Lögreglan á Austurlandi Stefnumörkun lögreglunnar á Austurlandi árið 2023

Inngangur
Frá árinu 2020 hefur lögreglan á Austurlandi birt stefnumörkun til næstu tólf mánaða. Hún hefur byggt hana á reynslu fyrri ára og miðað við sett markmið og áherslur. Stefnan hefur verið kynnt opinberlega þannig að störf hennar, áherslur og markmið hverju sinni verði sýnileg íbúum.

Lykilmarkmið embættisins er að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa með því að veita framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum í samræmi við hlutverk það sem henni er falið að lögum. Stefnan miðar að þessu markmiði.

Þannig stefnir lögregla sem fyrr að öflugum forvörnum í samstarfi við hagsmunaaðila, sýnileika, faglegri og skilvirkri rannsóknarvinnu, markvissri gagnagreiningu til notkunar við ákvörðunartöku og að reglulegri upplýsingamiðlun til íbúa.

Lögregla hefur átt gott samstarf við sveitarfélög á svæðinu og barnavernd. Hún mun gera sitt til að treysta þá samvinnu og freista þess að auka enn samstarf við aðra hagsmunaaðila eins og stjórnendur skóla í umdæminu, nemendur þeirra og kennara. Hún stefnir og að auknu samtali við félagasamtök, atvinnulíf og ekki síst íbúa, með þá hugmyndafræði að leiðarljósi að samvinna og samstarf sé best til þess fallið að gera gott samfélag enn betra.

Vekur lögregla í því sambandi athygli á að afbrotavarnir eru samfélagslegt viðfangsefni þar sem allir hafa hlutverk og bera ábyrgð.

Það þarf þorp til að ala upp barn! Hjálpumst að við það verkefni.

 

Helstu tölur ársins 2022 miðað við markmið sama árs
Stefnt var að því að hegningarlagabrot yrðu ekki fleiri en þau voru að meðaltali árin 2018 til 2021 eða 113 brot. Skráð brot voru 97 talsins árið 2022 sem er 14% fækkun.

Gert var ráð fyrir að umferðarlagabrot yrðu svipuð að fjölda og þau voru að meðaltali árin 2018 til 2021 eða 1403. Þau voru skráð 1485 árið 2022 sem er 6% fjölgun.

Stefnt var að fækkun umferðarslysa miðað við meðaltal áranna 2018 til 2021, eða 41 slys. Skráð slys voru 43 árið 2022 sem er 5% fjölgun.

Meðalumferðarþungi á Austurlandi, samkvæmt vísitölu Vegagerðar, var 147,75 árin 2018 til 2021. Vísitalan er 165,6 árið 2022, sem sýnir 12% aukningu umferðar.

Gert var ráð fyrir svipuðum fjölda skráðra fíkniefnabrota og þau voru að meðaltali árin 2018 til 2021, eða 34 talsins. Þau voru skráð 35 árið 2022.

Stefnt var að því að skráð heimilisofbeldismál yrðu ekki fleiri en þau voru árið 2021, eða 29 talsins. Þau voru 19 árið 2022 sem er 32% fækkun.

Fylgiskjöl
Helstu tölur aðrar og niðurstöður ársins 2022, bornar að markmiðum sama árs, má finna í fylgiskjali.

 

Markmið
Lögreglan stefnir að því að veita bestu þjónustu við íbúa sem völ er á. Það gerir hún með markvissum aðgerðum til fækkunar brota og slysa, meðal annars í samstarfi við hagsmunaaðila.

Þannig nái hún því lykilmarkmiði að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa og þeirra sem starfa og dvelja í umdæminu.

 

Hugmyndafræði
Lögreglan telur að með áherslu á innra starf og viðvarandi umbótavinnu, sem og með

áframhaldandi þróun á samstarfi við stofnanir, félagasamtök, atvinnulíf og íbúa á svæðinu,

faglegri tölfræðilegri greiningu á tíðni og þróun tiltekinna brota og verkefna sem gefa góða vísbendingu um stöðu mála almennt og ekki síst markvissra viðbragða í tíma ef markmið eru ekki að nást,

sýnileika hvar sem honum verður við komið, svo sem í íbúðahverfum og út á vegum og á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum,

markvissri forvarnarvinnu í samvinnu við skóla í umdæminu í samræmi við nýja forvarnarstefnu embættisins, (sjá fylgiskjal),

markvissri frumkvæðisvinnu í umferðarmálum og öðru eftirliti sem lögreglu heyrir til og

góðri þjálfun og menntun lögreglumanna

megi tryggja gæði löggæslunnar og þjónustu hennar við íbúa og ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

 

Framtíðarsýn
Að lögreglan á Austurlandi verði ávallt tilbúin að takast á við verkefni sín af styrk, fagmennsku og innan tímamarka. Þannig verði starfsemi hennar hnökralaus og af bestu gæðum.

 

Stefna / áherslur
Samvinna og samskipti
Lögregla lítur svo á að samvinna við hagsmunaaðila sé lykilþáttur í að ná markmiðum um öryggi íbúa og öryggistilfinningu. Hún stefnir því að áframhaldandi góðu samstarfi við stjórnendur sveitarfélaga, félagsþjónustu og barnavernd. Aðrar einingar og stofnanir sem teljast til lykilsamstarfsaðila embættisins og skipta miklu þegar kemur að samvinnu við oft erfiðar aðstæður, eru slökkviliðin, Landsbjörg og Veðurstofa, Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Vegagerð og Rauði krossinn. Þá er samstarf við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að aukast með hverju árinu.

Leitast verði við að tryggja gott samstarf með því að aðilar hittist reglulega, fari yfir sameiginlega snertifleti og leiti úrbóta þar sem þeirra er þörf.

Lögregla mun leggja aukna áherslu á samvinnu og samtal við stjórnendur í skólum umdæmisins, nemendur þeirra og kennara, með það að markmiði að efla það sem vel er gert og bæta annað. Að sama skapi stefnir lögregla að auknu samtali við atvinnulífið, sér í lagi þau stóru fyrirtæki og stofnanir sem hér starfa. Markmiðið er að auka skilning á verkefnum hvers annars, þeim áskorunum sem við er að etja og leita úrbóta þar sem leiðir skarast og þeirra er þörf.

Þá verði áhersla lögð á virkt samstarf og samtal við íbúa á svæðinu, með reglulegri upplýsingamiðlun um stöðu mála á heimasíðu lögreglu, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, en ekki síður með því að gefa kost á beinu samtali hvar sem því verður við komið, svo sem á fundum félaga- og íbúasamtaka.

 

Innra starf
Lögregla stefnir að áframhaldandi góðri og markvissri upplýsingamiðlun til starfsmanna, að þeir verði á hverjum tíma vel upplýstir um það sem efst er á baugi bæði innan stofnunar og utan. Hún stefnir og að enn efldri þjálfun og menntun starfsmanna þannig að embættið verði ávallt tilbúið að takast á við þau verkefni er upp koma. Þjálfunarstefna var mörkuð í þessu skyni á síðasta ári og mun henni fylgt.

Unnið hefur verið að aukinni samvinnu deilda og eininga sem miðar að því að styrkja embættið sem eina heild. Með það markmið að leiðarljósi hafa starfsmenn hist reglulega til að meta starfið sem unnið er, verklag til að mynda, áherslur og markmið, og freistað þess að rétta af kúrsinn þar sem þess er þörf. Stefnt er að enn frekari eflingu þessa þar sem starfsmenn sjálfir setja sameiginlega áherslur hverju sinni, byggðar á þeim verkefnum sem við er að etja og markmiðum embættisins. Slíkar áherslur verði og kynntar innanhúss og til íbúa. Þannig er stefnt að því að bæði áherslur og verkefni lögreglu verði markvissari en áður, gæði þjónustunnar meiri og þróun í starfseminni hraðari.

Rannsóknardeild embættisins hefur gegnum tíðina tekist á við stór, alvarleg og viðamikil mál, svo sem fíkniefnabrot og ofbeldis- og kynferðisbrot. Málastaðan hefur verið í jafnvægi og kappkostað að tímamörk ríkissaksóknara í alvarlegri málum haldi. Unnið verður að því að efla rannsóknir enn frekar, m.a. með því að færa ábyrgð til fleiri starfsmanna undir stjórn rannsóknardeildar og útvíkka þannig þekkingu, reynslu og hæfni innan embættisins.

Leiðarljós í samskiptum er virðing, trúnaður, kurteisi og heiðarleiki.

 

Afbrot og verkefni
Umferðarmál
Umferðarslysum hefur fækkað hlutfallslega í umdæminu miðað við umferðarþunga. Áherslur lögreglu í umferðarmálum munu því svipaðar og áður. Markvisst verði stefnt að því að ná niður hraða og auka aðgæslu ökumanna, meðal annars með upplýsingamiðlun til íbúa um áherslur hverju sinni og upplýsingum um slysastaði og orsakir slysa.

Lögregla stefnir og að sýnileika á völdum stöðum og tímum og að beinum afskiptum þar sem þeirra er þörf.

Stefnt er að auknu samstarfi við veghaldara, sveitarfélög og Vegagerð, með það að markmiði að leita uppi svartbletti vegakerfisins og freista þess að finna lausnir.

Fíkniefnamál
Áhersla mun á eftirlit með fíkniefnamisferli hverskonar, vörslu efna, neyslu og ekki síst sölu og innflutning. Í því felst m.a. að hratt sé brugðist við ábendingum um brot og að rannsóknir þeirra tefjist hvergi.

Stefnt er að áframhaldandi öflugu eftirliti með landamærum í samstarfi við tollgæslu, og mögulegum innflutningi efna, hvort heldur með flugi eða frá sjó.

Útlendingamál
Stefnt er að öflugu eftirliti með dvalar- og atvinnuréttindum útlendinga. Virku vinnustaðaeftirliti verður meðal annars haldið úti í samræmi við eftirlitsskyldu lögreglu að lögum.

Heimilisofbeldi
Samstarf við barnavernd og félagsþjónustu sveitarfélaga hefur verið öflugt og í samræmi við verklag ríkislögreglustjóra í málaflokknum. Áfram verður haldið á þeirri braut með það að markmiði ekki síst að koma í veg fyrir ítrekaða árekstra milli skyldra og tengdra. Í því felst meðal annars að kynna úrræði til þeirra er fyrir verða og að standa.

Landamæraeftirlit
Landamæraeftirlit hefur verið stækkandi þáttur í starfseminni eftir því sem ferðamannaiðnaðurinn eflist; farþegaskipum sem hingað koma fjölgar og þau stækka. Millilandaflug er og að aukast. Á sama tíma eru alþjóðlegar kröfur til lögreglu um eftirlit með landamærum að verða meiri. Starfsemin verður þar með sérhæfðari og búnaður flóknari. Hvorutveggja kallar á aukna þjálfun lögreglumanna og fjölgun. Stefnt er að hvorutveggja.

Náttúruvá
Áframhaldandi markvissu reglulegu samstarfi verður fram haldið við lykilaðila í almannavörnum, hvort heldur hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eða innan umdæmis. Þar hafa unnið þétt saman fulltrúar sveitarfélaganna fjögurra, Landsbjargar, Rauða krossins, slökkviliðanna, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Vegagerðar.

Markmiðið er að tryggja snurðulausa framkvæmd aðgerða þegar náttúruvá ber að höndum eða hún yfirvofandi. Haldnar verði reglulegar æfingar, markvissar greiningar gerðar á ástandi og horfum og viðbragðsáætlanir ritaðar. Nýjar áhættur er að líta dagsins ljós er tengjast meðal annars auknum fjölda ferðamanna í fjórðungnum og eins aukinni hættu á gróðureldum í sumarhúsabyggðum svo dæmi séu tekin. Við hvorutveggja þarf að bregðast.

Utanvegaakstur
Lögregla sinnir reglubundnu hálendiseftirliti og verður þá víða vör við utanvegaakstur. Hún vill leggja sitt af mörkum til að stemma þar stigu og mun leita aukins samstarfs við hagsmunaaðila eins og sveitarfélög og aðra landeigendur, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð, Landgræðslu og fleiri með það að markmiði að stilla strengi og leita sameiginlegra lausna.

 

Markmið/áætlun embættisins fyrir árið 2023

Þjónusta – öryggi  Mæling
Lögregla stefnir að því að veita þeim sem búa, starfa og dvelja í umdæminu bestu mögulegu þjónustu í samræmi við hlutverk hennar og áherslur.

Þannig setur hún markmið um að hlutfall þeirra sem telja lögreglu skila góðu starfi verði ekki undir 90%.

Viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til þjónustu og starfa lögreglu  / Ríkislögreglustjórinn
Lögregla stefnir að því með störfum sínum að tryggja öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa starfa og dvelja í umdæminu.

Þannig setur hún markmið um að hlutfall þeirra sem telja sig mjög eða frekar örugga í umdæminu verði ekki undir 95%.

 

Þolendakönnun lögreglu (Reynsla landsmanna af afbrotum og öryggistilfinning íbúa /Ríkislögreglustjórinn.)

 

 

Samstarf  Mæling
Stefnt er að áframhaldandi samstarfi við stofnanir á svæðinu, félagasamtök og fl.  (Stjórnendur sveitarfélaga á svæðinu, félagsþjónustu og barnavernd en einnig slökkvilið í ljósi aðstæðna og náttúruvár hvers konar, Landsbjörg og Veðurstofu, Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Vegagerð, Rauða krossinn og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.) Metið meðal samstarfsaðila í lok árs hvernig til  hefur tekist. Greinargerð rituð í kjölfarið um það hvað gekk vel og hvað megi bæta.

 

Greining og skráning brota og verkefna  Mæling
Fylgst verði með tegund og tíðni hegningarlagabrota eins og auðgunarbrota, eignaspjalla og ofbeldisbrota (Stefnt að því að hegningarlagabrot verði ekki fleiri en þau voru að meðaltali árin 2018 til 2022. Meðaltalið er 109 brot.) Lögreglukerfið LÖKE
Fylgst verði með þróun skráðra umferðarslysa. (Stefnt að því að umferðarslysum fækki miðað við meðaltal áranna 2018 til 2022. Meðaltalið er 41 slys.) Lögreglukerfið LÖKE
Fylgst verði með þróun skráðra heimilisofbeldismála, en vonast er til, með markvissri vinnu við að koma í veg fyrir ítrekuð brot, að skráð mál verði ekki fleiri en að meðaltali árin 2020 til 2022, eða 24 talsins. Lögreglukerfið LÖKE
Fylgst verði með þróun í fjölda/hlutfalli barna og ungmenna sem segjast hafa notað vímugjafa borið saman við sambærilegar tölur síðustu ára. Markmiðið er að þar verði ekki um fjölgun að ræða. Rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining (R&G)

 

Sýnileg löggæsla  Mæling
Að tryggja sýnileika lögreglu og nálægð við íbúa með auknu eftirliti almennt, sérstaklega við skóla og á fjölförnum vegum og vegarköflum þar sem slys hafa verið tíð. Markmiðið er að slíku eftirliti verði sinnt og það skráð eigi sjaldnar en sem nemur skráningu að meðaltali á árunum 2020 og 2021, eða 363 skráningar. Skráning í LÖKE, „sýnilegt eftirlit“
Reglulegar upplýsingar um áherslur lögreglu hverju sinni og þróun brota og verkefna skráðar reglulega á vefmiðla lögreglu, eigi sjaldnar en á fjögurra mánaða fresti. (Heimasíða og samfélagsmiðlar.) Fjöldi skráninga lögreglu á netmiðla í tengslum við þetta verkefni
Að hlutfall íbúa sem sjá lögreglumann eða lögreglubíl á sínu svæði oftar en einu sinni í viku samkvæmt viðhorfskönnun  verði ekki undir 70% Viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til þjónustu og starfa lögreglu

 

Frumkvæðislöggæsla  Mæling
Gert ráð fyrir að skráð umferðarlagabrot verði svipuð að fjölda og þau voru að meðaltali á árunum 2018 til 2022, eða 1422 brot. Lögreglukerfið LÖKE
Gert ráð fyrir svipuðum fjölda fíkniefnabrota og þau voru að meðaltali árin 2018 til 2022, eða 35. Lögreglukerfið LÖKE
Skilvirkt eftirlit með dvalar- og atvinnuréttindum útlendinga. Stefnt að því að eftirlitsferðir lögreglu í þessu sambandi verði ekki færri en ein að jafnaði á mánuði eða 12 á árinu. Lögreglukerfið LÖKE

 

Eftirfylgni /umbætur
Lögreglan mun kynna megin niðurstöður er varða þróun brota og valinna verkefna sem nefnd eru í kafla sex hér að framan, á heimasíðu lögreglu, samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum í byrjun næsta árs.

Lögregla mun og freista þess í ársbyrjun 2024 að hitta samstarfsaðila með það að markmiði að fara yfir og bæta það sem betur má fara og efla það sem vel er gert. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu í febrúar.

Þá mun umbótahópur, sem allir starfandi lögreglumenn á svæðinu heyra til, koma saman eigi síðar en í janúar á næsta ári og rýna stefnumörkunina. Markmiðið er að meta hvernig til tókst og ákveða næstu skref.

 

Fylgiskjöl
Helstu tölur ársins 2022 bornar saman við markmið/áætlanir sem settar voru í byrjun árs 2022.

Þjónusta – öryggi

Markmið var sett um að hlutfall þeirra sem telja lögreglu skila góðu starfi verði ekki undir 90%. Niðurstaðan var 92,3%

Markmið var sett um að hlutfall þeirra sem telja sig mjög eða frekar örugga í umdæminu verði ekki undir 95%. Niðurstaðan var 96,6

Markmið var sett um að hlutfall íbúa sem sjá lögreglumann eða lögreglubíl á sínu svæði oftar en einu sinni í viku verði ekki undir 70%. Niðurstaðan var 71%

Samstarf

Stefnt var að markvissu samstarfi við stofnanir á svæðinu og félagasamtök

Vegna COVID fyrri hluta ársins var samstarf lögreglu við sveitarfélög, HSA og Rauða krossinn afar þétt sem fyrr. Tuttugu og fimm fundir voru haldnir í aðgerðastjórn fjórðungsins vegna COVID, sá síðasti 7. Júní. Þá voru ellefu fundir í Almannavarnanefnd umdæmisins.

Samstarf við félagsþjónustu og barnavernd var í samræmi við markmið. Að jafnaði hittast þessir aðilar einu sinni í viku til að fara yfir mál er snúa að börnum og ungmennum, með það að markmiði að veita aðstoð þeim sem þurfa.

Upplýsingamiðlun til íbúa

Stefnt var að virku samstarfi og samtali við íbúa á svæðinu, til að mynda með reglulegri upplýsingamiðlun um stöðu mála á heimasíðu lögreglu, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

Tilkynningar á vef lögreglu, logreglan.is, voru 48 talsins árið 2022. Í flestum tilvikum var um upplýsingar frá aðgerðastjórn að ræða vegna COVID mála en einnig upplýsingar um fjölda umferðarslysa á tilteknum tíma, vettvang þeirra og ástæður óhapps. Mun fleiri tilkynningar fóru á samfélagsmiðla og stefnt að því að auka þann þátt á árinu 2023 og útvíkka.

Greining og skráning brota og verkefna

Hegningarlagabrot

Stefnt að því að hegningarlagabrot yrðu ekki fleiri en þau voru að meðaltali árin 2018 til 2021 eða 113 brot. Niðurstaðan var 97 brot.

UmferðarslysStefnt að því að umferðarslysum fækki miðað við meðaltal áranna 2018 til 2021. Meðaltalið var 41 slys. Niðurstaðan var 43 slys á árinu.

Heimilisofbeldismál

Stefnt var að því að með markvissri vinnu við að koma í veg fyrir ítrekuð brot, muni skráðum heimilisofbeldismálum fækka frá því sem þau voru árið 2021, en þá voru þau 29 talsins. Niðurstaðan var 19 skráð mál.

Þróun í fjölda/hlutfall barna og ungmenna sem segjast hafa notað vímugjafa borið saman við sambærilegar tölur síðustu ára

Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarmiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining (R&G) er að mati sveitarfélaganna ekki að finna marktækar breytingar þarna milli ára.

Frumkvæðislöggæsla

Umferðarlagabrot

Gert var ráð fyrir að skráð umferðarlagabrot myndu svipuð að fjölda og þau voru að meðaltali á árunum 2018 til 2021 eða 1403 brot. Niðurstaða var 1485 brot.

Fíkniefnabrot

Gert var ráð fyrir svipuðum fjölda fíkniefnabrota og þau voru að meðaltali árin 2018 til 2021 eða 35 til 40 brot. Niðurstaðan var 35 brot.

 

Sjá og hér, – Stefnumörkun lögreglunnar á Austurlandi árið 2023 | Lögreglan (logreglan.is)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tilkynna brot

Smelltu hér til að tilkynna brot
eða sækja um leyfi.
Nánar

112 Neyðarnúmer

Þarft þú aðstoð lögreglu – hringdu þá í 112
112

Hafðu samband

Ef erindið er ekki brýnt sendu okkur tölvupóst í gegnum formið eða hringja í síma 444 0600 Lögreglan minnir einnig á fíkniefnasímann 800 5005.

Tilkynna brot

Hér er hægt að tilkynna brot rafrænt

Áfram

Leyfi

Hér er hægt að sækja um leyfi rafrænt

Áfram

Kærumóttaka

Óska eftir tíma í kærumóttöku

Ósk um tíma

Lögreglan á Austurlandi Á Facebook

Comments Box SVG iconsUsed for the like, share, comment, and reaction icons
6 dögum síðan

Hvítasunnuhelgin gekk vel og var almennt tíðindalaus. Skráð umferðarlagabrot voru þó fjörutíu talsins frá því á föstudag, þar af tuttugu og sex vegna hraðaksturs. Nokkuð var og um ólöglega lagningu ökutækja.

Lögregla hvetur að þessu sögðu ökumenn til að fara varlega í umferðinni, fylgja í hvívetna þeim reglum er um hana gilda og stuðla þannig að auknu öryggi okkar vegfarenda allra.

Veðrið leikur við okkur Austfirðinga næstu daga, hiti og sól í kortunum. Lögregla vekur því sérstaka athygli þeirra er ekki hafa tekið bíla sína af nagladekkjum, að gera það hið fyrsta svo ekki komi til afskipta.
... Sjá meiraSjá minna

Comment on Facebook

Það þarf líka að kveikja ljósin þó komið sé sumar. Ekki er nóg að hafa ljósin bara stillt á auto því þá eru engin ljós að aftan.

Fagridalur er nú lokaður vegna veðurs. Umferðaróhapp varð þar í morgun er bifreið fauk á hliðina. Þrír voru um borð en allir óslasaðir. Tilkynningar hafa borist um lausamuni að fjúka og þakplötur að losna. Ekkert ferðaveður á austfjörðum núna, Vegurinn um Vatnsskarð eystra einnig lokaður og lokað milli Djúpavogs og Hafnar.

Bíðum þar til veðri slotar.
... Sjá meiraSjá minna

Fleiri færslur

LÖGREGLAN Á Instagram