Árið 2023 var viðburðarríkt hjá lögreglu. Náttúran lét finna fyrir sér með vatnavöxtum, snjóflóðum og jarðhræringum víða um land. Einna viðamestar voru jarðhræringar á Reykjanesi sem síðar leiddu til rýmingar Grindavíkurbæjar þann 10. nóvember og eldgoss norðan við Grindavík 18. desember.

Á árinu tókst lögregla jafnframt á við eitt stærsta löggæsluverkefni sem hún hefur sinnt er Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn hér á landi dagana 16. og 17. maí. Um gríðarlega viðamikið verkefni var að ræða sem nánast allir starfsmenn lögreglu komu að með einum eða öðrum hætti.

Rúmlega 400 mál á sólarhring

Rúmlega 185 þúsund mál komu inn á borð lögreglunnar á landsvísu á árinu en tæplega 37 þúsund þessara mála eru tengd sjálfvirku hraðaeftirliti.   Á árinu voru því að jafnaði skráð rúmlega 400 mál á sólarhring vegna ýmiss konar brota eða verkefna sem lögreglu ber að sinna svo sem vegna  beiðna um aðstoð vegna brota og/eða annarra verkefna. 

Meðal útkallstími forgangsverkefna er átta mínútur

Um þriðjungur þeirra mála sem skráð eru á hverju ári eru vegna útkalla en það eru verkefni þar sem lögregla er kölluð á vettvang, oftast með forgangi. Meðal útkallstími lögreglu, það er tíminn frá því útkall berst lögreglu og þar til lögreglubíll er kominn á vettvang, var árið 2023 um átta mínútur í málum sem krefjast mesta forgangs en um 13 mínútur í málum þar sem ekki er um lífsbjargandi aðstæður að ræða.    

Fjöldi útkalla eftir vikudegi og tíma sólarhrings árið 2023

Fjöldi útkalla 2023 eftir vikudegi og tíma sólarhrings

Útköll eru langtum flest á næturnar um helgar en fæst á næturnar á virkum dögum.  

Tilkynningar til lögreglu eru margvíslegar þannig bárust að að jafnaði þrjár tilkynningar á dag vegna grunsamlegra mannaferða og tíu vegna aðfinnsluverðs háttarlags. Að auki bárust sex tilkynningar á dag um hávaða annað hvort utandyra eða innandyra.

Verkefni lögreglu, þar sem um var að ræða beiðni um aðstoð, voru yfir 10 þúsund á árinu. Flestar voru beiðnirnar aðfaranótt sunnudags og næst flest aðfaranótt laugardags. 

Fjöldi skráðra verkefna í nokkrum verkefnaflokkum 2020-2023 og hlutfallsleg breyting árið 2023 miðað við þriggja ára meðaltal

Um 62 umferðarlagabrot á sólarhring

Tæp 23 þúsund umferðarlagabrot voru skráð hjá lögreglunni á árinu en þá eru ekki talin með hraðakstursbrot sem nást á hraðamyndavélar  (37 þúsund brot). Fjöldinn er svipaður og að meðaltali síðustu 3 ár á undan. Lögregla skráir um 62 umferðarlagabrot á hverjum sólarhring.  

Tæp 11 þúsund hraðakstursbrot voru skráð hjá lögreglunni á árinu (fyrir utan brot sem nást á sjálfvirkar hraðamyndavélar). 

Fjöldi hegningarlagabrota, umferðarlagabrota og annarra sérrefsilagabrota 2006 til 2023

 

Karlar líklegri til að brjóta af sér í umferðinni

Tæplega 44 þúsund  einstaklingar  voru kærðir fyrir umferðarlagabrot á árinu, þar af um 31 þúsund vegna brota sem náðust á sjálfvirkar hraðamyndavélar. Af þessum 44 þúsund einstaklingum voru 70% karlar.  

 Tæp 1.700 brot voru skráð þar sem ekið var undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Um 1.200 einstaklingar voru kærðir fyrir þessi brot. Brotin voru 9% færi miðað við meðaltal sl. 3 ár.  Litlu fleiri eða um 1.600 brot voru skráð þar sem ekið var undir áhrifum áfengis. Um 1.460 einstaklingar voru kærðir fyrir þessi brot. Sjá má að ítrekunartíðni er því hærri meðal þeirra sem grunaður eru um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en vegna ölvunaraksturs. 

Hegningar- og sérrefsilagabrotum fjölgar

Hegningarlagabrotum (↑5%) og sérrefsilagabrotum (↑10%) fjölgaði miðað við meðaltal áranna 2020-2022 á meðan fjöldi umferðarlagabrota stóð í stað.  

Fjöldi mála lögreglu árið 2023 greint eftir umdæmi lögreglu

Flest hegningarlagabrot (75%) eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu

Langtum flest hegningarlagabrot eru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (75% hegningarlagabrota) eða rúmlega 9.200 brot sem svipaður fjöldi og árið á undan. Þetta þýðir að skráð eru um 25 hegningarlagabrot á dag á höfuðborgarsvæðinu. Hegningarlagabrot eru næst flest á Suðurnesjum  (2,7 á dag) og hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra (rúmlega 2,4 á dag). Á Suðurlandi eru hegningarlagabrot um 10 á viku (eða um 1,5 á dag). Í hinum embættunum eru brotin færri, þ.e. hjá lögreglunni á Vesturlandi, Vestfjörðum, Vestmannaeyjum, Austurlandi og á Norðurlandi Vestra. 

Þróun í fjölda hegningarlagabrota er nokkuð mismunandi milli svæða og fjölgar hegningarlagabrotum á Norðurlandi eystra, Suðurnesjum og Austurlandi miðað við þriggja ára meðaltal en fjöldi þeirra stendur í stað eða fækkar á öðrum svæðum. 

Flest brot eiga sér stað í Miðborg

Tæplega helmingur (48%) hegningarlagabrota á höfuðborgarsvæðinu voru með skráðan vettvang á svæði lögreglustöðvar 1, sem nær yfir Háaleiti, Hlíðar, Laugardal, Miðborg, Seltjarnarnes og Vesturbæ. Þar af voru um 16% hegningarlagabrota með skráðan vettvang í Miðborg Reykjavíkur. 

Rúmlega sjö þúsund einstaklingar handteknir

Meira en  7.000 einstaklingar voru handteknir árið 2023. Þar af um 63% á höfuðborgarsvæðinu. Þá voru um 3.700 einstaklingar vistaðir í fangageymslu. Þar af um 60% á höfuðborgarsvæðinu. 

Þegar litið er til grunaðra í hegningarlagabrotum má sjá að 77% grunaðra voru karlar og 23% konur. Þá voru nokkur kynsegin einstaklingar uppvís að brotum. (Grunaðir eru þeir sem eru einhvern tímann grunaðir um brot burtséð frá því hvort gefin sé út ákæra eða ekki) 

Rán aldrei verið fleiri

Fjöldi tilkynntra þjófnaða er sá sami og að meðaltali síðustu þrjú ár á undan og sama gildir um fjölda innbrota. Athygli vekur að tilkynningum um rán fjölgar um 50% á sama tímabili og hafa þau aldrei verið eins mörg á einu ári síðan skráningar hófust eða rúmlega 100. Níu af hverjum tíu þjófnuðum er tilkynntur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sama gildir um rán. 

Ofbeldisbrotum fjölgar milli ára

Þrjú manndráp áttu sér stað árið 2023 sem er svipaður fjöldi og fyrri ár. Ofbeldisbrotum fjölgar miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Fjölgunin er mest í flokki alvarlegra ofbeldisbrota en lögregla hefur haft nokkrar áhyggjur af þeirri þróun. Þannig voru skráð 171 stórfelld og 186 meiriháttar ofbeldisbrot árið 2023 en meðaltal síðustu þriggja ára á undan var 142 stórfelld og 125 meiriháttar brot.  

Einn þáttur sem skýrir þessa þróun í fjölda alvarlegra ofbeldisbrota er fjölgun mála þar sem vopn, þá helst stunguvopn, eru til staðar í málum.  Í slíkum tilvikum þá þarf almenn lögregla alla jafna að vopnast og hefur þeim tilvikum fjölgað verulega síðustu ár og voru skráð 72 slík tilvik árið 2023 samanborið við 40 tilvik árið á undan.  

Árið 2023 voru 465 vopnaútköll  skráð hjá Sérsveit, þ.e. útkall þar sem einhver ber vopn og Sérsveit því kölluð til. Þetta eru 37% fleiri útköll en að meðaltali sl. þrjú ár á undan.  Í 69% þessara mála um að ræða egg- eða stunguvopn og í 16% málanna var um að ræða skotvopn. 

Skráðum kynferðisbrotum fækkar um 30% milli ára

Tilkynningum um kynferðisbrot fækkaði talsvert á árinu, og voru 30% færri í ár en meðaltal síðustu þriggja ára. Fækkunin er aðallega tilkomin vegna færri tilkynninga um brot gegn blygðunarsemi, vændi, og kynferðislegri áreitni. Þá fækkaði tilkynningum um nauðgun um 34% miðað við meðalfjölda tilkynninga síðustu þrjú ár á undan.  

 

Fjöldi brota í nokkrum brotaflokkum 2020-2023 og hlutfallsleg breyting árið 2023 miðað við þriggja ára meðaltal

Svipaður fjöldi heimilisofbeldismála og árið á undan

Heimilisofbeldis tilvik sem komu á borð lögreglu voru svipuð að fjölda miðað við meðaltal sl. þriggja ára á undan, en þau voru tæp 1.100 talsins. Tilvikum vegna ofbeldis af hendi maka/fyrrum maka fjölgaði aðeins (5%), en fjöldinn hélst sá sami þegar um var að ræða ofbeldi af hendi fjölskyldumeðlims (gegn barni, foreldri eða systkini) miðað við meðaltal sl. þriggja ára 

Magn fíkniefna sem lögregla og tollgæsla lagði hald á árin 2014 til 2023

Rúmlega fimm þúsund tilkynningar sendar til barnaverndar

Lögreglan sendi rúmlega  fimm þúsund tilkynningar til barnaverndar á árinu eða 2% fleiri en að meðaltali síðustu þriggja ára á undan. Lögreglan sendir hlutfallslega flestar tilkynningar af tilkynnendum til barnaverndarþjónustu og er samvinna við barnavernd lykilþáttur í heimilisofbeldisverklagi lögreglunnar.

Metár í haldlagningu á marijúana og kókaíni

Aldrei hefur verið haldlagt meira magn af marijúana og kókaíni á íslenskri grund frá upphafi vigtunar og talningar heldur en árið 2023. Lögregla og tollgæsla lagði hald á meira en 200 kg af marijúana og 54 kg af kókaíni. Þá voru haldlögð um 175 kg af hassi en einungis árið 2008 var meira magn haldlagt (213 kg). Magn haldlagðs amfetamíns og amfetamínbasa dróst saman frá árinu á undan og hafa verið nokkrar sveiflur í því mani sem haldlagt hefur verið síðustu ár. Magn MDMA mældist alls 350 grömm eða mun minna en árið áður. 

Fjölbreyttar samskiptaleiðir við lögreglu

Lögreglan er virk á samfélagsmiðlum. Má nefna að Facebook síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er með 98 þúsund fylgjendur, lögreglustjórinn á Suðurnesjum með 22 þúsund fylgjendur og lögreglan á Norðurlandi eystra með yfir 16 þúsund fylgjendur. Þá er Instagram síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með 163 þúsund fylgjendur.

Ekki er lengur tekið á móti einkaskilaboðum á samfélagsmiðlum lögreglunnar en ekki er hægt að tryggja vernd persónuupplýsinga sem miðlað er í gegnum þær síður. Á vefsíðu lögreglunnar má finna upplýsingar um hvaða verkefni er hægt að tilkynna rafrænt um til lögreglunnar.  Þar má einnig finna rafræn eyðublöð vegna hinna ýmsu leyfa.

Ætíð er hægt að hafa samband við lögregluna í gegnum 112, í síma, með textaskilaboðum og í gegnum netspjall.

——

Gögn fyrir árið 2023 voru tekin úr málaskrá lögreglu 29.12.2023 út frá tíma brots eða atviks. Samantektin var unnin af embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Úttektin miðar við tíma brots en ekki hve mörg brot voru tilkynnt á árinu. T.d. voru tilkynnt kynferðisbrot um 500 talsins (en 432 áttu sér stað á árinu).