26 Janúar 2015 15:33

Eins og fyrri vika var frekar rólegt hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í liðinni viku og engin alvarleg mál sem upp komu.  Rólegt var yfir skemmtanahaldinu um helgina og fáir sem voru á öldurhúsum bæjarins.

Skömmu fyrir hádegi þann 19. janúar sl. fékk lögreglan átta tilkynningar um að þakplötur og klæðningar væru að losna af húsum hér í bæ, en töluvert suð-austanhvassviðri gekk þá yfir eyjarnar.  Ekki varð þó mikið tjón í veðurhamnum og engin slys á fólki.

Að morgni 22. janúar sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys í Skipalyftunni en þarna hafði starfsmaður Skipalyftunnar verið að fara niður af tanki í stiga en missteig sig eitthvað og féll úr stiganum.  Maðurinn mun hafa lent á vinstri hlið og er talið að hann hafi brotnað á mjöðm.  Fallið var um 2 metrar.

Eftir hádegi þann 23. janúar sl. var lögreglu tilkynnt um tvo árekstra sem rekja má til hálku sem skyndilega skall á götum bæjarins.  Ekki var um alvarleg óhöpp að ræða og engin slys á fólki.