1 Ágúst 2013 12:00
Lögreglan á Selfossi leitaði fíkniefna í húsi á Selfossi í gær eftir að Héraðsdómur hafði úrskurðað um að leitin væri lögreglu heimil. 13 grömm af kannabis fundust við leitina, fræ til kannabisræktunar og lítilræði af LSD sem ekki er algengt að finnist í dag. Húsráðandi kannaðist við að eiga efnin og hafa ætlað þau til sölu.
Lögreglan á Selfossi mun á næstunni leggja sérstaka áherslu á leit að fíkniefnum og beinir því til foreldra að vera vakandi yfir börnum sínum því fíkniefnasalar munu reyna hvað þeir geta til að koma nýjum neytendum á bragðið um komandi verslunarmannahelgi. Algengt er að því sé haldið fram að neysla kannabis sé fólki skaðlaus og þeir sem hafa hag af því að selja það munu leggja töluvert og fyrirhöfn fé til að halda þeirri skoðun á lofti. Lögreglumenn þekkja allir hversu dapurlegt er að tala við vel gerð ungmenni sem neytt hafa efnisins í stuttan tíma, jafnvel örfáa daga og eru strax orðin dauf og sljó af henni. Skynsamlegt er að setjast niður með börnum sínum og ræða við þau um skaðsemi þessara efna.
Foreldri sem veltir fyrir sér að kaupa áfengi fyrir börn sín þarf að hugsa um þá staðreynd að ungmenni sem ætlar bara að fá sér aðeins bjór er, með því, búið að veikja varnir sínar þegar kemur að því að því verður boðið að prófa t.d. saklaust gras til að reykja eða að taka eina E pillu.
Besta leiðin í þessu ferli öllu saman er að fjölskyldan skemmti sér saman, ungir sem gamlir, án vímuefna. Þá eru foreldrar hvattir til að setja sig í samband við aðra foreldra í vinahóp barnanna svo allir hafi réttar upplýsingar um fyrirhugaða skemmtun helgarinnar.