6 Nóvember 2013 12:00

Rúmlega 90% íbúa í Árbæ og Grafarholti eru ánægðir með störf lögreglu og segja hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Mikill meirihluti þeirra telur lögreglu einnig aðgengilega, en 81% íbúa í Grafarholti telja svo vera og 70% íbúa í Árbæ. Hinir sömu eru enn fremur mjög eða frekar öruggir einir á gangi í sínu hverfi eftir myrkur, en svo segja 91% íbúa í Árbæ og 85% íbúa í Grafarholti. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun, sem lögreglan lét framkvæma í vor, en í henni var kannað viðhorf borganna til lögreglu. Niðurstöðurnar voru kynntar á árlegum fundi lögreglunnar með lykilfólki í Árbæ og Grafarholti, sem haldinn var í gær. Það skal áréttað að í umræddri könnun, sem og í tölfræði lögreglu, sem var einnig kynnt á fundinum, telst Úlfarsárdalur með Grafarholti og Ártúnsholt og Norðlingaholt með Árbæ.

Fundurinn var annars hinn gagnlegasti og ágætlega var mætt. Líkt og á öðrum hverfa- og svæðafundum undanfarnar vikur var farið vel yfir stöðu mála og þróun brota í hverfunum. Almennt hefur orðið jákvæð þróun á höfuðborgarsvæðinu öllu og brotum fækkað. Það á líka við um Árbæ og Grafarholt og sérstök ástæða er til að nefna fækkun innbrota á heimili. Þess má geta að fundurinn í gær var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér.