4 Júní 2004 12:00
Dagana 17.-28. maí 2004 stóð Ísland á iði annað árið í röð fyrir Hjólað í vinnuna þar sem starfsfólk var hvatt til að nýta eigin orku til að ferðast á milli staða. Samstarfsaðilar verkefnisins voru Rás 2, Landssamtök hjólreiðamanna (LHM), Hjólreiðafélag Reykjavíkur (HFR), Íslenski Fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) og Hjólreiðanefnd ÍSÍ.
Meginmarkmið „Hjólað í vinnuna“ er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Í ár var sú nýbreytni tekin upp að allir þeir sem komu sér með eigin afli til og frá vinnu voru gjaldgengir þátttakendur og breytti engu hvort þeir hjóluðu, skokkuðu, gengu eða notuðu línuskauta.
Starfsfólk Lögregluskóla ríkisins tók, eins og í fyrra, þátt í keppninni en þar var annars vegar keppt um flesta þátttökudaga og hins vegar flesta hjólaða kílómetra (hlutfallslega miðað við fjölda starfsmanna í fyrirtækinu). Keppt var í mismunandi flokkum eftir fjölda starfsmanna á hverjum vinnustað og var Lögregluskólinn í þeim flokki sem telur 10 29 starfsmenn.
Þriðjudaginn 1. júní s.l. voru úrslitin kunngerð og þá kom í ljós að Lögregluskóli ríkisins hafði lent í öðru sæti í sínum flokki hvað varðar flesta hjólaða kílómetra en að meðaltali hjólaði hver starfsmaður 74,10 kílómetra. Forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, afhenti verðlaun við hátíðlega athöfn og hafði sérstaklega á orði að hann fagnaði þátttöku starfsmanna Lögregluskólans sem kölluðu sig Garpana.
Vissulega er þetta góður árangur og frábært framtak þeirra starfsmanna sem tóku þátt. Á engan úr þátttökuliði skólans er hallað þótt hér sé sérstaklega getið framlags Halldórs Rósmundar Guðjónssonar sem einn daginn hjólaði í og úr vinnu þrátt fyrir að hann sé búsettur í Njarðvíkum en Lögregluskólinn sé til húsa að Krókhálsi 5b í Reykjavík.
Þess má geta að lokum að Garparnir hafa þegar hafið undirbúning fyrir næstu keppni.