27 Október 2014 12:00

Fundaherferð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram á fimmtudag, en þá voru Hafnfirðingar heimsóttir. Fundurinn var hinn líflegasti enda mætingin góð og hefur svo jafnan verið þegar fulltrúar lögreglunnar heimsækja Hafnfirðinga. Rýnt var í tölur og þróun brota skoðuð, en í þeim efnum er margt jákvætt að sjá í þessu rúmlega 27 þúsund manna bæjarfélagi. Tölfræði frá fundinum er annars hægt að nálgast með því að smella hér.

Þrátt fyrir ágæta stöðu mála í Hafnarfirði á ýmsum sviðum vill lögreglan alltaf reyna að gera betur. Rætt var sérstaklega um heimilisofbeldismál í því samhengi, en embættið horfir m.a. til þess hvernig til hefur tekist í þeim efnum hjá kollegum á Suðurnesjum. Hafnfirðingum leist vel á hugmyndina og eru tilbúnir til samstarfs á því sviði. Hafnfirðingar voru reyndar ansi sáttir með störf lögreglunnar, en 97% þeirra telja lögreglu skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum í sveitarfélaginu. Um það og margt fleira má lesa um í tölfræði fundarins, sem minnst var á hér að framan.