Týndir munir (4)
Getið þið auglýst á fésbókarsíðunni ykkar eftir mun sem ég týndi?
Nei, því miður getum við ekki gert það, þó við vildum endilega aðstoða. Ástæðan er hreinlega sú að ef við myndum birta tapað-fundið tilkynningar á síðunni okkar myndi hún fljótt varla snúast um annað og við því megum við ekki.
Allir óskilamunir sem okkur eru afhentir fara á Pinterest vefinn okkar, en ú eru komnir inn allir munir sem okkur hafa borist síðan 1. janúar 2014. Þannig að ef þú týndir muninum eftir þann tíma mun hann verða birtur á Pinterest vefnum okkar ef hann skyldi rata til okkar: www.pinterest.com/logreglan
Best er að þú kíkir þangað inn, en ef munurinn er ekki þar geturðu kíkt þarna aftur inn síðar og séð hvort að munurinn hafi fundist. Ef að munurinn sem þú týndir hefur glatast fyrir 1. janúar 2014 geturðu sent okkur skilaboð í netfangið oskilamunir(at)lrh.is og þá könnum við hvort hann sé hjá okkur. Einnig bendi ég þér á að búa til litla tilkynningu og biðja vini og kunningja á fésbókinni um að deila henni, en með því má fá ansi mikla dreifingu.
Ég vil tilkynna um týndan síma. Hvernig geri ég það?
Óskilamunir fara til óskilamunadeildarinnar okkar en hægt er að sjá á www.pinterest.com/logreglan hvort að munurinn hafi ratað til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Viljirðu tilkynna símann stolinn/tapaðan þá geturðu gert það á hvaða lögreglustöð sem er, en þá fyllirðu út þar til gert eyðublað. Þú getur síðan farið með eyðublaðið til þíns símafyrirtækis og þá er hægt að skoða hvort símtækið er komið aftur í notkun.
Ég er að leita að mun sem ég týndi. Hvar geri ég það?
Allir óskilamunir sem okkur eru afhentir fara á Pinterest vefinn okkar, en nú eru þar komnir inn allir munir sem okkur hafa borist síðan 1. janúar 2014. Þannig að ef þú týndir símanum eftir 1. janúar 2014 mun hann verða birtur á vefnum okkar ef hann skyldi rata til okkar (www.pinterest.com/logreglan).
Best er að þú kíkir þangað inn, en ef munurinn er ekki þar geturðu kíkt þarna aftur inn síðar og séð hvort munurinn hafi fundist. Ef að munurinn sem þú týndir hefur glatast fyrir 1. janúar 2014 geturðu sent okkur skilaboð í gegnum netfangið oskilamunir(at)lrh.is og þá könnum við hvort hann sé hjá okkur.
Ég týndi símanum mínum en sé að það er eins sími til sölu á bland.is. Hvert get ég leitað til aðstoðar?
Þetta er alltaf svolítið erfitt mál, enda er sala á notuðum munum gegnum síður eins og bland.is töluverð og virðist fara vaxandi. Þannig koma reglulega upp ábendingar um að þar sé verið að selja stolna muni, en okkar reynsla er að slíkt sé algjör undantekning og að munir sem fara í gegn séu lang oftast vel fengnir.
Þannig virðist einnig vera að hér á landi sé nokkur hópur einstaklinga sem virðist hafa það sem atvinnu að braska með muni í gegnum svona síður. Þannig er ef til vill fyrsta skref fyrir þig að tilkynna símann stolinn en það gerirðu á lögreglustöðinni í hverfinu þínu. Ef þú hefur ástæðu til að ætla að þetta sé sannarlega síminn þinn þá er ef til vill réttast að leggja hreinlega fram kæru vegna málsins, en þá rannsökum við það eins og önnur mál sem okkur berast.
Hér er þó gott að muna að GSM símar eru til í gríðarlegu magni og eru mörk slík tæki til sölu hverju sinni. Þess ber einnig að geta að ef þú tilkynnir símann stolinn geturðu farið með tilkynninguna til símafélaganna og fengið símann á vakt, þannig að ef einhver byrjar að nota þetta tiltekna tæki erum við látin vita.
Umferðarmál (31)
Hversu gamall þarf maður að vera til að aka vespu?
Ökuréttindi þarf til að aka léttu bifhjóli sem nær allt að 50 km. hraða. Þau má fá að undangengnu ökunámi og prófi við 15 ára aldur.
Rafmagnsreiðhjólum er nú skipt í tvo flokka:
- Létt bifhjól sem ná ekki yfir 25 km/klst á hraða. Ekki yfir 4Kw og má vera hvort sem heldur raf/bensíndrifið. Um þessi tæki gildir:
- 13 ára aldurstakmark
- Ekki gerð krafa um réttindi
- Skráningarskyld
- Má aka bæði á götum og gangstéttum/hjólastígum
- Reiðhjól með hjálparmótor en þó með stig/sveifarbúnaði. Þessi hjól mega ekki vera meira en 0,25kw. að afli þar sem afköst minnka og stöðvast alveg við 25 km/klst.
Skv.umferðarlögum flokkast tæki II sem reiðhjól, sé þess gætt að þau fylgi skilyrðum, td.hvað varðar hraða. Tæki sem flokkast í flokk I eru hinsvegar skilgreind sem létt bifhjól og þarf ökumaður þeirra að hafa náð 13 ára aldri og tækið að vera skráð. Ekki er gerð krafa um réttindi ökumanns eða tryggingar.
Þokuljós – hvaða reglur gilda?
Varðandi þokuljós á ökutækjum má segja að það er ekkert rangt við að nota slík ljós, krefjist aðstæður þess sbr. lögin:
„Í þoku, þéttri úrkomu eða skafrenningi má nota þokuljós í stað eða ásamt lágum ljósgeisla. Hjálparljós má eigi nota til annars en þau eru ætluð.“
Hins vegar ber að nefna að aftur-þokuljós eru eingöngu ætluð til notkunar utanbæjar, í skertu skyggni og má aldrei nota innanbæjar. Þá er gott að árétta að í utanbæjarakstri miðast notkun við þoku, þétta úrkomu eða skafrenning. Borið hefur á því að fólk aki með þokuljós í myrkri. Það er óheimilt og við því er sekt. Aðalmálið er þó að óhófleg notkun þokuljósa getur truflað nætursjón ökumanna sem koma úr gagnstæðri átt, ekki ósvipað og háu ljósin. Til að flækja málin þá eru margar nýrri gerðar bifreiða útbúnar „hliðarbeygjuljósum“, sem tengd eru þannig að á þeim kviknar þegar stefnuljós eru sett á. Slíkur ljósabúnaður er leyfilegur, skv. reglugerð. Athuga ber að þessum ljósum er ætlað að lýsa upp vegöxl, en ekki fram á veginn.
Má senda SMS við akstur?
Hvað varðar SMS þá er það sérstaklega nefnt í umferðarlögum og því nokkuð ljóst hvað má og hvað má ekki. Í lögunum segir:
“Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.”
Það á við um alla notkun slíkra síma, ekki aðeins að tala í þá í akstri.
Hvernig virkar hægri forgangur?
Hægri forgangur er grunnregla í umferðarlögum. Í 26. gr. umferðalaga segir: „Þegar ökumenn stefna svo að leiðir þeirra skerast á vegamótum, opnum svæðum eða svipuðum stöðum skal sá þeirra sem hefur hinn sér á hægri hönd veita honum forgang nema annað leiði af 19. gr.“
Þannig gildir reglan um “rétt til hægri” nema þar sem umferðarmerki eða umferðarstjórn lögreglu gilda. Þau gilda ofar þessari grunnreglu.
Hvenær er hægt að fjarlægja skráningarnúmer af bifreiðum vegna skoðunar?
Kerfið er þannig uppbyggt að bifreið sem ekki er færð til skoðunar innan þriggja mánaða frá því að aðalskoðun á að fara fram, fær sjálfkrafa sekt, sem greiða þarf þegar bifreiðin er færð til skoðunar næst. Ef ekki er farið eftir því og bifreiðin samt ekki færð til skoðunar getur lögregla klippt skráningarnúmer af ökutæki eftir að fullir 8 mánuðir hafa liðið frá því að færa átti ökutækið til skoðunar eða fullir 6 mánuðir hafa liðið frá því að bifreiðin átti að færast til endurskoðunar.
Lögreglan hefur þá vinnureglu að senda ekki sérstaklega lögreglumenn á vettvang þar sem tilkynnt er um óskoðaða bíla einfaldlega vegna þess að það eru næg verkefni og þetta verkefni er hentugra að vinna skipulega en ekki taka einn bíl í einu. Þannig er farið yfir götur og hverfi kerfisbundið og sektum dreift á óskoðaða bíla. Ef lögregla hefur afskipti af ökutækjum er oftast hugað að því hvort bifreiðin hafi verið færð til skoðunar.
Má fara út í myrkri án þess að vera með endurskinsmerki?
Það er ekki ráðlegt! Hins vegar eru engar reglur til varðandi gangandi vegfarendur og notkun endurskinsmerkja. Á hinn bóginn eru til reglur um endurskinsmerki og hjólreiðar. Hér ætti heilbrigð skynsemi að ráða en því miður eru allt of margir sem átta sig ekki á því að þeir geta verið ósýnilegir með öllu í náttmyrkrinu.
Hvenær mega börn/unglingar sitja frammí?
Það er á ábyrgð ökumanns ökutækis að allir farþegar séu í öryggisbelti og að börn noti viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan öryggisbúnað. Börn lægri en 150 cm skulu nota sérstakan verndarbúnað.
Aðgæta ber líka að í flestum bifreiðum í dag eru loftpúðar sem springa út við árekstur til að hlífa ökumanni og farþegum, en slíkur búnaður í framsæti getur verið hættulegur börnum. Best er að skoða leiðbeiningar með bifreiðinni og fara eftir þeim.
Er svigakstur bannaður?
Já. Svigakstur er brot á reglu um að ökutæki eigi að halda sig á þeirri akrein sem henni er ætluð og getur eftir atvikum verið brot á almennu varúðarreglunni en hvort tveggja er sektanlegt. Lögreglan fylgist með slíkum brotum og hefur sektað ökumenn vegna þessa.
Svigakstur skapar hættu, óþægindi og óöryggi án þess að vera neinum í hag. Ökumönnum ber að sýna aðgát og gera ekkert sem gæti valdið hættu.
Hvaða reglur gilda um hringtorg?
Alltaf að beygja inn á hringtorg til hægri.
Umferð í hringtorgi hefur forgang á umferð sem fer inn í hringtorg.
Umferð á innri hring hefur forgang gangvart umferð á ytri hring.
Sé ekið á ytri hring framhjá útkeyrslu er stefnumerki gefið til vinstri og fylgst vel með umferð á innri hring.
Eigi að fara út af hringtorgi á fyrstu útkeyrslu þá að nota ytri hring.
Gefa stefnuljós til hægri áður en ekið er út af hringtorgi.
Það má þá ekki skipta um akrein á hringtorgi.
Hvað þurfa börn að vera stór þegar þau geta hætt að nota beltispúða eða upphækkun?
Í umferðarlögum segir í 71. grein:
„Ökumaður skal sjá um að í stað öryggisbeltis eða ásamt öryggisbelti noti barn viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- og verndarbúnað ætlaðan börnum lægri en 150 cm á hæð. Ef slíkur búnaður er ekki í bifreið skal nota öryggisbelti fyrir barnið.“
Þannig er í raun miðað við 150 cm þegar kemur að þessum sérstaka öryggisbúnaði fyrir börn.
Að sama skapi mega börn sem styttri eru en 150 cm á hæð ekki sitja í framsæti bifreiða þar sem uppblásinn öryggispúði er staðsettur fyrir framan barnið.
Ég bý í rólegri íbúagötu – mælið þið aldrei hraða í slíkum götum?
Jú, sannarlega reynum við að fylgjast með íbúagötum enda eru það einmitt göturnar sem við leggjum mikla áherslu á. Það sem þarf samt að muna er að tilfinning okkar fyrir hraða ökutækja er miðuð við umhverfið. Þannig finnst okkur oft að ökutæki sem er ekið í þröngri, gróinni götu þar sem kyrrð ríkir, sé í raun ekið töluvert hraðar er raun ber vitni.
Þannig fáum við stundum óskir um hraðamælingar úr slíkum götum, síðan þegar við mælum þá er jafnvel ekki einni bifreið ekið of hratt, en þá hefur tilfinning okkar fyrir hraða breyst, sökum þess hvernig gatan er. Um þetta eru mörg dæmi.
Er bannað að nota þokuljós?
Það er ekki bannað ef aðstæður krefjast þess.
„Í þoku, þéttri úrkomu eða skafrenningi má nota þokuljós í stað eða ásamt lágum ljósgeisla. Hjálparljós má eigi nota til annars en þau eru ætluð.“
Hins vegar ber að nefna að afturþokuljós eru eingöngu ætluð til notkunar utanbæjar, í skertu skyggni og má aldrei nota innanbæjar.
Svo, til að flækja málin enn frekar, þá eru einnig komnir á markað bílar sem eru útbúnir „hliðarbeygjuljósum“ sem eru tengd þannig að á þeim kviknar þegar stefnuljós eru sett á. Slíkur ljósabúnaður er leyfilegur skv. reglugerð. Athuga ber að þessi ljós lýsa upp vegöxl, en ekki fram á veginn.
Ef ég sendi ykkur mynd af bíl sem er lagt ólöglega, getið þið sektað hann?
Við kærum almennt ekki í umferðarmálum byggt á ljósmyndum enda myndi slíkt valda okkur töluverðri vinnu, efalítið meira en efni stæðu til og fyrir því eru margar ástæður. Meðal annars þyrfti þá að finna ökumann, sem myndi á stundum alls ekki láta finna sig, taka viðkomandi fyrir og margt annað sem myndi gera slíka framkvæmd mjög erfiða. Þetta er góð hugmynd, en framkvæmd hennar er mjög erfið og því höfum við ekki farið þessa leið.
Ef þú telur að lögreglan ætti að skoða málið frekar geturðu sent okkur formlegt erindi.
Má vera með dökkar framrúður í bíl?
Allan þennan fróðleik og mun meiri er að finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, en hana er að finna hér að neðan. Reglugerð sú inniheldur allar upplýsingar sem snúa að tæknimálum ökutækja.
Ekki er löglegt að vera með filmur í framhliðarrúðum ökutækja en sannarlega getur það verið löglegt að vera með litað gler, en margir bílar koma með slíkum útbúnaði. Í reglugerðinni segir:
09.01 Rúður.
- Rúður skulu vera úr lagskiptu öryggisgleri, hertu öryggisgleri eða plastefni sem myndar ekki hvassar brúnir við brot.
- Framrúða eða vindhlíf skal vera þannig gerð að hún hvorki brengli né óskýri mynd þeirra hluta sem sjást í gegnum hana.
- Ljósgegnumstreymi framrúðu og fremstu hliðarrúða skal innan eðlilegs sjónsviðs vera a.m.k. 70%.
Einnig var spurt hvort að skipta mætti út framhliðarrúðum fyrir svartar rúður eða speglagler. Svarið við því er nei, það má ekki setja svartar rúður eða speglagler en það mætti skipta út hliðarrúðum fyrir rúður sem uppfylla skilyrðin hérna að ofan.
Reglugerðina er að finna hérna.
Get ég tilkynnt hraðakstur í tiltekinni götu?
Slíka tilkynningu er best að senda okkur með tölvupósti þar sem tilefni og gata eru tilgreind. Þessi tilkynning fer síðan á lögreglu sem starfar á svæðinu sem skipuleggur síðan viðbrögð. Ef vandamálið er viðvarandi þá væri næsta skref að tala við borg eða sveitarfélag.
Ökuferilskrá – hvar nálgast á hana?
Ökuferilskrá er hægt að fá á öllum lögreglustöðvum gegn því að framvísa persónuskilríkjum, en þá er hún sem dæmi prentuð út fyrir viðkomandi. Í sérstökum tilfellum, eins og t.d. þegar viðkomandi er ekki staddur á landinu, er hægt að senda tölvupóst á okkur í netfangið sektir(at)lrh.is, ásamt öllum persónuupplýsingum og útskýringu á hvers vegna ekki er hægt að koma á lögreglustöð. Þá er reynt að verða við því og senda hana rafrænt út.
Má ég vera með heyrnartól í eyrunum við akstur?
Það er ekkert í umferðarlögum sem bannar slíkt annað en almenna varúðarreglan en í henni segir:
„Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Hann skal og sýna þeim, sem búa eða staddir eru við veg, tillitssemi.“
Þannig mætti halda fram að með því að loka fyrir hlustirnar með heyrnartólum sé ekki verið að sýna varúð.
Má ég flytja rúm á þaki bílsins míns?
Það fer væntanlega eftir stærð rúmsins, stærð bílsins og hvernig farmurinn er frágenginn. Frekari upplýsingar má finna í stórskemmtilegri reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms.
Hversu stórum vörubílum má leggja í íbúðahverfi og hve langt frá brunahana þurfa þeir að vera?
Í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík segir:
„Vörubifreiðum sem eru 4 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutningabifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja í götum eða almennum bifreiðastæðum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar án tillits til þunga þeirra. Borgarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði þar sem undanþága hefur verið veitt.“
Því er um að gera að tilkynna slíkt til okkar í 112, en þá reynum við að skoða málið, sé þess nokkur kostur.
Varðandi brunahana er óleyfilegt, skv. umferðarlögum að leggja við slíka hana, nánar tiltekið e-lið, 3. mgr. 29. gr.
Umferðarlögin má finna hérna.
Yfirlitssíða fyrir allar lögreglusamþykktir má finna hérna.
Má aka vespum á gangstígum?
Þetta er góð spurning en svarið við henni er ekki einfalt.
Skilgreiningum á léttu bifhjóli og reiðhjóli er breytt þannig að nú er léttum bifhjólum skipt í tvo flokka, I og II. Í flokki léttra bifhjóla I eru bifhjól sem ná ekki meiri hraða en 25 km á klst hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin og er þá miðað við hámarkshraða sem tilgreindur er af framleiðanda bifhjólsins. Í umferðarlögin hefur verið bætt við, í skilgreiningu á léttu bifhjóli, að sé það rafdrifið skuli það ekki vera yfir 4 kW að afli. Sé hjólið með stig- eða sveifarbúnað sem þarf að stíga og er búið rafdrifnum hjálparmótor fellur það ekki undir skilgreiningu léttra bifhjóla í flokki I heldur telst vera reiðhjól og, hér að neðan, sjá má nánari umfjöllun um þær reglur sem nú gilda um slík hjól.
13 ára lágmarksaldur á léttu bifhjóli í flokki I Eins og áður segir voru þessi hjól sem nú eru skilgreind sem létt bifhjól í flokki 1 skilgreind sem reiðhjól og því voru engin aldursmörk fyrir stjórnendur slíkra hjóla. Nú er hinsvegar búið að setja skilyrði um lágmarksaldur og miðast hann við 13 ár. Líkt og gildir um reiðhjól er ekki gerð krafa um ökunám og ökuréttindi né heldur sérstakt próf varðandi akstur léttra bifhjóla í flokki I. Hjól í þessum flokki eru hinsvegar undanþegin vátryggingarskyldu en rétt er að hvetja eigendur til að huga vel að tryggingarmálum og leita ráða hjá tryggingarfélögum varðandi ábyrgðatryggingar.
Öfugt við önnur reiðhjól var sérstakt ákvæði sem bannaði að þessum hjólum væri ekið á akbraut og mátti eingöngu aka þeim á gangstígum. Sú nýjung er tekin upp að heimila akstur á léttum bifhjólum í flokki I á akbrautum óháð hámarkshraða á vegi og heimilt er eftir sem áður að vera á gangstétt, hjólastígum og gangstígum. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á hjólastígnum. Ef léttu bifhjóli í flokki I er ekið af gangstétt út á akbraut og hún þveruð skal aka á gönguhraða. Lítil rafdrifin hjól s.s. Segway-hjólin, rafdrifin hlaupahjól og hjólastóll sem er ekki hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst eru áfram skilgreind sem reiðhjól og mega eftir sem áður ekki vera á akbraut.
Gilda aðrar reglur um strætó þegar kemur að því að aka frá biðstöðvum?
Já, það gilda sérreglur um strætó og hópferðabifreiðar hvað þetta varðar. Samkvæmt 21. grein IV. kafla umferðarlaga segir:
„Ökumaður sem í þéttbýli nálgast biðstöð þar sem hópbifreið í almenningsakstri hefur numið staðar skal draga úr hraða, færa sig yfir á vinstri akrein eða nema staðar ef nauðsyn ber til ef ökumaður hópbifreiðarinnar í almenningsakstri hefur gefið merki um að hann ætli að aka af stað. Ökumaður hópbifreiðarinnar í almenningsakstri skal eftir sem áður sýna sérstaka aðgát til að draga úr hættu.“
Þannig hafa strætisvagnar ákveðinn forgang hvað þetta varðar. Það segir þó alls ekki að þeir geti hreinlega ekið af stað án þess að gæta sérstaklega að sér og leggja þannig aðra í hættu.
Ég tilkynnti um ölvaðan ökumann til 112. Mig langar bara að forvitnast í hvaða farveg svona tilkynningar fara. Hvað gerist eftir tilkynninguna?
Eftir að tilkynningin hefur verið hringd inn þá er það tilkynnt yfir talstöðvarrásina um að umrætt ökutæki sé í umferð og að ökumaður sé grunaður um að vera undir áhrifum áfengis, ásamt öðrum upplýsingum sem liggja fyrir eins og hverfi og akstursstefna. Útvinnandi lögreglumenn reyna að finna viðkomandi, stöðva akstur og kanna ástand. Ef ökumaður mælist yfir mörkum þá er hann handtekinn.
Það er mikilvægt fyrir okkur að fólk láti fylgja með allar upplýsingar sem geta skipt máli, bílnúmer, bíltegund, sérkenni bifreiðar. Ekki síst er gott að vita hvar viðkomandi er, hvert viðkomandi er að fara og hvort að tilkynnandi sé e.t.v. á eftir bílnum. Allt skiptir þetta máli til að reyna að finna þann bíl sem leitað er að.
Er leyfilegt að taka U-beygju á gatnamótum?
Það fer eftir því hvort og hvaða umferðarmerki er á gatnamótunum. Ef boðmerki með aksturstefnu, blátt merki með hvítri ör, er á gatnamótum merkir það að aðeins má aka þar sem það vísar.
Eru þessi merki notuð í dag fram yfir bannmerki eða „u-beygja bönnuð.“ Tilgangurinn er að greiða fyrir umferð, enda getur það valdið töfum á umferð ef verið er að taka u-beygju.
Við hringtorg eru oft hraðahindranir sem fólk notar sem gangbraut. Eru það raunverulegar gangbrautir?
Þannig að ef ekki er uppi gangbrautarmerki þá er ekki um gangbraut að ræða og í þessu tilfelli er um að ræða hraðahindrun eða gönguleið/hjólaleið án gangbrautarréttar samkvæmt umferðarlögum. Þó má aldrei gleyma að meginregla umferðarlaga 4. gr. Um tillitsemi við gangandi sem og aðra vegfarendur á alltaf við. Þarna eru gangandi sem og hjólandi að þvera veg á hraðahindrun og göngu-hjólaþverun án gangbrautarréttar.
Til þess að um gangbraut sé að ræða þarf að vera þar tilgert skilti sem skal vera báðum megin akbrautar. Ef eyja er á akbraut má merkið einnig vera þar. Yfir akbraut skal að jafnaði merkt með hvítum samhliða röndum langsum á vegi. Heimilt er þó að merkja gangbraut með tveimur óbrotnum línum eða bóluröðum þvert yfir akbrautina. Merkingu þessa má einnig nota þar sem hjólreiðarstígur eða reiðvegur þverar veg.
Í nýrri bílum er oft að finna LED perur sem eru e.k. dagsljósabúnaður. Má þetta?
Mörg ný ökutæki eru útbúin þannig að þegar bifreiðin er ræst, kvikna stöðuljós að framan (oftar en ekki LED ljós) en engin ljós að aftan. Þó að ökutækið sé svona útbúið er samt sem áður skylda að vera með ökuljós kveikt. Því þurfa eigendur þessara ökutækja að muna eftir því að kveikja ljós bifreiðarinnar áður en lagt er af stað, til að vera vel sýnileg og í samræmi við reglur.
Í sumum nýrri ökutækjum er skynjari sem skynjar hvort að það sé byrjað að nátta, en þar sem aðstæður eru oft erfiðari hér á landi hafa sumir hreinlega brugðið á það ráð að setja límbandi yfir slíka skynjara til að aðalljós bifreiðarinnar séu alltaf kveikt. Slíkt er þó alfarið undir eigandanum komið, en gott ráð fyrir þá sem gleyma stundum að kveikja aðalljós bifreiðarinnar.
Var að velta fyrir mér hvernig hægri forgangur virkaði almennt, þ.e.a.s. er hægri forgangur virkur inni á bílastæðum þar sem engin skilti eru?
Hægri forgangur er grunnregla í umferðarlögum, en í 25. gr. Umferðarlaganna segir:
„Þegar ökumenn stefna svo, að leiðir þeirra skerast á vegamótum, opnum svæðum eða svipuðum stöðum, skal sá þeirra, sem hefur hinn sér á hægri hönd, veita honum forgang.“
Þannig er það í raun að reglan um „rétt til hægri“ gildir, nema þar sem umferðarmerki eða umferðarstjórn lögreglu gilda, en þau gilda ofar þessari grunnreglu.
Get ég tilkynnt óskoðaða bifreið?
Hér áður fyrr fór lögreglan með eftirlit með skoðuðum ökutækjum en það hefur breyst undanfarin ár. Hvað varðar óskoðuð ökutæki þá er kerfið þannig uppbyggt að bifreið sem ekki er færð til skoðunar innan þriggja mánaða frá því að aðalskoðun á að fara fram, fær sjálfkrafa sekt, sem greiða þarf þegar bifreiðin er færð til skoðunar næst. Ef ekki er farið eftir því og bifreiðin samt ekki færð til skoðunar getur lögregla klippt skráningarnúmer af ökutæki eftir að fullir 8 mánuðir hafa liðið frá því að færa átti ökutækið til skoðunar, eða fullir 6 mánuðir hafa liðið frá því að bifreiðin átti að færast til endurskoðunar.
Við höfum sett okkur þá vinnureglu að senda ekki sérstaklega lögreglumenn á vettvang þegar tilkynnt er um óskoðaða bíla, einfaldlega vegna þess að nóg er af verkefnum og þessi verkefni er talið hentugra að vinna skipulega, ekki einn bíl í einu. Þannig tökum við jafnvel fyrir ákveðnar götur/svæði og sektum þannig alla óskoðaða bíla á svæðinu.
Þá getur ótryggð bifreið ekki fengið skoðun og fer lögregla í aðgerðir nokkrum sinnum á ári til að fjarlægja bílnúmer af ótryggðum ökutækjum, enda eru þar miklir hagsmunir í húfi.
Eru vikmörk á hraðamælingum lögreglu?
Já, vikmörk eru á mældum hraða. Ef mældur hraði er 100 km/klst eða minna eru 3 km/klst dregnir frá, en ef mældur hraði er meira en 100 km/klst eru reiknuð út 3% af mælda hraðanum og útreiknaða talan hækkuð upp í næstu heilu tölu fyrir ofan. Sú tala er síðan dregin frá mælda hraðanum. Ekki er byrjað að sekta fyrir hraðakstur fyrr en hraðinn er 5 km/klst meiri en leyfður hámarkshraði, sem þýðir að sektir eru gefnar út þegar ökutæki er ekið á 36 km/klst þar sem 30 km/klst hámarkshraði. Vegna vikmarkanna sem dregin eru frá mælda hraðanum, þá þarf mæling að sýna 39 km/klst til að sektað sé fyrir að aka á 36 km/klst.
Það var svínað á mig í umferðinni, hvað getið þið gert?
Það er aldrei gott að lenda í slíku og það er brot á lögum. Hins vegar er það oftast vegna vanmats á aðstæðum heldur en að það sé vegna ásetnings. En varðandi málið sjálft þá stendur það orð gegn orði og því erfitt að vinna slík mál, auk þess sem við tökum ekki að okkur að skamma fólk vegna ábendinga. Það er líka gott að temja sér ákveðið jafnaðargeð í umferðinni og láta slíkt ekki of mikið á sig fá og ekki kynda undir reiði.
Einu undantekningarnar sem við gerum eru þegar okkur berast margar tilkynningar á sama tíma um athugaverðan akstur ökutækis.
Ég er í björgunarsveit – má ég aka með forgangsakstri í útkall með gult vinnuljós?
Hvað varðar aksturinn þá eru vinnuljós eða svokölluð varúðarljóssker ekki ætluð til slíkra nota. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja segir:
- Varúðarljós.
Litur: Skal vera gulur.
Notkun: Ljósið er ætlað til notkunar þegar ökutæki er í þannig aðstöðu að:
- Vegna vinnu er ekki farið eftir fyrirmælum umferðarlaga.
- Unnið er við sérstaka flutninga sem geta verið til verulegrar hættu fyrir aðra umferð.
- Unnið er að vegagerð og vegaviðhaldi, þ.m.t. snjómokstri.
- Unnið er við björgunarstörf, þ.m.t. drætti ökutækis.
Þér er því ekki heimilt að nota varúðarljós í þessum tilgangi enda tengir fólk gult varúðarljós við allt annað en bifreið í hröðum akstri og slíkt getur valdið miklum misskilningi.
Hvað varðar aksturinn sjálfan þá er mögulegt að víkja undan ákvæðum umferðarlaga í ákveðnum tilfellum, sé sannarlega lífshætta. Slíkt gildir þó ekki um almenn útköll og þarf nauðsyn akstursins að vera alveg skýr. Það að aka neyðarakstur er mjög hættulegt og veldur ekki bara þeim sem ekur hættu heldur öllum í umhverfinu.
Í lögunum segir:
„Vélknúið ökutæki, sem í einstakt skipti er notað til aksturs í þjónustu lögreglu, slökkviliðs eða í lífsnauðsyn, svo sem við flutnings sjúks manns eða slasaðs, og er greinilega auðkennt að framan með hvítri veifu, er við þann akstur jafnsett ökutæki sem ætlað er til neyðaraksturs. Stjórnandi ökutækisins skal tilkynna lögreglunni um aksturinn svo fljótt sem auðið er að akstri loknum. Heimildarlaus notkun hvítrar veifu er bönnuð.“
Lögin má finna hérna.
Reglugerðina má finna hérna.
Hvað geri ég ef árekstur verður?
1. Kalla þarf til lögreglu ef:
• Slys verða á fólki
• Ökutæki óökuhæf eða valda hættu.
• Grunur um umferðarlagabrot (ölvunarakstur, hraðakstur, ekið gegnum rauðu ljósi o.s.frv.)
– Hringdu STRAX í 112!
2. Fylla þarf út tjónaform ef einungis er um eignartjón að ræða. Það er hægt að gera sjálf/ur eða fá til þess aðstoð hjá hlutlausum þjónustuaðila td. Akstur og Öryggi: www.arekstur.is – sími: 578 9090
Færa þar ökutæki úr akvegi um leið og mögulegt er – til að þau valdi ekki töfum og hættu. Í flestum tilfellum er hægt að gera það um leið og búið er að ganga úr skugga um að allir séu heilir á húfi.
Í 10. gr. Umferðarlaga er fjallað um um skyldur vegfarenda þegar umferðaróhapp verður: http://www.althingi.is/lagas/145a/1987050.html
Lögreglan (9)
Forgangsakstur lögreglubifreiða
Alveg sömu reglur gilda um lögregluna og aðra hvað varðar hámarkshraða og umferðarlög almennt. Lögreglan hefur hins vegar heimild til að víkja frá reglum umferðarlaga, þar á meðal hámarkshraða ef nauðsyn krefur. Það sést stundum með því að ökumaður viðkomandi lögreglubíls notar þar til gerð hljóð og ljósmerki, en slíkt þarf ekki að vera í öllum tilvikum. Sem dæmi um aðstæður þar sem lögregla þarf ekki að nota þar til gerð hljóð og ljósmerki er þegar slík merki gætu varað brotamenn eða aðra við að lögregla sé að nálgast. Mikilvægt er að muna að lögreglumenn eru ábyrgir fyrir akstri við slíkar aðstæður og taka slíka ábyrgð mjög alvarlega.
Allar ferðir lögreglubíla og hraði þeirra er skráður á 5 sek. fresti. Ef fólk hefur orðið vart við eitthvað óeðlilegt þegar kemur að akstri lögreglubifreiða er hægt að senda okkur ábendingu um það ásamt nákvæmri tíma- og staðsetningu og þá getum við kannað málið nánar.
Hvers vegna stoppaði lögreglan ekki ökumann sem ók yfir á rauðu ljósi?
Þetta er sannarlega góð og þörf spurning. Þannig er að á lögreglu hvílir ekki kæruskylda, s.s ef lögregla verður vitni að brotum er það ekki skylda hennar að kæra. Ef til vill hljómar þetta örlítið skringilega en slíkt gerir lögreglu kleift að meta aðstæður betur og meta aðgerðir eftir því. Þetta gerir það að verkum að stundum stöðvar lögregla ökumenn og ræðir við þá í stað þess að sekta, einfaldlega vegna þess að stundum virkar betur að spjalla en að sekta.
Lögreglan er fagstétt sem þarf að meta margt þegar að aðgerðum kemur. Til að mynda gæti það skapað mikla hættu að fara á eftir bíl sem fer yfir á rauðu ljósi á háannatíma á stórum gatnamótum. Gott er að ímynda sér hvernig stór gatnamót eru og hvað margir bílar þurfa að nema staðar með litlum fyrirvara til að lögreglan komist þar yfir með forgangsljósum. Almennt má segja að lögreglumenn séu hvergi í meiri hættu að lenda í slysi en á slíkum stundum auk þess sem aðrir vegfarendur séu einnig lagðir í hættu. Þannig verður lögreglan að meta hvort það sé ásættanlegt að leggja marga í hættu með slíkum aðgerðum, til þess eins að stoppa ökutæki á háannatíma með tilheyrandi töfum fyrir aðra umferð.
Í öðru lagi er allt eins líklegt að lögreglumenn geti verið með einstakling í lögreglubifreiðinni á leið til eða frá vettvangi, mögulega handtekinn aðila. Þá er ekki farið í að sinna umferðarverkefum, enda önnur brýnni verkefni í gangi.
Í þriðja lagi er allt eins líklegt að þeir hafi hreinlega verið á leið í verkefni. Þá kunna margir að spyrja: Er ekki bara allt í lagi að stoppa einn bíl á leið í verkefni? Jú, það getur verið það – en stundum breytast einföld verkefni yfir í að vera ansi flókin verkefni og þá er okkar fólk bundið í þeim. Þannig er það að okkar fólk þarf oft að komast hratt á vettvang, þótt að ekki sé þörf á að fara með forgangi.
Má lögreglan vera „í felum“ að hraðamæla?
Lögreglan kemur sér fyrir á þeim stað sem hún telur heppilegan til að framfylgja umferðarlögum og í umferðarlögum er að finna sérstaka grein sem leyfir lögreglu að leggja ökutækjum sínum þar sem aðrir mega ekki leggja, t.d. undir brú.
Lögreglan er undanþegin því að fara eftir ákveðnum ákvæðum umferðarlaga við störf sín, en alltaf þarf að gæta þess að öryggi sé ekki stefnt í voða með aðgerðinni.
Ekki má gleyma því að það er frekar erfitt fyrir lögreglumenn að fela lögreglubíl á bak við eitthvað t.d. við hraðamælingar. Lögreglan þarf nefnilega að hafa útsýn yfir veginn til þess að mæla ökutækin.
Einnig er vert að minnast á það að því hraðar sem ekið er, því mjórra verður sjónsvið ökumannsins og viðkomandi horfir lengra fram á veginn. Mjög oft heyra lögreglumenn að ökumenn segi lögregluna hafa verið að fela sig en reynslan er sú að lögreglubifreiðinni var lagt í vegkanti, í allra sýn, en ökumaður sá hreinlega ekki lögreglubifreiðina, enda að horfa langt fram á veginn. Af þessu má sjá að það eitt að aka innan hraðatakmarka eykur líkurnar á að sjá lögreglubifreiðar, en ekki síður aðrar bifreiðar í umferðinni.
Þannig er til lítils að sakast við lögregluna þegar fólk er gripið við hraðakstur. Ábyrgðin er viðkomandi ökumanns, fyrst og fremst.
Get ég fengið upplýsingar um mig úr málaskrá lögreglu?
Til að fá upplýsingar úr málaskrá lögreglu geta einstaklingar haft samband við embætti ríkislögreglustjóra, sem sér um að afhenda slíkar upplýsingar fyrir öll embætti á landinu. Síminn hjá ríkislögreglustjóra er 444-2500.
Hvað er gert við óskilamuni sem ekki komast til eigenda sinna?
Um þá gildir einn af skemmtilegustu lagatextum íslenska lagasafnsins (fyrir þá sem hafa gaman af slíku): Opið bréf (frá kansellíinu) um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum.
Þar segir: „Ef eigandinn kemur eigi innan árs og dags, skuli selja hið fundna handa lögreglustjórum.“ Lögin má finna hérna.
Mörg lögreglulið hafa farið þá leið að birta myndir af óskilamunum á vefmiðlum og því er best að skoða síðu þess lögregluliðs sem sinnir svæðinu og skoða hvernig meðferð funinna muna er hjá því lögregluliði.
Má lögreglan leggja ólöglega, t.d. undir brú?
Í slíkum tilvikum er ökutækjum lögreglu ekki lagt ólöglega enda gera umferðarlögin ráð fyrir því að reglur sem snúa að lagningum ökutækja gildi ekki um ökutæki lögreglu. Þannig gera umferðarlögin ráð fyrir því að lögreglan geti lagt ökutækjum sínum víðsvegar, enda sé þess þörf vegna starfa hennar.
Þess ber þó að geta að lögreglumenn verða þó að sjálfsögðu að gæta að því að leggja þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Reglur um lagningar ökutækja má finna í 27.-28. gr. umferðarlaga en undanþágu lögreglu má finna í 29. gr. sömu laga. Lögin má finna hérna.
Getið þið sagt mér af hverju þið leggið hálfir út á götu þegar þið stoppið bíl af einhverjum ástæðum og neyðið bílana sem á eftir koma yfir á rangan vegarhelming og yfir óbrotna línu?
Þegar lögreglan stoppar bíl er lögreglubílnum vísvitandi lagt þannig að bíllinn myndi skjól fyrir lögreglumann sem síðan fer upp að bílstjórahurðinni til að ræða við ökumann. Þetta er gert til að auka líkurnar á að fólk sjái okkur og aki ekki utan í, eða á, lögreglumanninn sem stendur við hlið þess bíls sem verið var að stoppa.
Ég sá lögreglubíl ekið gegn rauðu ljósi, með bláum forgangsmerkjum, þau síðan slökkt og haldið áfram. Er þetta leyfilegt?
Lögreglunni er heimilt að víkja frá ákveðnum umferðarreglum í neyðartilfellum, en þá er ekinn svokallaður forgangsakstur. Slíkum akstri er skipt niður í þrep, eftir því hversu alvarlegt atvikið er. Gott er að taka fram að slíkur akstur fer ekki allur fram með notkun blárra ljósa og sírenum.
Þetta er að sjálfsögðu mat hverju sinni og krefst þess að lögreglumenn gæti vel að öryggi annarra vegfarenda og sínu eigin.
Mikið eftirlit er með akstri lögreglu og meðal annars er allur akstur lögreglu skráður, hraður, notkun forgangsljósa og þar fram eftir götunum. Fáar stéttir þola jafn mikið eftirlit með störfum sínum. Þetta gerir það að verkum að lögreglumenn geta ávallt átt von á því að farið sé yfir akstur þeirra.
Eiga lögreglumenn að nota sírenur við forgangsakstur?
Svarið við þessu er á þann veg að ekki er skylda fyrir lögreglumenn að nota sírenur, t.d. þegar farið er yfir gatnamót, slíkt er matsatriði hverju sinni og því er mismunandi hvort að notkun á sírenum sé nauðsynleg eða ekki.
Sírenuhljóð berst illa inn í ökutæki, enda eru ökutæki í dag orðin það vel einangruð að hljóð berst mjög illa inn í þau. Þetta veldur því að þegar lögreglan er í forgangsakstri þá sjást ljósmerki löngu áður en hljóðmerki heyrist. Vegna þessa höfum við dregið úr notkun hljóðmerkja til að valda minna áreiti, enda verða margir ökumenn mjög stressaðir þegar við förum um með slík hljóðmerki, auk þess sem hljóðið berst um íbúðahverfi.
Vegna þessa er það alltaf matsatriði hvaða búnaði er beitt. Þess ber þó að geta að enginn er meira vakandi fyrir því að forgangsakstur sé framkvæmdur á öruggan máta en okkar fólk, enda er það einmitt okkar fólk sem er í mestri hættu þegar kemur að forgangsakstri. Þannig reynir okkar fólk að beita þeirri þjálfun sem það býr yfir og meta hvernig sé hægt að framkvæma forgangsakstur á sem hættulausasta máta.
Ýmislegt (13)
Er andlegt ofbeldi bannað samkvæmt lögum?
Þessu er erfitt að svara í stuttu máli svo nægjanlegt sé þar sem þetta eru flókin mál og einstök í eðli sínu.
Hvergi er í lögum talað um andlegt ofbeldi. Erfitt er að skilgreina andlegt ofbeldi, enda getur það verið allt frá því að vera andstyggilegheit yfir í að vera hreinar og beinar hótanir. Andstyggilegheit eru ekki lögbrot, en hótanir eru það. Þannig er andlegt ofbeldi ekki til í lögum, en það sem oft er kallað andlegt ofbeldi getur engu að síður verið lögbrot. Hvaða sannanir er hægt að nota í hverju og einu skipti er mjög mismunandi og fer algerlega eftir hverju máli.
Hvernig fæ ég nálgunarbann?
Samkvæmt lögunum er unnt að leggja nálgunarbann á þann sem ástæða er til að ætla að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Í slíku banni felst að sá sem því sætir má ekki koma á tiltekinn stað eða svæði eða setja sig með öðru móti í samband við þann sem verndaður er af banninu. Ef fólk vill kanna hvort að grundvöllur sé fyrir slíku banni þarf viðkomandi að leita til lögreglu, sem metur málið og sendir síðan til dómstóla, sem úrskurða um kröfu lögreglu.
Ef þú vilt geturðu kynnt þér lögin sem fjalla um þetta úrræði. Þau má finna hérna.
Íbúi í húsinu mínu er að leigja út íbúð til ferðamanna. Er það hægt án samþykkis míns?
Farið hefur verið fram á samþykki meðeiganda þar sem hugsanlegt sé að starfsemin geti valdið einhverju ónæði. Miðað hafi verið við meirihluta sbr. 3. mgr. 27. gr. Fjöleignarhúsalaga, texta hér að neðan (3. Málsgrein; séu um að ræða…).
Í nýlegu áliti kærunefndar húsamála af sambærulegu tilefni var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að umgengni gesta sé sambærileg annarri umgengni í venjulegu fjölbýlishúsi, því þurfi að meta það hverju sinni hvort ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga eigi við. Taldi kærunefndin að það tilvik sem hún hafði til umfjöllunar (íbúð í stórri íbúðablokk) félli undir ákvæði 2. mgr. 27. gr. laganna og útheimti því ekki samþykki meðeigenda (2. málsgrein 27. greinar). Miðað við þetta mat kærunefndarinnar er því hæpið að leyfisveitingu verði synjað þó meðeigandi samþykki ekki, enda gengur meginregla fjöleignarhúsalaganna út frá því að eigandi hafi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni.
- gr. Breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, eru háðar samþykki allra eigenda í hússins.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. Getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hefur ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans.
Sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki er veruleg er nægilegt að samþykki einfalds meiri hluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.
Ef breytt hagnýting eignarhluta hefur sérstök og veruleg óþægindi eða truflun í för með sér fyrir suma eigendur, einn eða fleiri, en aðra ekki þá eiga þeir sem sýnt geta fram á það sjálfstæðan rétt til að krefjast þess að af breytingunni verði ekki.
Ég fékk símhringingu frá Microsoft um að tölvan mín væri sýkt af vírus. Hvernig bregst ég við þessu?
Við þekkjum þessi mál ansi vel en þarna er um svikatilraun að ræða sem snýr að því að reyna að fá þig til að setja inn hugbúnað sem í raun er eins konar vírus og verður til þess að óprúttnir aðilar ná yfirráðum á tölvu þinni og krefjast síðan lausnargjalds fyrir tölvuna.
Við þessu er fátt annað að gera en að vara aðra við, en það höfum við gert reglulega og sendum þá út aðvaranir vegna þessa til að vara sem flesta við. Hringingarnar koma frá löndum þar sem erfitt er að nálgast upplýsingar og þar sem tími og mannaforráð lögreglu eru takmörkuð viljum við síður eyða tíma í mál þar sem enginn skaði varð og engin hætta á ferðum.
Ef fólk er hins vegar í þeirri stöðu að hafa fallið fyrir slíkum hringingum er gríðarlega mikilvægt að taka tölvuna strax úr sambandi við netið og leita aðstoðar sérhæfðra aðila við að hreinsa tölvuna.
Ég sá auglýsingu fyrir pókerkvöld. Er slíkt bannað?
Ekki er bannað að spila póker hér á landi og ekki heldur að halda spilamót þar sem menn greiða þátttökugjald og því safnað upp í vinninga sem sá hreppir sem best stendur sig. Þetta fyrirkomulag viðgengst í fleiri spilum heldur en póker og því er það mat ríkissaksóknara að slíkt feli ekki í sér brot á gildandi reglum.
Það sem er hins vegar óheimilt er ef þriðji aðili hagnast af einhvers konar milligöngu um fjárhættuspil. Hvað á við í hverju tilviki getur verið snúið að átta sig á.
Er ólöglegt að taka sundur flugelda og breyta þeim?
Já, það getur verið það, enda segir í 5. gr. Reglugerð um skotelda:
„Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til.“
Þannig geta legið sektir eða fangelsisrefsing við slíkum brotum, en reglugerðin á stoð í vopnalögum. Þar liggja í raun rökin hvað lögin varðar, en almennt séð er það að taka í sundur flugelda afskaplega hættulegt og getur skapað þeim sem það gerir alvarlegt líkamstjón.
Hvar get ég sótt um sakarvottorð?
Lögreglan sér ekki um að halda úti sakaskrá, það gerir embætti ríkissaksóknara. Til að nálgast sakavottorð getur þú sótt um slíkt hjá sýslumanni í þinni heimabyggð. Frekari upplýsingar er hægt að fá á: http://www.syslumenn.is/utanrvk/leyfi_skirteini/sakavottord/.
Ég fékk sendan svikapóst, svokallað Nígeríubréf, viljið þið að ég sendi ykkur það?
Fólki er alltaf velkomið að senda okkur efni sem það telur geta aðstoðað okkur við vinnu okkar. Hvað svikapóstinn varðar þá þurfum við ekki að fá slík bréf enda gerum við í raun fátt við þau. Svikapóstur er sendur út í milljónatali og því væri gríðarleg vinna fyrir lögreglu að eltast við slíka tilraunir en oftast koma bréfin frá löndum þar sem erfitt er að nálgast upplýsingar og því fátt að elta. Þar sem tími og mannaforráð lögreglu eru takmörkuð viljum við síður eyða tíma í mál þar sem enginn skaði varð og engin hætta var á ferðum.
Ef fólk er hins vegar í þeirri stöðu að hafa fallið fyrir slíkum sendingum er gríðarlega mikilvægt að tilkynna slíkt strax til lögreglu, sem gerir þá allt sem hægt er til að liðsinna viðkomandi og rannsaka svikin.
Mikið heyrist af málum þar sem reynt er að tæla börn upp í bíla. Hvað er lögreglan að gera í slíkum málum?
Þessi mál eru skiljanlega mjög ofarlega á forgangslista okkar og við tökum þau mjög alvarlega en einn starfsmaður embættisins hefur það hlutverk að safna öllum slíkum tilkynningum saman og greina þær frekar.
Gott er að geta þess að slík mál koma oft upp í kjölfar umræðu og er það reynsla okkar að komi ein tilkynning, fylgja oftast fleiri með í kjölfarið. Þannig virðist umræðan stundum kalla fram ákveðinn ótta hjá börnum og fara þau því að túlka eðlilegar aðstæður á verri veg. Við hverjum börn til að vera á varðbergi og hlaupa í burtu ef þau upplifa sig í hættu en það veldur því líka að við fáum stundum tilkynningar þar sem börn mistúlka aðstæður sem eðlilegar skýringar finnast á. Við viljum þó að okkur berist of margar tilkynningar heldur en of fáar.
Hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er lögð mikil vinna við að skrá niður allar upplýsingar og meta aðstæður, hvort um sama aðila sé að ræða, alvarleika málanna og þar fram eftir götunum. Þannig er hvert mál skoðað og borið saman við önnur tilvik, en það er einmitt gert til þess að lögreglan geti brugðist hratt við ef aðstæður skapast þar sem hætta er talin vera á ferðum. Þess ber að geta að í langflestum tilfellum eru málsatvik mjög óljós og því erfitt að greina hvort um raunverulega hættu hafi verið að ræða.
Hvað aukið eftirlit varðar þá er slíkt að sjálfsögðu alltaf í skoðun. Við höfum yfir ákveðnum fjölda lögreglutækja að ræða og reynum að beita þeim jafnt í þeim hverfum sem lögreglustöðvarnar sinna. Þannig getum við ekki sinnt einu hverfi umfram öðru, enda ekkert sem bendir til að slíkar tilkynningar, þar sem grunur leikur á að reynt hafi verið að tæka barn í bíl, séu bundnar við ákveðin hverfi. Þvert á móti koma þessi mál upp um allt höfuðborgarsvæðið, en eins og áður kom fram, koma þær gjarnan nokkrar saman. Það fær fólk stundum til þess að halda að sérstök hætta sé í ákveðnu hverfi, en svo þarf alls ekki að vera, enda leggjum við töluverða vinnu í að greina þessi mál frekar.
Að þessu sögðu er þér og öðrum íbúum meira en sjálfsagt að vera í sambandi við lögreglustöðina í hverfinu ykkar en þar getið þið rætt við yfirmenn stöðvanna um áhyggjur ykkar.
Hvar sæki ég um nýtt vegabréf?
Útgáfa vegabréfa er í höndum sýslumanna og því er best að leita til sýslumanns í þínu sveitarfélagi. Hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu annast starfstöðvarnar í Kópavogi eða Hafnarfirði afgreiðslu vegabréfa. Allar upplýsingar er að finna á vefsíðunni vegabréf.
Mega konur vera berbrjósta á almannafæri?
Þetta er ansi skemmtileg fyrirspurn, en kannski ekki nokkuð sem hægt er að svara á mjög einfaldan máta.
Í fyrsta lagi er ákvæði í hegningarlögum sem snýr að blygðunarsemisbrotum, en eins og svo margt annað þá er það auðvitað háð mati þess sem upplifir sig að hafa orðið fyrir því að blygðun viðkomandi sé ofboðið og ásetningi þess sem framkvæmir, s.s. hvort viðkomandi sé hreinlega að bera sig til að njóta sólarinnar eða að bera sig til að hneyksla aðra og láta þeim líða illa.
Að sama skapi fjallar lögreglusamþykkt um svipað efni en þar segir í 3. grein: „Enginn má áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi.“ Þannig má í raun segja að eins og svo margt annað sé þetta allt háð mati. Ef við gæfum okkur tvö ímynduð dæmi um einstakling sem liggur í fáklædd/ur sólbaði en annann sem hleypur um á fæðingargallanum einum saman, til þess eins að valda usla og leiðindum. Margt í okkar vinnu er þannig alfarið háð aðstæðum, það er einmitt staðan sem gerir okkar vinnu svo ansi flókna, að það eru svo ansi mörg atriði sem þarf að hafa til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir.
Hvar er sótt um stæðiskort fyrir fatlaða?
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sér um útgáfu kortanna á höfuðborgarsvæðinu. Umsækjendur þurfa að fylla út umsókn og skila inn ásamt læknisvottorði og ljósmynd (passamynd). Að því loknu er lagt mat á umsókn um stæðiskort og gefur út stæðiskortið að uppfylltum skilyrðum reglugerðar um útgáfu stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða nr. 369/2000.
Er leyfilegt að brugga til eigin nota?
Stutta svarið er: Nei – það að brugga áfengi er ekki löglegt nema að viðkomandi hafi til þess sérstakt leyfi. En – fyrst er ef til vill gott að skoða hvað flokkast undir áfengi. Í 2. grein áfengislaga, lögum nr. 75/1998 segir:
„Samkvæmt lögum þessum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,23% af hreinum vínanda.“
En í 6. grein sömu laga segir að:
„Með framleiðslu áfengis er átt við hvers konar bruggun, gerjun eða eimingu áfengra drykkja, sem og blöndun eða átöppun eins og fleiri áfengra drykkja. Til framleiðslu í þessum skilningi telst þó ekki blöndun áfengra drykkja sem á sér stað samtímis og sem hluti af veitingu áfengis.“
Þannig er það í raun alveg ljóst að framleiðsla áfengis er leyfisskyld, hvort sem um ræðir lítið eða mikið magn, svo lengi sem að áfengismagn í vökvanum fer yfir 2,25% af hreinum vínanda.
Skotvopn (5)
Ég erfði skotvopn en hef ekki skotvopnaleyfi. Þarf ég að hafa svoleiðis ef ég stunda ekki veiðar?
Reglulega kemur fyrir að fólk sé í þessari aðstöðu. Í daglegu tali er oftast talað um skotvopnaleyfi en í raun er þar um að ræða tvö leyfi, annars vegar skotvopnaréttindi en hins vegar veiðileyfi. Þannig eru ekki margir sem veiða, sem hafa bara skotvopnaréttindi. Þeir aðilar eiga ýmist skotvopn í söfnunartilgangi eða stunda skotíþróttir.
Til þess að eiga skotvopn þarf að vera með skotvopnaleyfi, en þannig getur viðkomandi verið skráður fyrir vopninu og þannig vitað hver ber ábyrgð á því.
Mjög mikilvægt er að skráningar skotvopna séu í lagi enda er mikilvægt að lögreglan hafi nákvæmar skrár um hvar vopn séu og hver beri ábyrgð á þeim, ekki síst sökum þess að ef skotvopni er stolið þarf lögregla að vita af slíku, en mikið kapp er lagt á að endurheimta stolin skotvopn, eðli málsins samkvæmt.
Í tilvikum þar sem um er að ræða dánarbú hefur erfingi eitt ár, frá dánardegi talið, til að ganga frá skráningu skotvopns á þann sem á að bera ábyrgð á því. Við viljum endilega liðsinna í slíkum málum og hvetjum þig til að hafa samband við okkur og fá aðstoð við að ganga frá slíkum málum.
Ég sá skotvopn auglýst til sölu – er slíkt löglegt?
Já, slíkt er heimilt, þ.e. að auglýsa vöru, en kaupandinn þarf eftir sem áður heimild til þess að eiga vopnið sem hann sækir um eftir hefðbundnum leiðum hjá lögreglu. Algengt er að notuð vopn séu auglýst með þessum hætti og gangi kaupum og sölu.
Þegar skotvopn eru seld/keypt þarf kaupandi að sækja um svokallaða kaupaheimild, en til að fá slíka heimild þarf kaupandi að vera með réttindi á viðkomandi skotvopn, en þó nokkuð margir flokkar eru til, en mismunandi erfitt er að fá réttindi á hvert og eitt þeirra. Að kaupaheimild fenginni getur viðkomandi síðan keypt söluvopnið, en þegar gengið er frá slíku undirrita allir aðilar heimildina, henni er þá komið til lögreglustjóra sem sér til þess að skráning vopnsins sé með eðlilegu móti.
Margir gætu þá spurt sig, hvaða hvati er til þess að sannanlega sé gengið frá skráningunni og vopnið skráð á réttan aðila? Hvatinn er sá að lögboðin skylda er á eiganda að varsla vopnsins sé með eðlilegum hætti auk þess sem skotvopn eru dýr varningur. Þannig er bæði hvati fyrir eiganda, að vopnið sé sannanlega skráð eign viðkomandi, en auk þess hvati fyrir seljanda, að vopnið sé ekki lengur á hans ábyrgð.
Ég sá skammbyssu auglýsta til sölu um daginn. Eru strangari reglur með það og/eða er það líka löglegt?
Skammbyssur sæta vissulega strangari reglum en önnur skotvopn og töluvert fáir aðilar fá réttindi til að eiga slík vopn. Hins vegar eru þetta eigur fólks og viðkomandi því frjálst að auglýsa og selja en allt eftir kúnstarinnar reglum auðvitað.
Skammbyssur flokkast nánast í öllum tilfellum til íþróttavopna, og til eru íþróttafélög þar sem fólk stundar skotfimi, hvort sem er þá með loftbyssum, rifflum, haglabyssum nú eða skammbyssum. Allt eru þetta löglegir munir sem er þó mis erfitt að fá heimild til að eignast.
Mig hefur lengi langað að eiga eftirlíkingu af byssu uppi á vegg sem skraut. Eru eftirlíkingar af skotvopnum leyfisskyldar?
Við þessu er einfalt svar. Innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum vopna er bannaður, enda sé ástæða til að ætla að erfitt sé að greina þær frá fyrirmyndinni.
Öll skotvopn og eftirlíkingar af þeim eru skráningar- og leyfisskyldar.Þannig er ekki víst að það þurfi skotvopnaleyfi til að eignast muninn en í það minnsta verður viðkomandi að hafa gripinn skráðan. Endilega hafðu samband við lögregluna þar sem þú býrð og fáðu að ræða við þann sem sér um skotvopnamál.
Ég þarf að sækja um skotvopnaleyfi, eða leyfi til að kaupa skotvopn. Hvar geri ég það
Þegar sækja á um skotvopnaleyfi eða leyfi til að eignast skotvopn er unnt að senda inn rafræna umsókn. Á forsíðu lögreglan.is undir „Tilkynna mál/sækja um leyfi“ er unnt að sjá allar tegundir umsókna, samanber. m.a. eftir flokkun skotvopnaréttinda og öðru.
Sé ætlunin að lána skotvopn er einnig hægt að senda inn rafrænt eyðublað, en það er gert hér:
Hávaði (3)
Það er oft hávaði í húsinu hjá mér. Hvaða viðmið eru til um slíkt?
Upplýsingar um þetta eru t.d. í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, 74. gr., en þar er fjallað um að stjórn húsfélags skuli semja reglur og leggja fyrir húsfund þar sem meðal annars er lagt bann við röskun á svefnfriði í húsinu frá miðnætti til 07:00 að morgni. Undanþágur frá því banni, ef einhverjar eru, skal fara með skv. 74. gr. laganna sem orðast svo:
- gr.
„Stjórn húsfélags skal semja og leggja fyrir húsfund til samþykktar, sbr. 1. tölulið C-liðar 41. gr., reglur um hagnýtingu sameignar og séreignar að því marki sem lög þessi leyfa.“
Skulu reglur þessar, húsreglur, hafa að geyma sem ítarlegust ákvæði um sambýlishætti, umgengni og afnot sameignar og skiptingu afnota ef því er að skipta, allt eftir því sem við á og eðlilegt og haganlegt þykir að reglufesta í viðkomandi húsi.
Í húsreglum fjölbýlishúsa skal m.a. fjalla um neðangreind atriði:
- Umgengni um sameign og um afnot hennar og hagnýtingu.
- Bann við röskun á svefnfriði í húsinu a.m.k. frá miðnætti til kl. 7 að morgni og undanþágur frá því banni.
- Skiptingu afnota sameiginlegs þvottahúss.
- Hvernig þrifum sameignar og umhirðu lóðar skuli háttað og hverjar séu skyldur eigenda í því efni.
- Reglur um hunda- og/eða kattahald sé það leyft, sbr. 13. tölul. A-liðar 41. gr.
- Reglur um afnot sameiginlegra bílastæða.
- Reglur um hagnýtingu séreigna að því marki sem unnt er.
Sjá að öðru leyti lög um fjöleignarhús á heimasíðu Alþingis með því að smella hér.
Hvernig eru reglur um hve snemma má hefja hávaðasöm störf á byggingarreitum?
Um þetta er fjallað í reglugerð um hávaða, en hana má finnan hérna að neðan. Í töflu IV í reglugerðinni er fjallað um háværar og sérstaklega háværar framkvæmdir sem eru unnar nálægt íbúabyggð og gefin upp tímamörk hvað þetta varðar. Sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir eru þær sem fela í sér:
„Vinna sem hefur í för með sér mikinn hávaða svo sem vinna við höggbor, háværa háþrýstidæli, meitlun á bergi eða sprengingar.“
Í reglugerðinni má finna ýmsar tölulegar upplýsingar, tímamörk, hávaðamælingar og margt annað sem miða má við. Almennt virðist miðað við að hávaði megi ekki byrja fyrir en kl. 07:00 á virkum dögum en kl. 10:00 um helgar. Þá kemur einnig fram að sérlega hávaðasamar framkvæmdir megi ekki standa yfir um helgar eða á öðrum frídögum.
Eftirlit með þessari reglugerð er í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga en Umhverfisstofnun fer með yfirstjórn þessara mála.
Í hverfinu mínu er nýbygging en smíðahávaði er langt fram á kvöld og snemma á morgnanna um helgar. Hvað er hægt að gera?
Almennt séð segir í lögreglusamþykktum að virða skuli næturfrið, en sannarlega mætti velta fyrir sér hvort að byggingarvinna eins og þú lýsir falli undir það. Sé þetta að gerast er þér að sjálfsögðu velkomið að láta okkur vita og þá reynum við að skoða málið. Þess ber þó að geta að almennt sinnum við ekki hávaðaútköllum sem berast vegna mála sem eiga sér stað fyrir miðnætti. Að sama skapi fylgist heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga með því hvort að gætt sé að ákvæðum heilbrigðisreglugerða, t.d. hvað varðar byggingarvinnu. Það gæti því einnig verið gott að láta sveitarfélagið vita, en þá er ef til vill hægt að gera aðfinnslur við þetta.
Skemmtistaðir (2)
Mega börn undir 18 ára aldri vinna á skemmtistöðum?
Unglingar undir 18 ára aldri mega vera inni á skemmtistöðum til kl. 22:00 á kvöldin, séu þeir í fylgd með fullorðnum. Þannig geta þeir t.d. verið að vinna við að hreinsa af borðum eða vaska upp en mega auðvitað ekki afgreiða áfengi eða neitt slíkt. Þannig má viðkomandi ekki vera inni á slíkum stað nema að foreldri/forráðamaður sé með á staðnum.
Má fólk á aldrinum 18 – 20 ára vinna á skemmtistöðum?
Já, fólk á aldrinum 18 – 20 ára má vinna á skemmtistöðum en ekki við það að afhenda áfengi. Í áfengislögum kemur fram að yngri en 20 ára megi ekki fá afhent áfengi og í því felst að viðkomandi má í raun ekki handleika áfengið eða selja það.
Stolnir munir (2)
Ég lenti í að munum var stolið frá mér – hefur eitthvað upp á sig á kæra?
Við segjum alltaf við fólk: „Ef þú kærir ekki, kemur ekkert ú túr því.“ Einmitt þess vegna mæli ég alltaf með því að fólk kæri, þó ekki nema til þess að það sé skráð og til séu gögn um að þjófnaðurinn hafi átt sér stað, enda kemur mjög reglulega fyrir að við tökum þekkta einstaklinga í afbrotum með varning sem okkur grunar að sé stolinn, en hefur ekki verið tilkynnt um. Auk þessa fæst ekki greitt úr tryggingum nema að búið sé að leggja fram kæru.
Þú getur því farið á lögreglustöð og lagt fram kæru vegna málsins, en best er að þú sért vel undirbúin/nn, takir með þér öll gögn, myndir af stolnum munum (ef þær eru til) og lista yfir það sem er horfið. Best er að þú farir á lögreglustöðina í því hverfi þar sem brotið átti sér stað, en þú getur sannarlega farið á hverja þeirra sem er.
Ef þú villt leggja fram kæru vegna brots er hægt að panta tíma með því að senda okkur tölvupóst í netfangið: kaerumottaka@lrh.is , með því að hringja í síma 444-1000 eða senda okkur beiðni hér: Ósk um tíma hjá kærumóttöku
Ég sá auglýstan mun á bland.is. Gæti hann verið stolinn?
Gríðarlegt magn af munum eru seldir dagsdaglega gegnum netmiðla, þ.m.t. bland.is, enda eru möguleikar almennings til að selja muni með þessi hætti orðni margfalt meiri en þeir voru fyrir fáeinum árum. Þetta þýðir að lögreglan fær töluvert af tilkynningum um muni til sölu, en mjög erfitt, eða ómögulegt er fyrir lögreglu að meta hvort að um stolna muni sé að ræða.
Almennt er það reynsla okkar að sala notaðra muna er í langflestum tilvikum af eðlilegum orsökum og ekkert óeðlilegt við það. Þannig er mjög erfitt fyrir lögreglu að meta hvort að um þýfis é að ræða, en þess heldur biðjum við fólk um að gæta að sér þegar verið er að kaupa notaða muni og nota brjóstvitið – spyrja t.d. um ástæður sölu, skoða hvort að allir fylgihlutir fylgja með; kassar, bæklingar, snúrur og slíkt. Að sama skapi er gott að velta fyrir sér hvort að verðið sé eðlilegt, en ef eitthvað er of gott til að vera satt, er það oft einmitt þannig.
Fölsun (2)
Hvernig sé ég hvort seðlar séu falsaðir?
Blessunarlega er lítið um fölsun á íslenskum krónum en þó þykir eflaust mörgum fróðlegt að vita til þess að á vef Seðlabankans má finna fróðleik um öryggisatriði í seðlum:
https://www.sedlabanki.is/fjarmalainnvidir/sedlar-og-mynt/sedlar-i-gildi/
Ef grunur leikur á að seðill sé falsaður er mikilvægt að tilkynna það strax til lögreglu, annaðhvort gegnum 112 eða með því að koma á lögreglustöð ef lengra er liðið síðan tekið var á móti fénu.
Besta leiðin til að sjá hvort seðill sé falsaður er að skoða hann vel og finna með fingrunum hvort áferð hans sé eðlileg. Ef ekki er hægt að bera hann að ljósi og skoða betur öryggisatriði, svosem vatnsmerki.