14 Nóvember 2016 14:24
Einn maður gisti fangaeymslu á Ísafirði aðfaranótt sunnudagsins 13. Sá hafði verið handtekinn, ölvaður og æstur á veitingahúsi á Ísafirði. Hann var látinn sofa úr sér vímuna og hleypt út þegar hann var orðinn rólegur.
Fjórtán ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Flestir voru þeir stöðvaðir á Djúpvegi í Strandasýslu. Sá sem hraðast ók var mældur á 121 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku, á Vestfjörðum. Annað tilvikið var um að ræða árekstur í miðbæ Ísafjarðar. Tjón á ökutækjum var lítið og engin slys á fólki. Hitt óhappið varð þegar ökumaður missti stjórn á jeppabifreið á leiðinni ofan af Skálavíkurheiði snemma morguns sunnudaginn 13. nóvember. Bifreiðin valt ekki en rann nokkra tugi metra út af veginum. Ökumann eða farþega sakaði ekki.
Eigendur ökutækja eru hvattir til þess að tryggja að bifreiðar þeirra séu færðar til lögbundinnar skoðunar sem og að greiða tryggingaiðgjöld. Lögreglan fær reglulega tilkynningar frá tryggingafélögum um niðurfeldar tryggingar sem hefur þær afleiðingar að lögreglan tekur skráningarmerki af bifreiðum og skilar þeim inn til Frumherja. Sama á við um ökutæki sem ekki hafa verið færð til reglulegrar skoðunar.
Tíðin hefur verið með eindæmum góð, varla komið sá dagur að hálka hafi verið á vegum á Vestfjörðum, a.m.k. á láglendi. Hins vegar má búast við breytingu á þessu, enda komið vel fram í nóvembermánuð. Ökumenn eru hvattir til að undirbúa bifreiðar sínar undir hálku og snjó. Þá eru vegfarendur hvattir til að fylgjast með veðurspá og einnig skoða vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is eða hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar, 1777, áður en lagt er af stað í lengri ferðir.