26 Október 2009 12:00

Það voru  góðir gestir sem heimsóttu lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á dögunum en þar voru á ferðinni konur úr lionsklúbbnum Eir. Þessar kraftmiklu Lionskonur hafa stutt lögregluna dyggilega í gegnum árin og sýnt henni ótrúlega velvild. Nú síðast í sumar færði lionsklúbburinn þeirra fíkniefnadeildinni veglega peningagjöf og það ekki í fyrsta skipti. Eins og áður kom gjöfin að góðum notum en peningunum var varið til kaupa á tækjum og búnaði fyrir deildina. Starfsmönnum fíkniefnadeildarinnar var því heiður að taka á móti þessum sómakonum og kynna fyrir þeim með ítarlegum hætti út á hvað starf þeirra gengur. Í lok heimsóknarinnar var boðið upp á veitingar og þá var tekin meðfylgjandi mynd.