Europol

Árið 2001 fékk Ísland aðild að Evrópulögreglunni (Europol) sem aðgerðaraðili (e. Operational Third Party). Alþjóðadeild rekur landaskrifstofu Europol á Íslandi (e. European National Unit) sem starfar í nánu samstarfi við íslenskan tengslafulltrúa í höfuðstöðvum Europol í Haag í Hollandi.

Europol rekur öruggt samskiptakerfi sem alþjóðadeild og valdir tengiliðir innan lögreglu hafa beinan aðgang að. Europol veitir aðildarríkjum sínum jafnframt aðgang að margvíslegum gagnagrunnum og þjónustu. Í dag tekur Ísland virkan þátt í ýmsum samstarfshópum og verkefnum Europol.

Vefsíða Europol

Samningur um aðild Íslands að Europol, undirritaður 2001

INTERPOL

Ísland gerðist aðili að INTERPOL þann 6. september 1971 og hefur fulla aðild að stofnuninni. Alþjóðadeild rekur landaskrifstofu INTERPOL á Íslandi (e. National Central Bureau).

INTERPOL rekur öruggt samskipta- og upplýsingakerfi fyrir alþjóðlegt lögreglusamstarf, sem alþjóðadeild nýtir daglega til afgreiðslu tuga erinda og fyrirspurna. INTERPOL veitir aðildarríkjum sínum jafnframt aðgang að margvíslegum gagnagrunnum og sérþekkingu á sviði lögreglu og alþjóðlegrar brotastarfsemi.

 Vefsíða INTERPOL

 Ísland á vefsíðu INTERPOL

Politi og Toll i Norden (PTN)

Politi og Toll i Norden (PTN) er samstarf lögreglu- og tollyfirvalda á Norðurlöndum. Upphafið má rekja til fundar norrænna dómsmálaráðherra árið 1982, og var markmiðið fyrst og fremst að mæta aukinni fíkniefnabrotastarfsemi á Norðurlöndum. Samstarfinu var komið á formlegan grundvöll árið 1984.

Árið 1998 var starfsemi PTN endurmetið og ábyrgðarsvið þess stækkað í skipulagða- og millilandabrotastarfsemi af öllum toga. Samstarfið byggist m.a. á svonefndu sambandsmannakerfi sem felst í því að Norðurlöndin hafa sent út sambandsmenn frá lögreglu eða tollgæslu til ýmissa landa. Sambandsmennirnir vinna fyrir öll Norðurlöndin og miðla upplýsingum um brotastarfsemi að beiðni þeirra.

Skýrslur sem sambandsmenn vinna um brotastarfsemi í gestalandi, ásamt skýrslum frá svæðisfundum og mánaðarlegar skýrslur sambandsmanna, verða síðan að grundvelli skýrslu þar sem mat er lagt á skipulagða glæpastarfsemi á Norðurlöndum (Nordic Organised Crime Threat Assessment, NOCTA) sem PTN gefur út.

Alþjóðadeild ríkislögreglustjórans hefur það hlutverk að vera í samskiptum við PTN-sambandsmennina. Lögreglan hefur oft nýtt sér sambandsmenn PTN með góðum árangri.

Schengen

Schengen er landamærasamstarf tiltekinna Evrópuríkja og varðar fyrst og fremst niðurfellingu eftirlits á innri landamærum aðildarríkjanna, samstarf um landamæraeftirlit með umferð um ytri landamæri svæðisins og lögreglusamstarf innan svæðisins.

Ísland gekk formlega í samstarfið 25. mars 2001. Með tilkomu Schengen var persónubundið landmæraeftirlit innan ytri landamæra aðildarríkjana afnumið.  Til að tryggja öryggi innan Schengen-svæðisins og til að ná markmiði Schengen-samstarfsins um að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi eru upphafðar ýmislegar mótvægisaðgerðir, t.a.m. öflugri landamæravarsla á ytri landamærum, samvinna um vegabréf og vegabréfsáritanir og sameiginlegur rekstur samskipta- og upplýsingakerfa um óæskilega útlendinga, eftirlýsta einstaklinga, eftirlýst ökutæki o.fl.

Alþjóðadeild rekur svokallaða SIRENE-skrifstofu fyrir Ísland (e. Supplementary Information Request on National Entry) og fer með skráningar- og uppflettiaðgang í fyrrnefnd kerfi Schengen. Lögreglumenn og landamæraverðir hafa jafnframt uppflettiaðgang í upplýsingakerfum Schengen.

Vefsvæði IRR um málefni Schengen