Lögreglan

Forgangsakstur lögreglubifreiða

Alveg sömu reglur gilda um lögregluna og aðra hvað varðar hámarkshraða og umferðarlög almennt. Lögreglan hefur hins vegar heimild til að víkja frá reglum umferðarlaga, þar á meðal hámarkshraða ef nauðsyn krefur. Það sést stundum með því að ökumaður viðkomandi lögreglubíls notar þar til gerð hljóð og ljósmerki, en slíkt þarf ekki að vera í öllum tilvikum. Sem dæmi um aðstæður þar sem lögregla þarf ekki að nota þar til gerð hljóð og ljósmerki er þegar slík merki gætu varað brotamenn eða aðra við að lögregla sé að nálgast. Mikilvægt er að muna að lögreglumenn eru ábyrgir fyrir akstri við slíkar aðstæður og taka slíka ábyrgð mjög alvarlega.

Allar ferðir lögreglubíla og hraði þeirra er skráður á 5 sek. fresti. Ef fólk hefur orðið vart við eitthvað óeðlilegt þegar kemur að akstri lögreglubifreiða er hægt að senda okkur ábendingu um það ásamt nákvæmri tíma- og staðsetningu og þá getum við kannað málið nánar.

Hvers vegna stoppaði lögreglan ekki ökumann sem ók yfir á rauðu ljósi?

Þetta er sannarlega góð og þörf spurning. Þannig er að á lögreglu hvílir ekki kæruskylda, s.s ef lögregla verður vitni að brotum er það ekki skylda hennar að kæra. Ef til vill hljómar þetta örlítið skringilega en slíkt gerir lögreglu kleift að meta aðstæður betur og meta aðgerðir eftir því. Þetta gerir það að verkum að stundum stöðvar lögregla ökumenn og ræðir við þá í stað þess að sekta, einfaldlega vegna þess að stundum virkar betur að spjalla en að sekta.

Lögreglan er fagstétt sem þarf að meta margt þegar að aðgerðum kemur. Til að mynda gæti það skapað mikla hættu að fara á eftir bíl sem fer yfir á rauðu ljósi á háannatíma á stórum gatnamótum. Gott er að ímynda sér hvernig stór gatnamót eru og hvað margir bílar þurfa að nema staðar með litlum fyrirvara til að lögreglan komist þar yfir með forgangsljósum. Almennt má segja að lögreglumenn séu hvergi í meiri hættu að lenda í slysi en á slíkum stundum auk þess sem aðrir vegfarendur séu einnig lagðir í hættu. Þannig verður lögreglan að meta hvort það sé ásættanlegt að leggja marga í hættu með slíkum aðgerðum, til þess eins að stoppa ökutæki á háannatíma með tilheyrandi töfum fyrir aðra umferð.

Í öðru lagi er allt eins líklegt að lögreglumenn geti verið með einstakling í lögreglubifreiðinni á leið til eða frá vettvangi, mögulega handtekinn aðila. Þá er ekki farið í að sinna umferðarverkefum, enda önnur brýnni verkefni í gangi.

Í þriðja lagi er allt eins líklegt að þeir hafi hreinlega verið á leið í verkefni. Þá kunna margir að spyrja: Er ekki bara allt í lagi að stoppa einn bíl á leið í verkefni? Jú, það getur verið það – en stundum breytast einföld verkefni yfir í að vera ansi flókin verkefni og þá er okkar fólk bundið í þeim. Þannig er það að okkar fólk þarf oft að komast hratt á vettvang, þótt að ekki sé þörf á að fara með forgangi.

Má lögreglan vera „í felum“ að hraðamæla?

Lögreglan kemur sér fyrir á þeim stað sem hún telur heppilegan til að framfylgja umferðarlögum og í umferðarlögum er að finna sérstaka grein sem leyfir lögreglu að leggja ökutækjum sínum þar sem aðrir mega ekki leggja, t.d. undir brú.

Lögreglan er undanþegin því að fara eftir ákveðnum ákvæðum umferðarlaga við störf sín, en alltaf þarf að gæta þess að öryggi sé ekki stefnt í voða með aðgerðinni.

Ekki má gleyma því að það er frekar erfitt fyrir lögreglumenn að fela lögreglubíl á bak við eitthvað t.d. við hraðamælingar. Lögreglan þarf nefnilega að hafa útsýn yfir veginn til þess að mæla ökutækin.

Einnig er vert að minnast á það að því hraðar sem ekið er, því mjórra verður sjónsvið ökumannsins og viðkomandi horfir lengra fram á veginn. Mjög oft heyra lögreglumenn að ökumenn segi lögregluna hafa verið að fela sig en reynslan er sú að lögreglubifreiðinni var lagt í vegkanti, í allra sýn, en ökumaður sá hreinlega ekki lögreglubifreiðina, enda að horfa langt fram á veginn. Af þessu má sjá að það eitt að aka innan hraðatakmarka eykur líkurnar á að sjá lögreglubifreiðar, en ekki síður aðrar bifreiðar í umferðinni.

Þannig er til lítils að sakast við lögregluna þegar fólk er gripið við hraðakstur. Ábyrgðin er viðkomandi ökumanns, fyrst og fremst.

Get ég fengið upplýsingar um mig úr málaskrá lögreglu?

Til að fá upplýsingar úr málaskrá lögreglu geta einstaklingar haft samband við embætti ríkislögreglustjóra, sem sér um að afhenda slíkar upplýsingar fyrir öll embætti á landinu. Síminn hjá ríkislögreglustjóra er 444-2500.

Hvað er gert við óskilamuni sem ekki komast til eigenda sinna?

Um þá gildir einn af skemmtilegustu lagatextum íslenska lagasafnsins (fyrir þá sem hafa gaman af slíku): Opið bréf (frá kansellíinu) um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum.

Þar segir: „Ef eigandinn kemur eigi innan árs og dags, skuli selja hið fundna handa lögreglustjórum.“ Lögin má finna hérna.

Mörg lögreglulið hafa farið þá leið að birta myndir af óskilamunum á vefmiðlum og því er best að skoða síðu þess lögregluliðs sem sinnir svæðinu og skoða hvernig meðferð funinna muna er hjá því lögregluliði.

Má lögreglan leggja ólöglega, t.d. undir brú?

Í slíkum tilvikum er ökutækjum lögreglu ekki lagt ólöglega enda gera umferðarlögin ráð fyrir því að reglur sem snúa að lagningum ökutækja gildi ekki um ökutæki lögreglu. Þannig gera umferðarlögin ráð fyrir því að lögreglan geti lagt ökutækjum sínum víðsvegar, enda sé þess þörf vegna starfa hennar.

Þess ber þó að geta að lögreglumenn verða þó að sjálfsögðu að gæta að því að leggja þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Reglur um lagningar ökutækja má finna í 27.-28. gr. umferðarlaga en undanþágu lögreglu má finna í 29. gr. sömu laga. Lögin má finna hérna.

Getið þið sagt mér af hverju þið leggið hálfir út á götu þegar þið stoppið bíl af einhverjum ástæðum og neyðið bílana sem á eftir koma yfir á rangan vegarhelming og yfir óbrotna línu?

Þegar lögreglan stoppar bíl er lögreglubílnum vísvitandi lagt þannig að bíllinn myndi skjól fyrir lögreglumann sem síðan fer upp að bílstjórahurðinni til að ræða við ökumann. Þetta er gert til að auka líkurnar á að fólk sjái okkur og aki ekki utan í, eða á, lögreglumanninn sem stendur við hlið þess bíls sem verið var að stoppa.

Ég sá lögreglubíl ekið gegn rauðu ljósi, með bláum forgangsmerkjum, þau síðan slökkt og haldið áfram. Er þetta leyfilegt?

Lögreglunni er heimilt að víkja frá ákveðnum umferðarreglum í neyðartilfellum, en þá er ekinn svokallaður forgangsakstur. Slíkum akstri er skipt niður í þrep, eftir því hversu alvarlegt atvikið er. Gott er að taka fram að slíkur akstur fer ekki allur fram með notkun blárra ljósa og sírenum.

Þetta er að sjálfsögðu mat hverju sinni og krefst þess að lögreglumenn gæti vel að öryggi annarra vegfarenda og sínu eigin.

Mikið eftirlit er með akstri lögreglu og meðal annars er allur akstur lögreglu skráður, hraður, notkun forgangsljósa og þar fram eftir götunum. Fáar stéttir þola jafn mikið eftirlit með störfum sínum. Þetta gerir það að verkum að lögreglumenn geta ávallt átt von á því að farið sé yfir akstur þeirra.

Eiga lögreglumenn að nota sírenur við forgangsakstur?

Svarið við þessu er á þann veg að ekki er skylda fyrir lögreglumenn að nota sírenur, t.d. þegar farið er yfir gatnamót, slíkt er matsatriði hverju sinni og því er mismunandi hvort að notkun á sírenum sé nauðsynleg eða ekki.

Sírenuhljóð berst illa inn í ökutæki, enda eru ökutæki í dag orðin það vel einangruð að hljóð berst mjög illa inn í þau. Þetta veldur því að þegar lögreglan er í forgangsakstri þá sjást ljósmerki löngu áður en hljóðmerki heyrist. Vegna þessa höfum við dregið úr notkun hljóðmerkja til að valda minna áreiti, enda verða margir ökumenn mjög stressaðir þegar við förum um með slík hljóðmerki, auk þess sem hljóðið berst um íbúðahverfi.

Vegna þessa er það alltaf matsatriði hvaða búnaði er beitt. Þess ber þó að geta að enginn er meira vakandi fyrir því að forgangsakstur sé framkvæmdur á öruggan máta en okkar fólk, enda er það einmitt okkar fólk sem er í mestri hættu þegar kemur að forgangsakstri. Þannig reynir okkar fólk að beita þeirri þjálfun sem það býr yfir og meta hvernig sé hægt að framkvæma forgangsakstur á sem hættulausasta máta.