30 Janúar 2021 17:48

Niðurstöður starfs- og vinnuhópa, annars vegar frá European Anti-Violence Network (EVAN) og ríkislögreglustjóra voru kynntar í gær á blaðamannafundi í Grikklandi.

Dagana 26. og 27. janúar hafa vinnuhópar verið starfandi með hjálp fjarfundarbúnaðar þar sem löggæsluyfirvöld í Grikklandi og á Íslandi hafa borið saman bækur sínar um nálgun lögreglu í heimilisofbeldismálum.

Sendinefndir landanna tveggja kynntu þá aðferðafræði sem notuð er til að vernda og veita góða þjónustu fyrir þolendur heimilisofbeldis, sérstaklega konur og börn. Rætt var ítarlega um ástandið í Grikklandi, þarfirnar og þær áskoranir sem bæði löndin standa frammi fyrir til að bæta þjónustu sem þolendum heimilisofbeldis er veitt. Þá voru einnig ræddar leiðir til að stuðla að árangursríku samstarfi landanna tveggja og frekari samvinnu í málaflokknum.

Í vinnuhópum sátu fulltrúar grískra stjórnvalda og félagasamtaka sem veita þolendum heimilisofbeldis stuðning og vernd og fulltrúar frá embætti ríkislögreglustjóra.

Á blaðamannafundinum í dag tóku Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og sviðstjóri alþjóðadeildar embættisins til máls auk Mariu Syrengela og Stylianis Varduampasis, yfirmanni almennrar löggæslu lögreglunnar í Grikklandi. Í framhaldi af þessum fundi er stefnt að nánara samstarfi milli þjóðanna. Stefnt er að því að vinna saman innan ramma Uppbyggingarsjóðs EES og sækja styrk þangað til áframhaldandi samstarfs og þekkingarmiðlunar.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri alþjóðasviðs embættisins sátu blaðamannafundinn.

Skjáskot af blaðamannafundinum á fimmtudag.