Alþjóðadeild annast alþjóðasamskipti og boðskipti á sviði löggæslu og er þjónustu- og tengslaskrifstofa fyrir íslensk og erlend lögreglulið vegna alþjóðlegs lögreglusamstarfs.  Deildin fer með hlutverk SIRENE-skrifstofu vegna Schengen-samstarfsins og er landsskrifstofa Íslands vegna INTERPOL og Europol-samstarfsins. Deildin annast auk þess margvíslegt alþjóðlegt samstarf lögreglu á Norðurlöndum.

Alþjóðadeild veitir lögregluliðunum margvíslegan stuðning og aðstoð í verkefnum þeirra, sérstaklega er varðar erlend samskipti, málefni útlendinga og alþjóðlega brotastarfsemi.

Verkefni alþjóðadeildar eru margbreytileg, t.a.m. fyrirspurnir um einstaklinga og brotaferil þeirra, um löggjöf og framkvæmd löggæslu og beiðnir um aðstoð við rannsókn mála.  Nánar má lesa um erlent samstarf deildarinnar á síðunni Erlent samstarf.

Alþjóðadeild kemur að landamæravörslu með því að fletta áhafna- og farþegalistum skipa sem koma til landsins upp í SIS II, Schengen-upplýsingakerfinu.

Athugið að alþjóðadeild er þjónustudeild fyrir lögreglu og er ekki ætlað að veita almenningi beina þjónustu. Ef þú hefur erindi til erlendra lögregluyfirvalda þarftu að beina því til næstu lögreglustöðvar, sem leitar aðstoðar alþjóðadeildar ef þörf er á.

Undirsíður