28 Mars 2022 09:01
  • Þriðjungi fleiri heimilisofbeldismál voru tilkynnt árið 2021 en árið 2015.
  • Í 52% tilvika voru náin tengsl eða fjölskyldutengsl milli geranda og þolanda í manndrápsmálum á árunum 2010 til 2020.
  • Ríkislögreglustjóri mun birta uppfærða tölfræði um heimilisofbeldi ársfjórðungslega og tölur um manndráp árlega.

Fjöldi tilvika heimilisofbeldis sem tilkynnt eru til lögreglu hefur aldrei verið meiri en undanfarin tvö ár í samanburði við síðustu sex ár þar á undan. Tilvik ársins 2021 voru þriðjungi fleiri en 2015.  Þá voru ágreiningsmál um 1.000 talsins árið 2014 og einnig á tímabilinu 2018-2021 en færri árin 2015 og 2016 þegar þau voru um 850-900 talsins. Þetta kemur fram í skýrslu sem embætti Ríkislögreglustjóra hefur nú gefið út. Þar er að finna helstu tölur er snúa að heimilisofbeldismálum og ágreiningsmálum milli skyldra eða tengdra einstaklinga sem koma á borð lögreglu.

Markmið stjórnvalda er að hlutfall þeirra sem verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi lækki og að hlutfall brotaþola sem tilkynni það til lögreglu verði 25% árið 2023. Í þolendakönnun lögreglunnar á síðustu árum hafa á bilinu 7-20% svarenda tilkynnt ofbeldi af hendi maka/fyrrum maka til lögreglu.

Í verklagsreglum lögreglu er heimilisofbeldi skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi einhvers nákomins. Með öðrum orðum eru gerandi og þolandi skyldir eða tengdir og háttsemin felur í sér brot sem beinist gegn þolanda, t.d. ofbeldi, hótun eða eignaspjöll. Hins vegar eru tilvik skráð sem ágreiningur milli skyldra og tengdra þegar ekki leikur grunur á broti sem beinist að þolanda. Í lok árs 2014 voru verklagsreglur lögreglu um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála  uppfærðar, sem leiddi til mun markvissari skráningar og skýrist mikill munur milli áranna 2014 og 2015 (um 370 tilvik) af þessari breytingu.

80% gerenda eru karlkyns
Þegar litið er til kyns þolenda í öllum heimilisofbeldismálum, þ.e. ofbeldi í nánum samböndum og ofbeldi af hendi aðila tengdum fjölskylduböndum, má sjá að um 70% þolenda eru kvenkyns og um 80% gerenda karlkyns. Hins vegar þegar eingöngu er litið til ofbeldis maka/fyrrverandi maka, má sjá að hærra hlutfall þolenda er konur, eða 75-80%, en gerendur eru í 80-83% tilvika karlar.

Árið 2016 var sett í lög grein 218b í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Greinin nær yfir brot sem eru þess eðlis að vera endurtekin eða alvarleg og þar sem um er að ræða tengsl á milli geranda og þolanda. Brotin voru 48 árið 2016 og fóru mest upp í 100 brot árin 2019 og 2020. Árið 2021 voru þau 89 talsins.

Fjölskyldutengsl eða náin tengsl milli gerenda og þolenda í helmingi manndrápsmála
Í skýrslunni er jafnframt að finna yfirlit yfir manndrápsmál á árunum 2010-2020 og tengsl hins látna og geranda, auk upplýsinga um aldur og kyn gerenda og þolenda. Í rúmum helmingi tilvika var um að ræða fjölskyldutengsl eða náin tengsl milli gerenda og þolenda en ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka getur stigmagnast eftir því sem tíminn líður og í slíkum aðstæðum getur í einhverjum tilvikum mannslíf verið í húfi.

 

Heimilisofbeldi stendur aldrei eitt og sér og skal ávallt tengt ákvæðum barnaverndarlaga eða almennra hegningarlaga, t.d. líkamsárás, hótun eða kynferðisbroti í skráningu.

Þegar lögreglan kölluð á vettvang þar sem ágreiningur er á milli skyldra og tengdra, en ekki er grunur um ofangreind brot, þá eru málin skráð undir verkefnaflokkinn “ágreiningur milli skyldra/tengdra” í málaskrá lögreglu.

Í Istanbúl samningnum er kveðið á um að ríkjum beri skylda til að birta tölfræði um kynbundin brot og hefur dómsmálaráðherra lagt áherslu á það í samræmi við aukna vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi og kynferðisbrot. Er þessi skýrsla liður í því mikilvæga verkefni. Þá mun embætti Ríkislögreglustjóra framvegis birta ársfjórðungslega tölur um heimilisofbeldi en tölur um manndráp verða þó eingöngu uppfærðar einu sinni á ári.

Upplýsingarnar verða aðgengilegar á nýrri síðu lögreglunnar um tölfræði vegna kynbundins ofbeldi (https://www.logreglan.is/utgafa/stadfestar-tolur/kynbundid-ofbeldi/ ‎)

Nánari upplýsingar veitir Gunnar H. Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, gunnarhg@logreglan.is, s. 845-1665.