14 Nóvember 2014 12:00

Það vantaði ekki áhugann þegar lögreglan hitti fulltrúa Breiðhyltinga að máli á árlegum svæðafundi, sem haldinn var í gær. Fjölmenni var á fundinum og umræðurnar líflegar og skemmtilegar. Fundargestir klöppuðu sérstaklega fyrir lögreglumönnunum sem þeim þótti hafa staðið sig vel þegar málefni Breiðhyltinga eru annars vegar. Hinir sömu voru auðvitað ánægðir með hrósið, en Breiðhyltingar vilja hafa góð tengsl við lögregluna og sakna þess tíma þegar hún var með fasta viðveru í hverfinu.

Einn fundargesta velti upp þeirri athyglisverðu hugmynd hvernig íbúar í hverfinu gætu stutt lögregluna og sá ýmsa möguleika í þeim efnum. Í því samhengi var m.a. rætt um hvernig auka mætti öryggi og öryggistilfinningu íbúanna. Fulltrúum lögreglunnar leist vel á þessar hugmyndir og fagna samstarfi á þessu sviði sem öðrum. Líkt og á öðrum svæðafundum fór nokkur tími í að fara yfir stöðu mála og þróun brota, en tölfræðina frá fundinum í Breiðholti má annars nálgast með því að smella hér.