Skotvopn

Ég erfði skotvopn en hef ekki skotvopnaleyfi. Þarf ég að hafa svoleiðis ef ég stunda ekki veiðar?

Reglulega kemur fyrir að fólk sé í þessari aðstöðu. Í daglegu tali er oftast talað um skotvopnaleyfi en í raun er þar um að ræða tvö leyfi, annars vegar skotvopnaréttindi en hins vegar veiðileyfi. Þannig eru ekki margir sem veiða, sem hafa bara skotvopnaréttindi. Þeir aðilar eiga ýmist skotvopn í söfnunartilgangi eða stunda skotíþróttir.

Til þess að eiga skotvopn þarf að vera með skotvopnaleyfi, en þannig getur viðkomandi verið skráður fyrir vopninu og þannig vitað hver ber ábyrgð á því.

Mjög mikilvægt er að skráningar skotvopna séu í lagi enda er mikilvægt að lögreglan hafi nákvæmar skrár um hvar vopn séu og hver beri ábyrgð á þeim, ekki síst sökum þess að ef skotvopni er stolið þarf lögregla að vita af slíku, en mikið kapp er lagt á að endurheimta stolin skotvopn, eðli málsins samkvæmt.

Í tilvikum þar sem um er að ræða dánarbú hefur erfingi eitt ár, frá dánardegi talið, til að ganga frá skráningu skotvopns á þann sem á að bera ábyrgð á því. Við viljum endilega liðsinna í slíkum málum og hvetjum þig til að hafa samband við okkur og fá aðstoð við að ganga frá slíkum málum.

Ég sá skotvopn auglýst til sölu – er slíkt löglegt?

Já, slíkt er heimilt, þ.e. að auglýsa vöru, en kaupandinn þarf eftir sem áður heimild til þess að eiga vopnið sem hann sækir um eftir hefðbundnum leiðum hjá lögreglu. Algengt er að notuð vopn séu auglýst með þessum hætti og gangi kaupum og sölu.

Þegar skotvopn eru seld/keypt þarf kaupandi að sækja um svokallaða kaupaheimild, en til að fá slíka heimild þarf kaupandi að vera með réttindi á viðkomandi skotvopn, en þó nokkuð margir flokkar eru til, en mismunandi erfitt er að fá réttindi á hvert og eitt þeirra. Að kaupaheimild fenginni getur viðkomandi síðan keypt söluvopnið, en þegar gengið er frá slíku undirrita allir aðilar heimildina, henni er þá komið til lögreglustjóra sem sér til þess að skráning vopnsins sé með eðlilegu móti.

Margir gætu þá spurt sig, hvaða hvati er til þess að sannanlega sé gengið frá skráningunni og vopnið skráð á réttan aðila? Hvatinn er sá að lögboðin skylda er á eiganda að varsla vopnsins sé með eðlilegum hætti auk þess sem skotvopn eru dýr varningur. Þannig er bæði hvati fyrir eiganda, að vopnið sé sannanlega skráð eign viðkomandi, en auk þess hvati fyrir seljanda, að vopnið sé ekki lengur á hans ábyrgð.

Ég sá skammbyssu auglýsta til sölu um daginn. Eru strangari reglur með það og/eða er það líka löglegt?

Skammbyssur sæta vissulega strangari reglum en önnur skotvopn og töluvert fáir aðilar fá réttindi til að eiga slík vopn. Hins vegar eru þetta eigur fólks og viðkomandi því frjálst að auglýsa og selja en allt eftir kúnstarinnar reglum auðvitað.

Skammbyssur flokkast nánast í öllum tilfellum til íþróttavopna, og til eru íþróttafélög þar sem fólk stundar skotfimi, hvort sem er þá með loftbyssum, rifflum, haglabyssum nú eða skammbyssum. Allt eru þetta löglegir munir sem er þó mis erfitt að fá heimild til að eignast.

Mig hefur lengi langað að eiga eftirlíkingu af byssu uppi á vegg sem skraut. Eru eftirlíkingar af skotvopnum leyfisskyldar?

Við þessu er einfalt svar. Innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum vopna er bannaður, enda sé ástæða til að ætla að erfitt sé að greina þær frá fyrirmyndinni.

Öll skotvopn og eftirlíkingar af þeim eru skráningar- og leyfisskyldar.Þannig er ekki víst að það þurfi skotvopnaleyfi til að eignast muninn en í það minnsta verður viðkomandi að hafa gripinn skráðan. Endilega hafðu samband við lögregluna þar sem þú býrð og fáðu að ræða við þann sem sér um skotvopnamál.

Ég þarf að sækja um skotvopnaleyfi, eða leyfi til að kaupa skotvopn. Hvar geri ég það

Þegar sækja á um skotvopnaleyfi eða leyfi til að eignast skotvopn er unnt að senda inn rafræna umsókn. Á forsíðu lögreglan.is undir „Tilkynna mál/sækja um leyfi“ er unnt að sjá allar tegundir umsókna, samanber. m.a. eftir flokkun skotvopnaréttinda og öðru.

Sé ætlunin að lána skotvopn er einnig hægt að senda inn rafrænt eyðublað, en það er gert hér:

Tilkynning um lán á skotvopni hér.