Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi eða verða vitni að ofbeldi.
Allt  ofbeldi á heimili þar sem börn dvelja, er jafnframt ofbeldi gagnvart börnum.

Vissir þú að ofbeldi er þegar einstaklingur eða hópur beitir valdi til að meiða eða niðurlægja aðra. Ofbeldi gegn börnum getur tekið á sig ýmsar myndir.

Þegar talað er um börn, þá er átt við börn á aldrinum 0-18 ára. Þegar fólk hugsar um ofbeldi (meiða) koma oft líkamsmeiðingar fyrst upp í hugann. En ofbeldi (meiða) er skipt í þrjá flokka: líkamlegt, andleg og kynferðislegt. Þannig eru hótanir, flengingar, niðurlægingar, niðrandi athugasemdir og öskur allt dæmi um ofbeldi (meiða) gagnvart börnum. Þegar börn verða vitni að heimilisofbeldi, þar sem annar aðili á heimilinu er þolandi, flokkast það einnig sem ofbeldi gagnvart börnunum sem horfa upp á það.

Kynferðislegt ofbeldi getur verið líkamlegt t.d. þegar einhver snertir einkastaðina þína eða lætur þig snerta sína. Kynferðisofbeldi getur líka verið á netinu t.d. ef einhver sendir þér myndir af einkastöðunum sínum þó þú viljir ekki fá þær og/eða reynir að fá þig til að senda sér slíkar myndir af þér. Það er líka kynferðislegt ofbeldi að birta slíkar myndir eða annað persónulegt efni af þér á samfélagsmiðlum.

Ef þú býrð við slíkar aðstæður eða þekkir eitthvert barn sem býr við slíkar aðstæður þá áttu að hafa samband við 112. Þar getur þú rætt málin við lögreglu  í fullum trúnaði. Samband er haft við barnaverndarnefnd ef ástæða er til. Mikilvægt er að hafa samband þótt þú sért í vafa.

Allir geta hringt í 112, úr farsímum og úr símtækjum í almenna símkerfinu. Samband næst við 112 þótt ekki sé inneign á símakortinu og líka þótt ekkert símakort sé í símanum.

Allir eru skyldugir samkvæmt íslenskum lögum til að tilkynna til lögreglu eða barnaverndarnefndar ef grunur er um að barn sé beitt ofbeldi, það verði fyrir áreitni eða búi við óviðunandi uppeldisaðstæður. Sá sem tilkynnir þarf ekki að hafa rökstuddan grun um að brotið sé gegn barni.

Það er mikilvægt að við leyfum börnum að njóta vafans og látum fagfólk skoða málið og grípa til aðgerða ef þess reynist þörf. Þeir sem tilkynna geta óskað nafnleyndar gagnvart öllum aðilum málsins nema barnaverndarstarfsmanni.

Þeir sem vinna með börnum hafa sérstaka skyldu til að tilkynna aðstæður til barnaverndar þá er sérstaklega átt við leikskólakennara, grunnskólakennara, starfsfólk frístundar, heilbrigðisstarfsfólk og þjálfarar.

Gott að vita:

  • Talaðu við einhvern sem þú treystir og getur leiðbeint þér
  • Það eru aðilar sem geta hjálpað þér, oft gott að treysta tilfinningunni og bera aðstæður undir aðra.
  • Með því að segja frá geturðu unnið úr sársaukanum og orðið sterkari en áður
  • Ábyrgðin er aldrei þín
  • Ofbeldið er aldrei þér að kenna
  • Til að ofbeldið haldi ekki áfram þarftu að segja einhverjum frá

Talað er um kynferðislegt ofbeldi ef barn eru fengið til kynferðislegra athafna eða þegar nálgast er barnið með kynferðislegum athugasemdum/athöfnum. Kynferðislegt ofbeldi felur m.a.í sér samfarir og/eða munnmök, þukl innan klæða á kynfærum og öðrum persónulegum stöðum og þegar horft er á kynfæri, kynferðislegar athafnir eða klámefni.

 

Stígamót: 562 6868 – 800 6868https://www.stigamot.is/

Kvennaathvarfið: 561 1205https://www.kvennaathvarf.is

http://www.bvs.is

https://reykjavik.is/thjonusta/ofbeldi-gegn-bornum

https://www.barn.is/malaflokkar/ofbeldi/

https://www.youtube.com/watch?v=HX_OvfZOVd0&feature=youtu.be

https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717/

https://www.barnaheill.is

 

Nánari upplýsingar fyrir aðstandendur
Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund.

Leiðin áfram – hér er að finna upplýsingar og myndbönd sem auðvelda þolendum og aðstandendum þeirra að sækja sér aðstoð.