10 Ágúst 2012 12:00

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum í morgun eftir að töskugámur hafði rekist í flugvél við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verið var að lesta vélina þegar óhappið varð. Ástæða þess var sögð sú, að færibandið hefði ekki verið stillt rétt af miðað við staðsetningu lestarlúgunnar með þeirri afleiðingu að gámurinn rakst utan í hana. Skemmdir urðu litlar.

Gerði þarfir sínar í garði nágranna

Alltof mikið er um það að lögreglunni á Suðurnesjum berist kvartanir vegna lausagöngu hunda í umdæminu. Í gær barst til að mynda kvörtun frá íbúa í Njarðvík um að hundur nágranna hans gengi ítrekað laus og valsaði um þar sem honum sýndist. Sá sem kvartaði sagði að nú væri mælirinn fullur því hundurinn hefði skitið í garðinn hjá sér og væri það til á upptöku. Málið var tilkynnt til heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Lögregla minnir á að lausaganga hunda er bönnuð.