Lögreglan á Austurlandi Stefnumörkun lögreglunnar á Austurlandi árið 2022

1. Inngangur

Frá árinu 2020 hefur lögreglan á Austurlandi birt stefnumörkun til næstu tólf mánaða og byggir á áherslum hennar og verkefnum sem hún telur brýn með hliðsjón af reynslu síðustu ára og stöðu mála í mismunandi málaflokkum.
Lykilmarkmið embættisins er að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa. Stefnan tekur mið af því markmiði. Áhersla lögreglu er að veita góða þjónustu við íbúa í samræmi við hlutverk hennar og reynslu. Þannig stefnir hún að öflugum forvörnum, sýnileika, faglegri rannsóknarvinnu sem og greiningu gagna og notkun þeirra til ákvörðunartöku, auk reglulegrar upplýsingamiðlunar til íbúa.
Stefnt er að áframhaldandi góðri samvinna við íbúa og lykilstofnanir í umdæminu og víðar. Má í því sambandi geta að á tímum kórónaveiru og almannavarna hefur reynt mjög á slíka samvinnu síðastliðin tvö ár eða svo. Hvergi hefur þar borið skugga á og fyrir það þakkað hér.
Tölur úr þolendakönnun embættis Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2021 og viðhorfskönnun félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir sama ár benda til að lögreglan sé á réttri braut.
Með útgáfu og kynningu á stefnumörkuninni er leitast við að styrkja starfsemi lögreglu, gera vinnu hennar og markmið sýnilega íbúum og auka samstarf og skilning þar á milli.
Fylgiskjöl
Helstu tölur lögreglu og niðurstöður ársins 2021 má finna í fylgiskjali 1.
Í fylgiskjölum 2 og 3 eru upplýsingar um umferðarslys og heimilisofbeldismál.

 

2. Markmið

Lögreglan stefnir að því að veita bestu mögulegu þjónustu við íbúa sem völ er á. Það gerir hún með markvissum aðgerðum til fækkunar brota og slysa. Þannig nái hún því lykilmarkmiði að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa og þeirra sem starfa og dvelja í umdæminu.

 

3. Hugmyndafræði

Lögreglan telur að með áherslu á innra starf með viðvarandi umbótavinnu, sem og með

  • áframhaldandi markvissu samstarfi við stofnanir, félagasamtök og íbúa á svæðinu,
  • faglegri tölfræðilegri greiningu á tíðni og umfangi brota og stöðu verkefna með vísan til settra markmiða,
  •  sýnileika,
  • markvissri frumkvæðisvinnu í umferðarmálum og öðru eftirliti sem lögreglu heyrir til og
  • góðri þjálfun og menntun lögreglumanna

megi tryggja gæði löggæslunnar og þjónustu hennar við íbúa og ná þannig þeim markmiðum sem að er stefnt.

 

4. Framtíðarsýn

Að lögreglan á Austurlandi verði ávallt tilbúin að takast á við þau verkefni sem upp kunna að koma af styrk, fagmennsku og innan tímamarka þannig að þjónusta hennar verði hnökralaus og af bestu gæðum

 

5. Stefna / áherslur

5.1. Samvinna og samskipti

Lögregla kappkostar sem fyrr að eiga í góðu sambandi og samvinnu við lykilstofnanir og hagsmunaðila. Þar er átt við stjórnendur sveitarfélaga á svæðinu, félagsþjónustu og barnavernd en einnig slökkvilið í ljósi aðstæðna og nátturvár hvers konar, Landsbjörg og Veðurstofu sem og Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Vegagerð og Rauða krossinn. Þetta verði gert með reglulegum fundum þar sem farið verður yfir samstarf, sameiginlega snertifleti og leitað úrbóta þar sem þeirra er þörf.
Þá mun lögregla freista þess að halda sem fyrr úti virku samstarfi og samtali við íbúa á svæðinu, til að mynda með útgáfu stefnumörkunar sem þessarar og reglulegra upplýsingamiðlunar um stöðu mála á heimasíðu lögreglu, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

5.2. Innra starf

Lögregla stefnir að áframhaldandi góðri og markvissri upplýsingamiðlun til starfsmanna þannig að þeir verði á hverjum tíma vel upplýstir um það sem efst er á baugi bæði innan stofnunar og utan. Hún stefnir og að enn efldri þjálfun og menntun starfsmanna þannig að þeir verði ávallt tilbúnir að takast á við þau verkefni er upp koma. Stefna verði mörkuð er lýtur að þjálfun starfsmanna, að hverju skuli stefnt og hvernig.

Þá er stefnt að aukinni samvinnu deilda og eininga sem miðar að því að styrkja embættið sem eina heild.

Leiðarljós í samskiptum er virðing, trúnaður, kurteisi og heiðarleiki.

5.3. Afbrot og verkefni

Umferðarmál
Stefnt er að því að fækka umferðarslysum með sýnileika lögreglu á völdum stöðum og tímum og með beinum afskiptum. Áhersla verði lögð á að ná niður hraða þar sem þess er þörf en einnig á öryggismál eins og notkun öryggisbelta, notkun snjalltækja við akstur og lögbundna skoðun ökutækja. Þá verði upplýsingar reglulega færðar á heimasíðu lögreglu og á samskiptamiðla um verkefni og áherslur lögreglu í umferðarmálum og ástæður þeirra. Upplýsingar verði og kynntar um hver mánaðamót á heimasíðu lögreglu meðal annars, um fjölda umferðarslysa í hverjum mánuði, hvar þau áttu sér stað og hver tildrög þeirra voru. (Sjá einnig fylgiskjal b, bls. 12, „Þróun umferðarslysa í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi.“)

Fíkniefnamál
Stefnt er að því með áframhaldandi áherslu á fíkniefnabrot, eftirlit, samvinnu og rannsóknir slíkra brota, að leiði með tímanum til fækkunar þeirra sem ánetjast fíkniefnum.
Þá er stefnt að auknu eftirliti með ferjusiglingum í samstarfi við tollgæslu með það markmið að koma í veg fyrir innflutning fíkniefna.

Útlendingamál
Stefnt er að öflugu eftirliti með dvalar- og atvinnuréttindum útlendinga með vinnustaðaeftirliti meðal annars í samræmi við eftirlitsskyldu lögreglu að lögum.

Heimilisofbeldi
Stefnt er að enn auknu samstarfi við sveitarfélögin í tengslum við mál er falla undir heimilisofbeldi. Markmiðið er að leita sameiginlegra leiða við að fyrirbyggja slík brot. Í því felst meðal annars að kynna úrræði til þeirra er fyrir verða og að því standa, til að koma í veg fyrir ítrekun brota. (Sjá einnig fylgiskjal c , bls. 17, „Þróun heimilisofbeldismála í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi.“)

Náttúruvá
Stefnt er að áframhaldandi markvissu reglulegu samstarfi við lykilaðila í almannavörnum sem meðal annars hefur nú þegar skilað sér í breyttu skipulagi almannavarna í umdæminu. Markmiðið er að tryggja að áætlanir séu til staðar í þeim aðstæðum sem upp geta komið og einnig að þeir sem að almannavörnum koma séu með þekkingu og þjálfun sem til þarf í almannavarnaástandi. Þá er stefnt að reglubundnum skipulögðum úttektum á ferðamannastöðum þar sem kannað er og metið hvort og þá hvaða hættur sé þar að finna og sameiginlegra lausna leitað.

6. Markmið/áætlun embættisins fyrir árið 2022

 

7. Eftirfylgni /umbætur

Lögreglan mun kynna megin niðurstöður er varða þróun brota og valinna verkefna sem nefnd eru í kafla sex hér að framan, á heimasíðu lögreglu, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum í byrjun næsta árs.
Lögregla mun og freista þess í ársbyrjun 2023 að hitta samstarfsaðila með það að markmiði að fara yfir og bæta það sem betur má fara og efla það sem vel er gert. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu í febrúar.
Þá mun umbótahópur, sem allir starfandi lögreglumenn á svæðinu heyra til, koma saman eigi síðar en í janúar á næsta ári og rýna stefnumörkunina með það að markmiði að meta hvernig til tókst og ákveða næstu skref.

 

Helstu tölur ársins 2021 bornar saman við markmið/áætlanir sama árs.

Bráðabirgðaniðurstöður ársins 2021 liggja nú fyrir. Þær eru þessar helstar:

1) Þjónusta – öryggi
a) Markmið var sett um að hlutfall þeirra sem telja lögreglu skila góðu starfi verði ekki undir 90%.
i) Niðurstaðan var 94,7%
b) Markmið var sett um að hlutfall þeirra sem telja sig mjög eða frekar örugga í umdæminu verði ekki undir 95%.
i) Niðurstaðan var 98%
c) Markmið var sett um að hlutfall íbúa sem sjá lögreglumann eða lögreglubíl á sínu svæði oftar en einu sinni í viku verði ekki undir 70%.
i) Niðurstaðan var 70,9%

2) Samstarf
a) Stefnt var að markvissu samstarfi við stofnanir á svæðinu og félagasamtök
i) Vegna COVID var samstarf lögreglu við sveitarfélög, HSA og Rauða krossinn afar þétt. Áttatíu og tveir fundir voru haldnir í aðgerðastjórn fjórðungsins vegna COVID. Þá voru tíu fundir í Almannavarnanefnd umdæmisins.
ii) Samstarf við félagsþjónustu og barnavernd umdæmisins er og í samræmi við markmið. Að jafnaði hittast þessir aðilar einu sinni í viku til að fara yfir helstu mál er snúa að börnum og ungmennum með það að markmiði að veita aðstoð þeim sem þurfa.

3) Upplýsingamiðlun til íbúa
a) Stefnt var að virku samstarfi og samtali við íbúa á svæðinu, til að mynda með reglulegri upplýsingamiðlun um stöðu mála á heimasíðu lögreglu, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.
i) Tilkynningar á vef lögreglu, logreglan.is, voru 209 talsins árið 2021. Í flestum tilvikum var um upplýsingar frá aðgerðastjórn að ræða vegna COVID mála en einnig vegna aurskriðna á Seyðisfirði frá í desember 2020. Þá voru og upplýsingar um stefnumörkun embættisins settar á vefinn í febrúarmánuði og afbrotatölfræði ársins birt reglulega eftir það, sem og áhersluatriði lögreglu hverju sinni. Efni er sett var á vef lögreglu fór í öllum tilvikum einnig á samfélagsmiðla lögreglu og til fjölmiðla.

4) Greining og skráning brota og verkefna
a) Hegningarlagabrot
i) Stefnt var að fækkun hegningarlagabrota um um 3% frá árinu 2020.
(1) Hegningarlagabrotum fjölgaði um 11% milli ára. Brotum hefur fjölgað einnig miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Þau eru 100 talsins að meðaltali árin 2016 til 2020 en 117 árið 2021. Flest voru brotin hinsvegar á þessu tímabili árið 2019 eða 129 talsins.
b) Umferðarslys
i) Stefnt var að fækkun umferðarslysa um 3% frá árinu 2020.
(1) Slysum fjölgaði frá síðasta ári um 30%, voru 30 árið 2020 en 39 í ár. Tíðni umferðarslysa er þó á leiðinni niður ef skoðað er meðaltal síðustu fimm ára, frá 2016 til 2020. Hlutfallsleg fækkun er 16%, fer úr 46 slysum að meðaltali í 39.
c) Heimilisofbeldismál
i) Gert var ráð fyrir að skráð heimilisofbeldismál yrðu svipuð að fjölda og þau voru árið 2020, en þá hafði þeim fjölgað talsvert, m.a. sökum nákvæmari skráningu slíkra mála hjá lögreglu.
(1) Skráð brot í tengslum við heimilisofbeldi voru 29 árið 2021 samanborið við 26 frá árinu þar áður. Um lítilsháttar aukningu er því að ræða þó ekki muni miklu. Ágreiningsmálum hinsvegar fækkar.
d) Þróun í fjölda/hlutfall barna og ungmenna sem segjast hafa notað vímugjafa borið saman við sambærilegar tölur síðustu ára
(1) Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarmiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining (R&G) er ekki að finna marktækar breytingar þarna milli ára.

5) Frumkvæðislöggæsla
a) Umferðarlagabrot
i) Gert var ráð fyrir 3% fjölgun skráðra umferðarlagabrota frá árinu 2020 með auknu eftirliti lögreglu.
(1) Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði úr 1372 árið 2020 í 1527 árið 2021 eða um 11%.
b) Fíkniefnabrot
i) Gert var ráð fyrir svipuðum fjölda skráðra fíkniefnabrota og árið 2020.
(a) Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði úr 28 brotum árið 2020 í 35 árið 2021 eða um 25%. Hlutfallsleg fjölgun miðað við meðaltal síðustu fimm ára, frá 2016 til 2020, er 16%, fer úr 30 málum skráðum að meðaltali í 35.

Þróun helstu brota – verkefna

b. Þróun umferðarslysa í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi
Fjöldi umferðarslysa og fjöldi slasaðra í umferð
Umferðarslysum í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi fækkaði talsvert árin 2019 og 2020 en fjölgar árið 2021.
Meðalfjöldi slysa frá árinu 2006 til 2021 er 58 slys, (þar af 108 árið 2007). Þau eru hinsvegar 35 að meðaltali árin 2019 til 2021.

Svipaða þróun á landsvísu er að sjá á tölum Samgöngustofu um fjölda slysa árin 2011 til 2020. (Tölur fyrir allt árið 2021 ekki tiltækar.)

Sambærilegar tölur Samgöngustofu um fjölda slasaðra í umferð á Austurlandi fram til okt. 2021 sýna eftirfarandi:

Myndin hér að ofan sýnir fjölda látinna í umferðarslysum, alvarlega slasaðra og lítið slasaðra. Fjölgun alvarlega slasaðra árið 2021 miðað við þrjú árin þar á undan sérstaklega er áhyggjuefni.

Umferðarslys og umferðarþungi
Áhugavert er að freista þess að skoða og meta fylgni umferðarþunga annarsvegar og umferðarslysa hinsvegar.

Mynd hér að neðan sýnir sömu tölur og á mynd 1 hér að framan um umferðarslys, bláu súlurnar, en til viðbótar er með rauðu línunni sýndur umferðarþungi í umdæminu samkvæmt vísitölu Vegagerðar um meðalumferð á Austurlandi á sama tíma. Hringvegur-2021_netid.pdf (vegagerdin.is)

Á mynd 4 má merkja að umferðarslys hafa verið til muna fleiri hlutfallslega árin 2008 til 2015 miðað við umferðarþunga ef árin 2016 til 2021 eru skoðuð til samanburðar. Umferð árin 2016 til 2021 eykst talsvert án þess að slysum fjölgi í sama hlutfalli. Fylgni er þó sjáanleg milli umferðarþunga og fjölda slysa samanber til dæmis árin 2018 til 2021.

Umferðarhraði
Vegagerð er með þrjá mælingastaði í og við umdæmið þar sem sjá má meðal annars frjálsa meðalhraða umferðar (Umferð sem flæðir án þess að ökutæki fyrir framan hamli för.) Mælingarstaðirnir eru Fagridalur, Lón í Lónsöræfum og Háreksstaðaleið.

Mælingar í júlímánuði árin 2017 til 2021 sýna eftirfarandi niðurstöður:

Af tölum hér að framan má ráða að hraði almennt fari heldur lækkandi frá árinu 2017. Einungis í Lóni er hraðinn svipaður milli ára.

Mynd 9 – Samgöngustofa | Kortsjá | Loftmyndir af Íslandi | Íslandskort | Map of Iceland

Mynd hér að ofan sýnir slysastaði á Austurlandi árin 2018 til 2020. (Gögn ekki komin inn fyrir árið 2021.) Grænu punktarnir sýna minniháttar slys og þeir gulu alvarleg slys.

Mynd 10 – Samgöngustofa | Kortsjá | Loftmyndir af Íslandi | Íslandskort | Map of Iceland

Myndin hér að ofan sýnir hitakort umferðaróhappa og slysa á Austurlandi árin 2018 til 2020. (Gögn ekki komin inn fyrir árið 2021.) Bláu punktarnir sýna umferðaróhapp, grænu punktarnir sýna minniháttar slys og þeir gulu alvarleg slys.

Kortið sýnir vel þéttni óhappa og slysa.

Samantekt – niðurstaða
Svo virðist sem ökuhraði í umdæminu fari heldur lækkandi sbr. tölur hér að framan. Þá má gera að því skóna að ökumenn almennt séu aðgætnari en áður með vísan til þess að slösuðum í umferð hefur farið fækkandi síðustu ár og umferðarslysum ekki fjölgað til samræmis við aukinn umferðarþunga.

Blikur eru þó á lofti með vísan til fjölgunar slysa árið 2021 samanborið við síðustu tvö ár þar á undan.

c. Þróun heimilisofbeldismála í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi

Mynd 1 hér að neðan, súlurnar, sýnir fjölda skráðra mála sem falla undir verkefnaflokkinn heimilisofbeldi. Mál eru skráð sem heimilisofbeldi ef um brot á tilteknum ákvæðum hegningar- eða barnaverndarlaga er að ræða og gerandi og þolandi eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl. Ekki er því í öllum tilvikum um ofbeldisbrot að ræða þrátt fyrir nafn verkefnaflokksins. Skráningum fjölgaði nokkuð árið 2020 og 2021 eftir að skráning þeirra varð nákvæmari. Þau ár tvö teljast því sambærileg.

Ofbeldi er beitt í 50% skráðra heimilisofbeldismála árið 2020 og 62% árið 2021. (Bláa línan.)

Mynd 1.
Á mynd 2 hér að neðan má finna sambærilegar tölur og á mynd 1 varðandi heimilisofbeldismál, borin að heildarfjölda ofbeldisbrota. Árið 2020 er 21 skráð ofbeldisbrot í umdæminu. Þar af eru 13 sem tengjast málsliðnum heimilisofbeldi eða 62%.
Hlutfallið lækkar lítillega árið 2021 þegar 33 ofbeldisbrot eru skráð og 18 þeirra tengjast heimilisofbeldi eða 55%. Vægi heimilisofbeldis í heildarfjölda skráðra ofbeldisbrota í umdæminu er því umtalsvert.

Ef fjöldi mála á Austurlandi er borinn saman við sambærilegar tölur á landsvísu, kemur í ljós að eitt mál er á hverja 369 íbúa á Austurlandi samanborið við 336 fyrir landið allt. Brot eru því hlutfallslega færri hér en á landinu öllu.

Mynd 4 hér að neðan sýnir árásaraðila eftir kyni. Umtalsvert fleiri karlar eru gerendur sbr. þessar tölur.

Mynd 5 sýnir árásarþola eftir kyni. Þannig má sjá að árið 2021 eru rétt um 67% þolenda konur og 33% karlar.

Samantekt – niðurstaða
Mál skráð sem heimilisofbeldi fjölgar lítillega milli áranna 2020 og 2021. Ríflega helmingur skráðra ofbeldisbrota á Austurlandi eru skráð sem heimilisofbeldi og gerandi og þolandi því skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl.
Í ljósi eðlis og alvarleika þessara mála er ljóst að til mikils er að vinna að fækka þeim og að endingu koma í veg fyrir þau. Það er verkefni okkar allra sem samfélags að leggja þar hönd á plóg.

Tilkynna brot

Smelltu hér til að tilkynna brot
eða sækja um leyfi.
Nánar

112 Neyðarnúmer

Þarft þú aðstoð lögreglu – hringdu þá í 112
112

Hafðu samband

Ef erindið er ekki brýnt sendu okkur tölvupóst í gegnum formið eða hringja í síma 444 0600 Lögreglan minnir einnig á fíkniefnasímann 800 5005.

Tilkynna brot

Hér er hægt að tilkynna brot rafrænt

Áfram

Leyfi

Hér er hægt að sækja um leyfi rafrænt

Áfram

Kærumóttaka

Óska eftir tíma í kærumóttöku

Ósk um tíma

Lögreglan á Austurlandi Á Facebook

Comments Box SVG iconsUsed for the like, share, comment, and reaction icons

Á bloggsíðu Veðurstofu frá í dag um veðurhorfur á Austurlandi og mat á aðstæðum á Seyðisfirði, kemur fram að úrkoma síðasta sólarhring var ekki nema 7-8 mm samkvæmt úrkomumælum í Seyðisfirði.
„Almennt hafa hreyfingarnar ekki verið miklar, mest tæpir 10 cm í Búðarhrygg frá því í byrjun nóvember, og ekki gefið tilefni til aðgerða. Utan hryggjarins hefur hreyfing verið mun minni og hefur dregið úr henni í nótt frá því sem verið hefur síðustu daga.
Rigning verður fyrir austan í dag. Veðurspá gerir ráð fyrir um 20 mm á Seyðisfirði í úrkomunni fram á kvöld. Þurrt verður á mánudag og þriðjudag.
Vatnshæð hefur lækkað í öllum borholum síðan á föstudag nema einni.
Vinna í lækjum og skriðufarvegum eða umferð fólks við farvegi eða á göngustígum meðfram skriðufarvegum er ekki æskileg. Þetta á sérstaklega við um Búðará þar sem hryggurinn innan við upptök skriðunnar frá 2020 er á hreyfingu og yfirborðsjarðlög kunna að vera óstöðug og smáspýjur gætu fallið.“
Sjá og hér; blog.vedur.is/ofanflod/2022/11/27/seydisfjordur-27-11-2022/
... Sjá meiraSjá minna

Fleiri færslur

LÖGREGLAN Á Instagram