18 September 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina tæplega tvítugan karlmann sem ók undir áhrifum fíkniefna og endaði aksturinn uppi á Reykjavíkurtorgi á Hafnargötu. Maðurinn var óánægður með afskipti lögreglu og lét ófriðlega. Flytja þurfi hann í járnum á lögreglustöð, þar sem hann játaði neyslu á kannabis. Þá hafði lögregla afskipti af öðrum ökumanni sem reyndist bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna við aksturinn. Þriðji ökumaðurinn, sem lögregla stöðvaði, reyndist hafa neytt áfengis áður en hann ók af stað. Tveir hinir síðarnefndu voru einnig fluttir á lögreglustöð þar sem tekin var af þeim skýrsla.

Réttindalaus, með prófbókina í bílnum

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í fyrradag akstur rúmlega tvítugs karlmanns, sem reyndist ekki hafa ökuréttindin í lagi. Spurður um ökuskírteini kvaðst hann ekki eiga svoleiðis skilríki, enda ekki nema von þar sem hann væri í miðjum klíðum að taka ökupróf. Hann tjáði lögreglu að hann væri búinn með verklega þáttinn í prófinu, en ætti eftir þann bóklega og væri meir að segja með prófbókina með sér í bílnum. Hann kvaðst vera stórundrandi á að lögreglan skyldi vera að skipta sér af honum þegar málum væri svona háttað. Honum var tjáð að hann yrði að ljúka öllum prófferlinum áður en hann gæti farið að keyra og svo var hann sektaður á staðnum.

Átta óku of hratt

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af átta ökumönnum um og eftir helgina sem allir áttu það sameiginlegt að aka yfir löglegum hámarkshraða. Sá sem hraðast ók á Reykjanesbrautinni, þar sem hámarkshraði er 90 km., mældist á 129 kílómetra hraða. Annar ökuþór mældist á 111 km. hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km. og hinn þriðji mældist á rúmlega 80 kílómetra hraða þar sem leyfilegt er að aka á allt að 50 km. hraða. Þá voru númer klippt af þremur bifreiðum, sem ekki höfðu verið færðar til skoðunar á réttum tíma.