Slagsmál unglinga er áhættuhegðun sem lögreglan hefur töluverðar áhyggjur af enda hafa rannsóknir sýnt að ofbeldismenning er útbreidd meðal ungmenna á Íslandi.

Sprottið hafa upp síður á samfélagsmiðlum og lokaðir hópar þar sem birt eru myndbönd af unglingum, jafnvel í grófum slagsmálum á meðan aðrir standa aðgerðarlausir í kring eða hvetja þau til dáða.

Þátttakendur í slagsmálunum eru bæði stelpur og strákar, oftast unglingar á grunnskólaaldri. Í slagsmálunum er algengt að sjá endurtekin högg og spörk í höfuð og búk andstæðingsins sem augljóslega skapar mikla hættu fyrir þann sem fyrir verður.

Því miður eru dæmi þess að líkamsárásir af þessu tagi hafi haft alvarlegar afleiðingar  í för með sér, bæði fyrir þolendur og gerendur.

 

Mikilvægt er að við tökum öll höndum saman um að reyna að koma í veg fyrir slagsmál og árásir af þessu tagi.

 

Við þurfum að snúa við því útbreidda viðhorfi meðal ungmenna að líkamsárásir sem þessar séu eðlileg og jafnvel eftirsóknarverð hegðun. Foreldrar og þeir sem vinna með unglinga þurfa að vera vakandi yfir slíkri hegðun og ræða við ungmennin um þessi mál.

Ræða um þá ábyrgð sem fylgir því að taka þátt í svona atburðum og hættuna sem þeim fylgir. Því fylgir líka ábyrgð að hafa verið á staðnum sem áhorfandi ef eitthvað alvarlegt gerist. Mikilvægt er að brýna fyrir unglingunum að taka alls ekki þátt í slagsmálum, fylgja ekki ofbeldissíðum né horfa á slagsmálamyndbönd á samfélagsmiðlum og að taka ekki upp myndbönd af slagsmálum eða dreifa slíkum myndböndum.

Hvetjum þau til að ganga í burtu ef þau verða vör við eða frétta af slíkum slagsmálum og að þau láti lögreglu vita í 112. Það gæti jafnvel bjargað mannslífi.

Lögregla hefur markvisst verið að skoða ofbeldismyndbönd á netinu undanfarið og mun halda áfram að vakta þessa hegðun.

Ef þú veist um síður/hópa á samfélagsmiðlum þar sem verið er að birta myndbönd af slagsmálum unglinga eða þú hefur slíkt myndband undir höndum hvetjum við þig til að koma upplýsingunum áfram til lögreglu hér: Tilkynning – Ofbeldismyndband ungmenna