2 Maí 2016 15:37

Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var þó um að lögreglan þurfti að aðstoða fólk til síns heima vegna ástands þess.

Eitt fíkniefnamál kom upp í liðinni viku en þá var höfð afskipti af ungum dreng í tengslum við fíkniefnmisferli. Viðurkenndi drengurinn sölu fíkniefna hér í Eyjum og telst máli upplýst.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni án þess þó að um slys á fólki hafi verið að ræða. Ökutækin skemmdust eitthvað í óhappinu.

Eitt brot gegn umferðarlögum var kært í vikunni en þarna hafði ökumaður lagt bifreið sinni ólöglega og má búast við sekt.

Lögreglan vill minna ökumenn og eigendur ökutækja að skipta yfir á sumardekkin en fljótlega verður farið að sekta þá sem aka um að negldum hjólbörðum.   Rétt er að minna á að sektin fyrir akstur á negldum hjólbörðum er kr. 5.000,- á hvern negldan hjólbarða.

Lögreglan vill koma þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna barna að þann 1. maí nk. breytist útivistatími barna og lengist þá heimildi þeirra til að vera á almannafæri um tvær klukkustundir, eins og fram kemur í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002:

„Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“

Varðandi aldur þá er miðað við almannaksár.