19 Janúar 2015 15:54

Eftir nokkuð annasamar vikur í byrjun árs var síðasta vika með rólegra móti hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.  Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhús bæjarins.  Eitthvað var þó, að vanda, um að aðstoða þyrfti fólk vegna hinna ýmsu atvika sem upp komu í tengslum við skemmtanahald þess.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í liðinni viku án þess þó að um slys á fólki hafi verið um að ræða.   Óhappið átti sér stað á gatnamótum Kirkjuvegar og Skólavegar en ökumaður bifreiðar sem ekið var eftir Kirkjuvegi missti stjórn á akstrinum sökum hálku með þeim afleiðingum að bifreiðin sem hann ók lenti á kyrrstæðri bifreið sem var á gatnamótunum.  Önnur bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn og var flutt í burtu með kranabifreið.