16 Janúar 2015 09:37

Europol

Europol hefur gefið út viðvörun vegna dreifingar á vímuefninu PMMA. Eiturlyfið hefur verið að ryðja sér rúms meðal vímuefnaneytanda í Evrópu og er keimlíkt MDMA en er enn hættulegra. Vímuáhrif hins ólöglega vímuefnis koma hægt fram og því aukast líkur á ofskammti – neytendur sem eru vanir áhrifum MDMA gætu talið að efnið væri veikt og tekið inn meira af efninu til að auka áhrifin en lent í því að taka inn ofskammt. Þá hafa mælingar leitt í ljós að hlutfall PMMA í einni töflu getur verið þrefalt yfir hættumörkum og verið lífshættulegt.

Efnið veldur hækkun á líkamshita, heilabólgu, blóðrásartruflunum, eyðileggingu á vöðva- og lifrarfrumum, og í alvarlegustu tilfellum dregið neytandann til dauða. Eitt dauðsfall má rekja til efnisins hér á landi fyrir þrem árum en í Evrópu hafa slíkar eitranir verið að færast í vöxt. Á undanförnum vikum má tengja dauðsföll við þetta efni í Svíþjóð og Bretlandi.

Eiturlyfið er í pilluformi og hefur notkun á súpermanmerkinu verið tengd því þó að það sé alls ekki einhlítt og það getur verið á öðru formi.

Lögreglan beinir því til allra að vera vakandi fyrir þessu hættulega efni og að vekja athygli á því meðal þeirra sem það telur þörf á. Unglingar eru í sérstökum áhættuhóp og því beinum við því til forráðamanna að eiga umræðu um slíkar hættur við börn sín.

Bæði PMMA og MDMA eru flokkuð sem eiturlyf á Íslandi og eru sala og meðferð ólögleg.

MDMA-PMMA