29 Mars 2016 15:45

Páskahelgin fór fram með ágætum og engin alvarleg mál sem upp komu. Skemmanahaldið gekk með ágætum og að mestu áfallalaust.

Í liðinni viku var enn á ný tilkynnt um nytjastuld á léttu bifhjóli og hafði umrætt hjól verið tekið við hús í Foldahrauni. Var þarna um tvo drengi að ræða og höfðu þeir verið að aka hjólinu þarna um nágrennið.

Undir kvöld á skírdag var tilkynnt um sömu drengi og tekið höfðu léttbifhjólið, þar sem þeir höfðu farið inn í bílskúr við hús í Búhamrinum. Voru þeir búnir að taka hina ýmsu hluti ófrjálsri hendi þarna inni og töldu sig vera í rétti þar sem húsið var búið að vera mannlaust í einhvern tíma.

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu um páskana og má rekja bæði óhöppin til hálku. Í fyrra tilvikinu var um að ræða óhapp á Hamarsvegi þar sem ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti á ljósastaur.  Ekki urðu alvarleg slys á fólki í óhappinu en bifreiðin var óökufær á eftir.

Síðdegis á annan í páskum var lögreglu tilkynnt um útafakstur á Dalavegi en þarna hafði ökumaðurinn misst stjórn á bifreið sinni þannig að bifreiðin lenti utanvega og valt eina veltu. Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinn, kvartaði yfir eymslum eftir óhappið. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið.

Alls liggja fyrir fimm kærur vegna brota á umferðarlögum eftir liðna viku. Í fjórum tilvikum var um að ræða ólöglega lagningu ökutækja og í einu tilviki akstur án ökuréttinda.