Lögreglan kemur sér fyrir á þeim stað sem hún telur heppilegan til að framfylgja umferðarlögum og í umferðarlögum er að finna sérstaka grein sem leyfir lögreglu að leggja ökutækjum sínum þar sem aðrir mega ekki leggja, t.d. undir brú.

Lögreglan er undanþegin því að fara eftir ákveðnum ákvæðum umferðarlaga við störf sín, en alltaf þarf að gæta þess að öryggi sé ekki stefnt í voða með aðgerðinni.

Ekki má gleyma því að það er frekar erfitt fyrir lögreglumenn að fela lögreglubíl á bak við eitthvað t.d. við hraðamælingar. Lögreglan þarf nefnilega að hafa útsýn yfir veginn til þess að mæla ökutækin.

Einnig er vert að minnast á það að því hraðar sem ekið er, því mjórra verður sjónsvið ökumannsins og viðkomandi horfir lengra fram á veginn. Mjög oft heyra lögreglumenn að ökumenn segi lögregluna hafa verið að fela sig en reynslan er sú að lögreglubifreiðinni var lagt í vegkanti, í allra sýn, en ökumaður sá hreinlega ekki lögreglubifreiðina, enda að horfa langt fram á veginn. Af þessu má sjá að það eitt að aka innan hraðatakmarka eykur líkurnar á að sjá lögreglubifreiðar, en ekki síður aðrar bifreiðar í umferðinni.

Þannig er til lítils að sakast við lögregluna þegar fólk er gripið við hraðakstur. Ábyrgðin er viðkomandi ökumanns, fyrst og fremst.

Posted in: Lögreglan