Kennslanefnd

Rannsóknarnefnd lögreglu sem hefur það hlutverk að staðfesta kennsl er í daglegu tali kölluð kennslanefnd lögreglu eða kennslanefnd ríkislögreglustjóra.  Skv. 1.gr. reglugerðar Dómsmálaráðuneytisins heyrir nefndin stjórnarfarslega undir embætti ríkislögreglustjóra. Meirihluti lögreglumanna sem skipa nefndina starfa hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu n.t.t. í tæknideildinni. Dómsmálaráðuneytið skipar lögreglumenn og sérfræðinga í nefndina til þriggja ára í senn.

Kennslanefndin er kölluð á vettvang í þeim tilvikum þar sem líkamsleifar finnast hvort sem er á víðavangi, í sjó eða á öðrum stöðum en einnig þegar stórbrunar eða hópslys verða með þeim hætti að lík eða líkamsleifar eru óþekkjanleg án ítarlegri rannsókna. Mikilvægi þess að staðfesta hver það er sem er látin(n) er óumdeilanlegt, bæði fyrir ættingja en einnig fyrir framvindu rannsóknar lögreglu.

Samsetning nefndarinnar gefur innsýn inn í helstu aðferðir við staðfestingu kennsla. Lögreglumenn og sérfræðingar úr greiningardeild, alþjóðadeild og tæknideild eru fulltrúar lögreglu í nefndinni en auk þeirra skipa nefndina réttarmeinafræðingur, meinafræðingar og tannlæknar. Samskipti við lögregluyfirvöld og aðra sérfræðinga erlendis eru einnig mikilvægur þáttur í starfi nefndarinnar en í gildi er sérstakur samstarfssamningur við norsku lögregluna um gagnkvæma aðstoð við stórslys auk þess sem að Interpol getur sent hingað teymi ef eftir því væri leitað.

Kennsl verða einvörðungu örugglega og lögformlega staðfest með sönnunargögnum og samanburði þeirra. Fingraför, DNA samanburður og samanburður tanna og tannlæknaskýrslna eru öruggustu leiðirnar en í undantekningartilfellum verður að styðjast við önnur sérkenni svo sem húðflúr og ummerki eftir læknisaðgerðir svo eitthvað sé nefnt. Öflun upplýsinga og sönnunargagna eru unnin eftir alþjóðlegum stöðlum Interpol því reglulega koma upp mál þar sem reynir á samskipti milli ríkja.

Niðurstöðum rannsókna kennslanefndar er miðlað til viðkomandi lögregluliðs en þau hafa forræði á rannsóknum þeirra mála sem tengjast láti fólks hvort sem þau eru af slysförum eða öðrum orsökum. Lengst er að bíða niðurstaðna úr DNA rannsóknum en íslenska lögreglan er í samstarfi við sænska rannsóknarstofu hvað það varðar. Eins getur það tafið niðurstöður ef þarf að afla annarra samanburðargagna erlendis frá.

Eitt af hlutverkum Kennslanefndar er að halda utan um skrá þar sem upplýsingum um öll þau sem tilkynnt eru horfin er safnað saman. Skráin nær aftur til 1930 og þar eru Íslendingar sem hafa horfið hérlendis sem og erlendis og erlendir ríkisborgarar sem tilkynntir eru horfnir hér. Ættingjum þeirra sem hafa týnst undanfarna áratugi stendur til boða að gefa lífssýni hjá tæknideild lögreglu sem auðveldar til muna vinnu við auðkenningu eldri líkamsleifa sem gætu fundist í framtíðinni. Hægt er að ná sambandi við tæknideildina í gegnum síma 4441000

Tenglar:

Reglugerð um kennslanefnd lögreglu

Lög um dánarvottorð, réttarkrufningar o.fl

Interpol upplýsingasíða