23 Júní 2003 12:00

Föstudaginn 20. júní sl. gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur (mál S-4098/2002) í hinu seinna af tveimur svo kölluðu verktakamálum. Í málinu ákærði Ríkislögreglustjórinn framkvæmdastjóra byggingarfyrirtækis, byggingafyrirtækið og annan mann fyrir stórfelld brot gegn lögum um virðisaukaskatt, tekjuskatt og eignarskatt og bókhald. Framkvæmdastjórinn var dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi og fyrirtækið ásamt honum dæmt til greiðslu kr. 13.850.000 sektar og var framkvæmdarstjóranum gert að sæta 6 mánaða fangelsi til vara ef sektin verður ekki greidd innan fjögurra vikna. Umrædd brot voru framin á árunum 1998 – 2001.

Í málinu hlaut hinn maðurinn níu mánaða skilorðsbundið fangelsi auk kr. 4.600.000 sektar, og þriggja mánaða vararefsingar, fyrir hlutdeild í brotum verktakans auk eigin brota gegn skattalögum og lögum um bókhald. Hlutdeildarbrot sín framdi maðurinn með því að hann afhenti verktakanum 7 tilhæfulausa reikninga samtals að fjárhæð rúmar kr. 15.000.000 sem verktakinn var fundinn sekur um að hafa notað til lækkunar skilaskyldum virðisaukaskatti með innsköttun þeirra og til gjaldfærslu til lækkunar tekjuskatti fyrirtækis síns. Með þessu lækkaði verktakinn skatta fyrirtækis síns um tæpar kr. 5.000.000.  Reikningarnir 7 voru útgefnir á nafn, kennitölu og virðisaukaskattsnúmeri tveggja manna sem ekkert tengdust málinu og þekktu verktakann ekkert né höfðu unnið fyrir hann. Reikningar þessir höfðu verið undirritaðir af mönnunum gegn greiðslu. Sýnt var fram á það í málinu að umræddir tveir menn höfðu lítið stundað vinnu á þeim tíma sem um ræðir sökum óreglu.

Mál þetta tengist öðru sambærilegu máli sem Ríkislögreglustjórinn ákærði í og sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. maí sl. (Mál S-4099/2002) Þar ákærði Ríkislögreglustjórinn verktaka og tvo aðra menn fyrir stórfelld brot gegn lögum um virðisaukaskatt, tekjuskatt og eignarskatt og bókhaldslögum framin á árunum 1999 og 2000. 

Mál þessi tengjast þar sem annar mannana í því síðar er sá sami og dæmdur var í hinu fyrra sem fundinn var sekur um að hafa afhent verktakanum í seinna málinu 8 reikninga í eigin nafni og 21 reikning í nafni framangreindra tveggja óreglumanna. Verktakinn játaði og var sakfelldur fyrir að hafa notað reikningana til lækkunar á skilaskyldum virðisaukaskatti með innsköttun þeirra sem og lækkunar á tekjuskatti sínum með gjaldfærslu þeirra í bókhaldi sínu, þrátt fyrir að engin vinna eða viðskipti hefðu staðið á bak við reikningana. Samtals kom verktakinn sér með þessu undan skattgreiðslu að fjárhæð rétt rúmlega kr. 15.000.000 á árinu 1999.

Að auki var verktakinn og þriðji maðurinn sem er sonur hans sakfelldir fyrir sambærileg brot á árinu 2000 þar sem sonurinn afhenti föður sínum tilhæfulausa reikninga sem hann gaf út í nafni einkahlutafélags sem hann tengdist samtals að fjárhæð tæpar kr. 9.000.000. Verktakinn notaði á sama hátt og greint er frá hér að framan til lækkunar á skattskilum sínum og í bókhaldi nam ólögmætur innskattur af þessum reikningum tæpum kr. 1.800.000. Sonurinn var sakfelldur fyrir hlutdeild í brotum föður síns á lögum um virðisaukaskatt auk skattalagabrota sem hann sjálfur hafði famið með því að standa ekki skil á virðisaukaskatti af sölu hans sjálfs á vinnu til ótengds aðila.

Verktakinn var dæmdur til að sæta 12 mánaða fangelsi hvar af 9 voru skilorðsbundnir auk kr. 48.500.000 sektar, með 12 mánaða vararefsingu. Sonur verktakans var dæmdur til að sæta 9 mánaða fangelsi skilorðsbundið og greiða kr. 3.600.000 sekt til vara að sæta fangelsi í 3 mánuði. Ekki þjónar tilgangi að fjalla um refsingu hins mannsins þar sem dómur þessi var dæmdur upp í seinna málinu og er refsingin ákveðin í einu lagi og hluti af þeim 9 mánað fangelsisdómi sem að framan greinir.

Samanlagðar sektir í málum þessum nema kr. 70.550.000 sem eru með þeim hæstu sem gerðar hafa verið í refsimáli og er refsing verktakans í síðartalda málinu nálægt hæstu sekt sem gerð hefur verið í refsimáli á Íslandi til þessa en sú hæsta er kr. 50.000.000 og var gerð í skattamáli sem dæmt var í Hæstarétti árið 1997.

Ríkislögreglustjórinn hefur á  síðari árum haft til meðferðar mörg mál þar sem tilhæfulausir reikningar ganga kaupum og sölum.

Góðan árangur í uppljóstrun þessara brota má þakka góðu samstarfi efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjórans og Skattrannsóknarstjóra ríkisins.