Þetta er góð spurning en svarið við henni er ekki einfalt.

Skilgreiningum á léttu bifhjóli og reiðhjóli er breytt þannig að nú er léttum bifhjólum skipt í tvo flokka, I og II. Í flokki léttra bifhjóla I eru bifhjól sem ná ekki meiri hraða en 25 km á klst hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin og er þá miðað við hámarkshraða sem tilgreindur er af framleiðanda bifhjólsins. Í umferðarlögin hefur verið bætt við, í skilgreiningu á léttu bifhjóli, að sé það rafdrifið skuli það ekki vera yfir 4 kW að afli. Sé hjólið með stig- eða sveifarbúnað sem þarf að stíga og er búið rafdrifnum hjálparmótor fellur það ekki undir skilgreiningu léttra bifhjóla í flokki I heldur telst vera reiðhjól og, hér að neðan, sjá má nánari umfjöllun um þær reglur sem nú gilda um slík hjól.

 

13 ára lágmarksaldur á léttu bifhjóli í flokki I Eins og áður segir voru þessi hjól sem nú eru skilgreind sem létt bifhjól í flokki 1 skilgreind sem reiðhjól og því voru engin aldursmörk fyrir stjórnendur slíkra hjóla. Nú er hinsvegar búið að setja skilyrði um lágmarksaldur og miðast hann við 13 ár. Líkt og gildir um reiðhjól er ekki gerð krafa um ökunám og ökuréttindi né heldur sérstakt próf varðandi akstur léttra bifhjóla í flokki I. Hjól í þessum flokki eru hinsvegar undanþegin vátryggingarskyldu en rétt er að hvetja eigendur til að huga vel að tryggingarmálum og leita ráða hjá tryggingarfélögum varðandi ábyrgðatryggingar.

 

Öfugt við önnur reiðhjól var sérstakt ákvæði sem bannaði að þessum hjólum væri ekið á akbraut og mátti eingöngu aka þeim á gangstígum. Sú nýjung er tekin upp að heimila akstur á léttum bifhjólum í flokki I á akbrautum óháð hámarkshraða á vegi og heimilt er eftir sem áður að vera á gangstétt, hjólastígum og gangstígum. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á hjólastígnum. Ef léttu bifhjóli í flokki I er ekið af gangstétt út á akbraut og hún þveruð skal aka á gönguhraða. Lítil rafdrifin hjól s.s. Segway-hjólin, rafdrifin hlaupahjól og hjólastóll sem er ekki hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst eru áfram skilgreind sem reiðhjól og mega eftir sem áður ekki vera á akbraut.

Posted in: Umferðarmál