7 Febrúar 2003 12:00

 Fíkniefni finnast

Á tíunda tímanum í gærkveldi réðust lögreglumenn í Bolungarvík, með aðstoð lögreglumanna á Ísafirði, til inngöngu í íbúð í Bolungarvík í leit að fíkniefnum, að fenginni húsleitarheimild dómara.  Tilefnið var grunur um neyslu og dreifingu fíkniefna úr íbúðinni.  Í tengslum við leitina var par handtekið í Bolungarvík, en maðurinn á umrædda íbúð.

Skömmu áður en lögreglan lét til skarar skríða var par sem var akandi á leið til Ísafjarðar frá umræddri íbúð handtekið í Hnífsdal af lögreglunni á Ísafirði. Við leit í bifreið þess fundust áhöld til neyslu kannnabisefna. Barn var með í bifreiðinni og var því strax komið til vandamanna.  Við yfirheyrslur hjá lögreglu viðurkenndi parið að hafa tekið við tveimur grömmum af  marihúana-efnum af þeim sem bjó í íbúðinni.  Parinu var sleppt eftir yfirheyrslur á fjórða tímanum í nótt.     

Um var að ræða samstarfsverkefni lögreglunnar í Bolungarvík og á Ísafirði, en rannsókn þessa máls hefur staðið yfir undanfarna daga.  Við húsleitina í íbúðinni í Bolungarvík fundust nokkur grömm af marihúanaefnum, auk áhalda sem greinilega hafa verið notuð til fíkniefnaneyslu.  Parið sem leitað var hjá í Bolungarvík var í haldi hjá lögreglunni fram á miðjan dag í dag en var leyft að fara frjálsu ferða sinna að yfirheyrslum loknum. 

Rannsókn þessa máls leiddi í ljós að sala fíkniefna hafði farið fram úr umræddi íbúð í Bolungarvík í gærkvöldi ásamt því að pörin tvö viðurkenndu að hafa verið í neyslu fíkniefna undanfarið.