16 September 2011 12:00

Allt of oft gerist það að ökutæki eru skilin eftir án þess að frá þeim sé tryggilega gengið.  Hurðar ökutækja eru þá ólæstar, ræsilyklar í kveikjulás og, í verstu tilvikunum, ökutækin bæði ólæst og í gangi.

Slík tilvik, sem koma gjarnan til þegar ökumaður hleypur inn í verslun eða hyggst skreppa tímabundið frá einhverra erinda, verða þess á tíðum valdandi að verðmætum er stolið úr bifreiðum eða bifreiðunum sjálfum ekið á brott af óprúttnum aðilum. 

Ekki þarf að orðlengja þau óþægindi sem af þessu skapast, tjón og einnig hættu sem því getur fylgt þurfi lögregla að stöðva ökumenn á stolnu ökutæki, ökumenn sem jafnvel eru í misjöfnu ástandi og án réttinda til aksturs.

Að þessu sögðu bendir lögregla ökumönnum vinsamlegast á þá ábyrgð sem á þeim hvílir hvað þetta varðar, en skýrt er kveðið á um skyldur þeirra samkvæmt umferðarlögum til að ganga tryggilega frá ökutækjum sínum. Þá getur vanræksla að þessu leyti leitt til þess að tjón er ekki bætt af hálfu tryggingafélags.

Lögregla hvetur ökumenn því til að skilja ökutæki aldrei eftir ólæst eða í gangi.