7 Júní 2016 17:26

Alls urðu níu umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku.

Erlendur ökumaður sem ók eftir leiðsögn gps tækis vestur Snæfellsnesveg var á of miklum hraða og náði því ekki hægri beygju við Vegamót inn Vatnaleiðina, Þegar tækið sagði honum að beygja.  Ökumaður og farþegar sluppu ómeiddir að mestu en bíllinn var mikið skemmdur og óökuhæfur.  Hliðstætt mál og varð nýlega við Heydalsvegamótin en þar endaði ökuferð útlendinga ofaní vegskurði Þegar beygt var skyndilega samkvæmt leiðbeiningum gps tækis, án þess að gætt væri að ökuhraða.  Í því óhappi endaði einn farþeginn á sjúkrahúsi.

Ungur ökumaður velti bíl sínum á Útnesvegi við Arnarstapa er hann var að mæta öðrum bíl.  Ökumaðurinn hlaut höfuðhögg og var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar.  

Ungur ökumaður í innanbæjar akstri á Akranesi, missti stjórn á bílnum sínum og ók á ljósastaur.  Ástæðan fyrir óhappinu var sú að hann var að leita að gsm símanum sínum.  Var ökumaðurinn á lítilli ferð og í bílbelti og slapp hann við meiðsli.  Bíllinn skemmdist töluvert og var dreginn á brott af kranabíl.

Alls voru 5 ökumenn teknir grunaðir um ölvun við akstur í sl viku.  Einn þeirra grunuðu var ökumaður bíls sem fór útaf og valt.  Þar að auki voru 5 ökumenn teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Erlendir ferðamenn sem lögreglan hafði afskipti af á Snæfellsnesi í síðustu viku, reyndust vera með nokkur grömm af kannabisefnum í fórum sínum sem lögreglan lagði hald á.  Þeir sögðust hafa keypt fíkniefnin í Reykjavík.  Gengið var frá málinu með sektargerð.

Hraðamyndavélarnar mynduðu um 400 ökumenn á of miklum hraða víðs vegar um landið, þar af voru um 100 ökumenn myndaðir við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Lögreglumenn mældu og tóku um 40 ökumenn fyrir of hraðan akstur í eftirliti sínu um umdæmið í sl. viku.