5 Ágúst 2013 12:00

kl. 13:31 var tilkynnt um flugslys á keppnissvæði Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjallsveg ofan Akureyrar. Unnið var eftir flugslysaáætlun Akureyrarflugvallar eftir því sem við átti og aðgerðarstjórn Almannavarna Eyjafjarðar kölluð út.

Þarna hafði flugvélin TF-MYX í eigu Mýflugs af gerðinni Beechcraft King Air 200 brotlent á spyrnubraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjall. Flugvélin var að koma úr sjúkraflugi frá Reykjavík og í henni voru tveir flugmenn og sjúkraflutningsmaður frá Slökkviliði Akureyrar. Annar flugmannanna og sjúkraflutningsmaðurinn létust í slysinu. Líðan flugmannsins sem komst af er eftir atvikum og  mun hann ekki vera alvarlega slasaður. Tildrög slyssins eru nú til rannsóknar hjá Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri og Rannsóknarnefnd flugslysa.

Þegar slysið átti sér stað stóð yfir spyrnukeppni hjá Bílaklúbbi Akureyrar og var fjöldi fólks á svæðinu, bæði keppendur og áhorfendur. Var fólkinu vísið í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Glerárkirkju sem virkjuð var vegna slyssins þar sem það fékk viðeigandi aðstoð. Svæði Bílaklúbbsins verður lokað þar til rannsókn á vettvangi lýkur og búið er að fjarlægja brakið.