegri og oft neikvæðari þáttum lögreglustarfsins.

Lögregla skal sýna árverkni í starfi og þekkja góð skil á skyldum sínum og ábyrgð þeirri sem starfinu fylgir. Gætt skal samviskusemi, hlutlægni, réttsýni og hófsemi. Lögreglunni er heimilt að beita valdi ef nauðsyn krefur en þess þurfa lögreglumenn þó sérstaklega að gæta að beita ekki sakaðan mann meira harðræði en nauðsynlegt er til að vinna bug á mótþróa hans.

Hins vegar er almenningi skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjónar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.

Lögreglan getur kallað sér til aðstoðar hvern fulltíða mann ef nauðsyn krefur. Menn eru skyldugir til að aðstoða lögregluna ef þeim er það mögulegt án þess að stofna lífi sínu eða sinna nánustu, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum í hættu. Þeir sem starfa með lögreglu að hennar skipun fara um leið með lögregluvald og njóta sömu verndar og lögreglumenn.

Í störfum sínum ber lögreglan ábyrgð gangvart borgurum og yfirvöldum. Starfsmenn lögreglu geta því aðeins vænst trausts og virðingar vegna starfa sinna að þeir gegni hlutverki lögreglu með það að leiðarljósi að þjóna samfélaginu af heiðarleika, hlutlægni, réttsýni, nærgætni, trúmennsku, þagmælsku og þekkingu.

Undirsíður